Allt útlit er fyrir að gluggadagurinn á morgun verði sá líflegasti í mörg ár. Fótbolti.net hefur því ákveðið að taka púlsinn á eldheitum stuðningsmönnum stærstu félaganna á Englandi.
Kristján Atli Ragnarsson, stuðningsmaður Liverpool, reiknar með því að Philippe Coutinho verði áfram leikmaður félagsins þegar glugginn lokar.
Kristján Atli Ragnarsson, stuðningsmaður Liverpool, reiknar með því að Philippe Coutinho verði áfram leikmaður félagsins þegar glugginn lokar.
„Já. Eigendurnir sögðu síðast í gærkvöldi (29/8) að hann væri enn ekki til sölu. Ég sé ekki að það breytist úr þessu, sama hvað slúðrið segir. Þetta virðist vera prinsippmál fyrir eigendur Liverpool. Ég myndi veðja á að hann verði kyrr, þótt það sé aldrei hægt að segja aldrei," sagði Kristján Atli við Fótbolta.net í dag.
Gluggadagurinn hjá Liverpool gæti orðið líflegur á morgun en Jurgen Klopp er með nokkur járn í eldinum.
„Við bíðum enn eftir Van Dijk. Viðbót á miðjuna væri frábær og það virðist nokkuð ljóst að annað hvort Thomas Lemar eða Oxlade-Chamberlain kemur, fer eftir því hvort Mónakó fæst til að selja eða ekki. En liðinu vantar annan miðvörð og við vitum hvern Klopp vill. Vonandi er eitthvað óvænt eftir í Van Dijk-málum. Ég veðja samt á að einn miðjumaður komi inn og þar við sitji," sagði Kristján en sér hann eitthvað óvænt til viðbótar gerast á morgun?
„Ekkert óvænt svo sem. Lemar, Ox-Chamberlain og Van Dijk eru sögur sem gætu farið alla leið í glugganum en engin þeirra er óvænt, þannig séð. Spennan mun fyrst og fremst snúast um hvort 1-2 af þessum kaupum klárast áður en glugginn skellur á puttana á Liverpool-mönnum."
Liverpool hefur nú fengið keypt Mohamed Salah, Andrew Robertson og Dominic Solanke. Er Kristján ánægður með gluggann á Anfield í sumar?
„Nei. Ekki fyrr en ég sé miðvörðinn sem við viljum öll, og Klopp mest af öllum, stilla sér upp í rauðri treyju á Melwood. Það var lykilatriði strax í vor að bæta vörnina og auka breidd þar. Við bíðum enn eftir miðverði, það er í raun síðasta holan sem þarf að stoppa í svo að maður geti litið á leikmannahóp Liverpool og sagt að það sé varla veikleika að finna. Allt sem hefur gerst hingað til er jákvætt, en ég bíð enn eftir miðverðinum. Spurðu mig aftur 1. sept," sagði Kristján að lokum.
Athugasemdir