mið 17. júlí 2019 10:49
Arnar Daði Arnarsson
Jóhannes Karl að taka við KR
Jóhannes Karl er að taka við KR.
Jóhannes Karl er að taka við KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl Sigursteinsson er samkvæmt heimildum Fótbolta.net að taka við kvennaliði KR í Pepsi Max-deildinni.

Bojana Besic sem stýrt hefur KR-liðinu frá október 2017 ákvað að stíga til hliðar í byrjun mánaðarins og hefur Ragna Lóa Stefánsdóttir stýrt KR-liðinu í síðustu leikjum. Hún var aðstoðarþjálfari liðsins þegar Bojana var við stjórnvölinn.

Jóhannes Karl þjálfaði síðast lið HK/Víkings til sigurs 1. deildinni sumarið 2017 en eftir tímabilið ákvað hann að hætta með liðið. Hann er því að koma til baka í meistaraflokksþjálfun eftir tæplega tveggja ára fjarveru.

Jóhannes Karl er þriggja barna faðir en sambýliskona hans er markadrottningin, Harpa Þorsteinsdóttir fyrrum framherji Stjörnunnar og íslenska landsliðsins en hún er að jafna sig af meiðslum sem hún hlaut í bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Breiðabliks á síðasta sumri.

Jóhannes Karl var meðal áhorfenda í 3-2 sigri KR á HK/Víkingi í gærkvöldi í Frostaskjólinu. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net gæti Jóhannes Karl verið kynntur sem þjálfari KR seinna í dag.

KR er í 5. sæti deildarinnar með 10 stig en liðið hefur unnið tvo leiki í röð undir stjórn Rögnu Lóu.
Athugasemdir
banner
banner
banner