Bræðurnir Sindri Kristinn Ólafsson og Ísak Ólafsson eru fastamenn í liði Keflavíkur en liðið er komið upp í Pepsi-deildina á nýjan leik eftir tveggja ára fjarveru. Fótbolti.net spáir Keflavík 12. sæti í sumar en Sindri og Ísak kíktu í spjall á skrifstofu Fótbolta.net í vikunni og ræddu um hitt og þetta.
„Spáin kemur lítið á óvart þar sem við erum nýliðar og styrkingin hefur verið lítil," segir Ísak en bæði hann og Sindri voru fastamenn í liði Keflavíkur þegar liðið kom upp úr Inkasso-deildinni í fyrra.
Foreldrarnir vita ekkert um fótbolta
Báðir hafa þeir spilað með Keflavík allan sinn feril en þeir byrjuðu í fótbolta þrátt fyrir að foreldrar þeirra hafi engan áhuga á boltanum.
„Við fengum öll fótboltagenin í fjölskyldunni," sagði Ísak léttur.
„Foreldrar okkar vita ekkert um fótbolta. Fjölskyldan okkar er ekki komin af fótboltafólki. Ég var fyrst í körfubolta en svo fór ég í fótboltann," sagði Sindri en hann og Ísak búa hjá móður sinni og fósturföður.
„Það er ekki vinsælt þegar við erum með sjónvarpið í botni að horfa á enska boltann en þau láta sig hafa það," sagði Ísak en foreldrarnir eru byrjaðir að fylgjast betur með boltanum.
„Mamma er okkar stærsti stuðningsmaður og hún mætir á alla leiki. Stjúppabbi mætir á alla heimaleiki og pabbi fylgist vel með líka. Við fáum 100% stuðning frá fjölskyldunni okkar."
Slíta bræðrasamkomulaginu á æfingum
Ísak og Sindri segjast gleyma því að þeir séu bræður þegar þeir eru í fótboltanum.
„Við erum bestu vinir en þegar við erum á fótboltaæfingu þá reynum við að stíga út úr þessu bræðrasamkomulagi og vera fótboltafélagar. Það er mjög erfitt. Við fáum milljón skot á æfingum og í leikjum að við séum bræður en það er hluti af þessu. Þegar við erum heima erum við bræður og tölum mikið um fóbolta en við reynum að stíga út úr þessu bræðradæmi þegar við erum að spila fótbolta," sagði Sindri.
„Þegar við erum inni á vellinum á æfingum eða leikjum þá
teljum við okkur ekki vera bræður. Við öskrum örugglega mest á hvorn annan á æfingum og það liggur við að við förum í slag. Það er bara hluti af þessu," bætti Ísak við.
Marc stærsti mentorinn
Skoski miðvörðurinn Marc McAusland er fyrirliði Keflavíkur en hann spilar við hlið Ísaks í vörninni. Ísak segir að Marc hafi skólað sig vel til í fyrra.
„Þetta er magnaður karakter. Hann er allt í öllu í félaginu. Hann hefur verið minn stærsti mentor inni á vellinum. Hann lætur mig ekki í friði og öskrar á mig á hverjum degi en hann er bara að reyna að hjálpa mér. Hann hefur breytt mér sem leikmanni og því hvernig ég horfi á leikinn."
Skrautlegur varamarkvörður
Í vetur samdi ástralski markvörðurinn Jonathan Faerber við Keflavík en hann á að veita Sindra samkeppni um markvarðarstöðuna. Jonathan spilaði með Reyni Sandgerði í fyrra en hann samdi við Keflavík í vetur eftir að hafa æft með Þrótti R. og Víði í vetur.
„Þetta er ein beta persóna sem ég hef kynnt. Hann er tveir metrar á hæð og 100 kíló. Hann er rosa vöðvamikill og flottur. Hann styður mig og þetta er mjög heilbrigð samkeppni hjá okkur. Eins og staðan er núna er ég númer eitt en hann er þarna til að veita mér samkeppni og halda mér á tánum," sagði Sindri.
„Þetta er toppnáungi. Það þyrftu allir að kynnast honum. Hann er mjög skrautlegur náungi. Hann er með dreadlocks niður á rass og skegg niður á bringu. Hann er mikill ævintýramaður. Hann á foreldra í Ástralíu en hann hefur spilað í Þýskalandi, Síle, Wales og víða. Hann býr til myndbönd af sjálum sér og Reynir Sandgerði fékk hann í fyrra. Hann var í ömurlegu Sandgerðisliði í fyrra en stóð sig ágætlega."
Elskar Formula 1
Í lok viðtalsins svaraði Sindri átta hraðaspurningum. Þar kom meðal annars fram að hann er mikill Formula 1 aðdáandi.
„Ég fylgist með öllum keppnum og er mikill aðdáandi. Ég styð Kimi Raikkonen og mig langar rosalega að fara á keppni úti. Það væri draumur að sjá keppni í Singapúr eða Sádi-Arabíu," sagði Sindri að lokum.
Hér að ofan má hlusta á viðtalið við bræðurnar í heild.
Athugasemdir