fim 12.apr 2018 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net - 12. sæti: Keflavík
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að nýliðar Keflavíkur falli úr Pepsi-deildinni í sumar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Keflavík endar í 12. sæti ef spáin rætist.
Keflvíkingar komust upp úr Inkasso-deildinni síðastliðið haust.
Mynd/Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur og Eysteinn Húni Hauksson aðstoðarþjálfari.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11. ?
12. Keflavík 15 stig
Um liðið: Keflvíkingar endurheimtu sæti sitt í deild þeirra bestu í fyrra eftir tvö ár í Inkasso-deildinni. Keflavík var á toppnum fyrir lokaumferðina í Inkasso-deildinni en eftir tap gegn HK í lokaumferðinni endaði liðið í 2. sæti á eftir Fylki.
Þjálfari - Guðlaugur Baldursson: Laugi fór upp með Keflvíkinga á sínu fyrsta ári sem þjálfari liðsins. Laugi hafði verið aðstoðarþjálfari FH í nokkur ár en þegar Heimir Guðjónsson ákvað að skipta um aðstoðarmann fékk hann tilboð frá Keflavík. Laugi fékk ungur eldskírn sína í efstu deild sem þjálfari ÍBV en hann þjálfaði síðan ÍR einnig í nokkur ár.
Er hópurinn nægilega sterkur?
Styrkleikar: Keflvíkingar eru með marga unga og efnilega uppalda stráka sem eru með stórt Keflavíkurhjarta og hafa burði til að ná langt í fótboltanum. Jeppe Hansen var markakóngur í Inkasso-deildinni í fyrra og þar er á ferðinni markaskorari með góða reynslu úr Pepsi-deildinni. Laugi er klókur þjálfari sem náði fljótt að mynda sterka liðsheild hjá Keflavík í fyrra og það sama verður að vera uppi á teningnum í ár. Varnarleikurinn hefur verið traustur í vetur og hægt er að byggja ofan á það.
Veikleikar: Keflvíkingar ætluðu sér meiri hluti á leikmannamarkaðinum eftir að þeir fóru upp en lítið hefur gerst í vetur. Spurning er hvort hópurinn sé nógu öflugur fyrir Pepsi-deildina en stökkið getur verið hátt úr Inkasso-deildinni. Margir leikmenn í liðinu hafa litla eða enga reynslu af Pepsi-deildinni og þá er óvíst hvort að breiddin sé nægilega mikil þegar á reynir. Sóknarleikurinn hefur verið stirður á undirbúningstímabilinu og meiri sköpunargleði vantað þar.
Lykilmenn: Jeppe Hansen og Marc McAusland. Jeppe á að skora mörkin fyrir Keflavík og hann verður að halda áfram uppteknum hætti síðan á síðasta tímabili. Marc hefur verið eins og klettur í vörninni hjá Keflavík undanfarin ár en þessi öflugi Skoti er með fyrirliðabandið og bindur varnarleikinn saman.
Gaman að fylgjast með: Ísak Óli Ólafsson var valinn efnilegastur í Inkasso-deildinni í fyrra. Mjög efnilegur varnarmaður sem var í lykilhlutverki hjá Keflavík í fyrra. Ísak er 17 ára gamall en hann spilar af mikilli yfirvegun eins og hann eigi mörg hundruð meistaraflokksleiki að baki.
Spurningamerkið: Þar sem Keflvíkingar hafa lítið bætt við sig í vetur er stærsta spurningamerkið hvort að liðið nái að bæta leik sinn nógu mikið á milli ára og halda velli í Pepsi-deildinni í sumar.
Völlurinn: Nettóvöllurinn er heimavöllur Keflvíkinga. Völlurinn er með stúku sem og stæðum. Grasið er nokkuð nýlegt en skipt var um gras á vellinum árið 2009. Keflavík fær Grindavík í heimsókn í Suðurnesjaslag í fyrsta heimaleik sumarsins þann 6. maí.
„Yngri leikmennirnir hafa bætt við sig"
Þjálfarinn segir - Guðlaugur Baldursson
„Ég gerði mér grein fyrir því að okkur yrði spáð í neðri hlutanum þar sem að við erum nýliðar og að koma upp úr næstefstu deild. Við munum leggja mikið á okkur til að festa okkur í sessi í deildinni. Við erum með fínan og samstilltan hóp sem er blanda yngri og eldri leikmanna. Þó að við höfum ekki bætt mörgum við þá erum við með svipaðan hóp og í fyrra. Yngri leikmennirnir hafa bætt við sig og við erum að búa til góða blöndu úr þessum hóp.“
Komnir:
Aron Freyr Róbertsson frá Grindavík
Bojan Stefán Ljubicic frá Fjölni
Jonathan Faerber frá Reyni Sandgerði
Farnir:
Jóhann Birnir Guðmundsson
Jónas Guðni Sævarsson hættur
Sjá einnig:
Hin Hliðin - Bojan Stefán Ljubicic (Keflavík)
Bræðurnir í Keflavík: Liggur við að við förum í slag á æfingum
Leikmenn Keflavíkur sumarið 2018:
1 Sindri Kristinn Ólafsson
2 Anton Freyr Hauks Guðlaugsson
3 Aron Freyr Róbertsson
4 Ísak Óli Ólafsson
5 Juraj Grizelj
6 Einar Orri Einarsson
7 Davíð Snær Jóhannsson
8 Hólmar Örn Rúnarsson
9 Sigurbergur Elísson
10 Hörður Sveinsson
11 Bojan Stefán Ljubicic
12 Jonathan Faerber
13 Marc McAusland
14 Jeppe Hansen
15 Atli Geir Gunnarsson
16 Sindri Þór Guðmundsson
18 Marko Nikolic
20 Adam Róbertsson
22 Leonard Sigurðsson
24 Rúnar Þór Sigurgeirsson
25 Frans Elvarsson
28 Ingimundur Aron Guðnason
45 Tómas Óskarsson
99 Lasse Rise
Leikir Keflavíkur 2018:
27.apríl Stjarnan – Keflavík
6. maí Keflavík – Grindavík
13.maí Breiðablik – Keflavík
17.maí Keflavík – Fjölnir
21.maí KA – Keflavík
27.maí Keflavík – ÍBV
4.júní FH- Keflavík
8.júní Fylkir – Keflavík
14.júní Keflavík – KR
1.júlí Keflavík – Valur
7.júlí Keflavík - Stjarnan
16.júlí Víkingur R. – Keflavík
23. júlí Grindavík – Keflavík
30.júlí Keflavík – Breiðablik
8.ágúst Fjölnir – Keflavík
12.ágúst Keflavík – KA
18.ágúst ÍBV – Keflavík
26.ágúst Keflavík – FH
31.ágúst Keflavík – Fylkir
16.september KR – Keflavík
23.september Keflavík Víkingur R.
29.september Valur – Keflavík
Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Hafliði Breiðfjörð, Magnús Már Einarsson, Magnús Þór Jónsson og Tryggvi Guðmundsson.