Grindavík var spútnikliðið í Pepsi-deildinni í fyrra en nýliðarnir enduðu þá í 5. sæti. Grindavík hefur ekkert gefið eftir í vetur en liðið fór í úrslit bæði í Fótbolta.net mótinu og í Lengjubikarnum.
Andri Rúnar Bjarnason skoraði 19 af 31 marki Grindvíkinga í fyrra en liðið hefur haldið sjó í vetur þó að hann sé horfinn á braut. Gunnar Þorsteinsson og Brynjar Ásgeir Guðmundsson leikmenn Grindavíkur telja að liðið geti fundið mörk frá öðrum stöðum eftir brotthvarf Andra.
Andri Rúnar Bjarnason skoraði 19 af 31 marki Grindvíkinga í fyrra en liðið hefur haldið sjó í vetur þó að hann sé horfinn á braut. Gunnar Þorsteinsson og Brynjar Ásgeir Guðmundsson leikmenn Grindavíkur telja að liðið geti fundið mörk frá öðrum stöðum eftir brotthvarf Andra.
„Ég skal lofa því að við skorum meira en 31 mark í sumar. Við eigum menn sem eiga inni í markaskorun og þetta mun dreifast út um allt," sagði Brynjar Ásgeir í viðtali við Fótbolta.net.
„Ég henti fram þeirri staðreynd í klefanum að ég er markahæstur á undirbúningstímabilinu og Brynjar lét mig heyra það," sagði Gunnar og hló en hann hefur skorað þrjú mörk á undirbúningstímabilinu.
„Mörkin eru komin úr sífellt óvæntari áttum þegar Björn Berg Bryde er vítaskytta liðsins eins og staðan er núna," bætti Gunnar við.
Grindvíkingar hafa verið rólegir á leikmannamarkaðinum í vetur en framherjinn Jóhann Helgi Hannesson kom frá Þór og miðjumaðurinn Aron Jóhannsson kom frá Haukum.
„Þeir smellpassa í það sem við erum að gera. Jói er duglegur frammi og hjálpar okkur að losa boltann undir pressu. Við erum með eldsnögga menn við hliðina á honum. Þetta var svolítið einhæft í fyrra þegar Andri var uppi á topp, við leituðum bara að honum, en ég vona að það losni um fleiri núna." sagði Brynjar og bætti við um Aron: „Ég man ekki til þess að einhver hafi tekið boltann af honum á æfingum. Hann er eins og Iniesta á miðjunni,"
Efnilegur með rosalegt nafn
Grindvíkingar hafa einnig verið að fá fleiri leikmenn úr yngri flokka starfinu upp í meistaraflokkinn miðað við undanfarin ár.
„Við höfum líka fengið tvo unga peyja inn sem verða í hlutverkum hjá okkur. Það er eins og að fá tvon ýja menn. Annar þeirra er hafsentinn Sigurjón Rúnarsson sem er í úrtakshóp í U19. Hann hlýtur að vera í næsta U19 ára landsliði. Hann hefur spilað eins og greifi á undirbúningstímabili í ógnarsterkri varnarlínu með Birni Berg og Brynjari. Hinn ber eitt flottasta nafn sem sögur fara af, Dagur Hammer. Nafnið býður upp á endalaust af bröndurum og fjölmiðlamenn eiga eflaust eftir að elska hann. Hann er stórkostlegur karakter sem getur spilað á kanti, frammi og miðju," sagði Gunnar.
Grindvíkingar eru með mjög skipulagt lið og varnarleikur liðsins hefur verið öflugur í vor. Brynjar og Gunnar segja að talsvert sé farið í taktík á æfingum.
„Mér finnst æfingarnar alls ekki leiðinlegar. Það er ekkert gaman að vera í varnarfærslum á föstudagskvöldi í janúar en ég er viss um að það skilar sér," sagði Brynjar og Gunnar tekur undir: „Við erum ekki með bestu einstaklingana en við erum með eitt allra skipulagðasta liðið í deildinni," sagði Gunnar.
Jajalo fluttur og vinnur í löndun
Einn af lykilmönnunum í sterkum varnarleik Grindvíkinga er markvörðurinn Kristijan Jajalo.
„Honum líur vel á Íslandi og er fluttur til landsins. Hann er ekki hér bara í 6-7 mánuði eins og margir útlendingar. Hann er búinn að vinna í löndun og vera í hörkunni. Hann var svolítið lúinn í nóvember og desember en hann er búinn að minnka við sig núna," sagði Gunnar.
„KRistijan er mjög góður í marki og ég hef ekki séð svona sparkvissan markvörð á Íslandi. Hann getur tekið þessar Pepe Reina spyrnur og sent menn í gegn," bætti Brynjar við.
Spurningakeppnir í klefanum
Grindvíkingar eru duglegir að hafa spurningakeppnir inni í klefa en þar stjórnar Gunnar oft keppnunum.
„Við erum alveg ótrúlega mikið með spurningakeppnir. Við erum líka með gátur inni í klefa. Það er merkilega mikill kúltúr inni í klefa hjá okkur," sagði Gunnar.
Brynjar gengur misvel í keppnunum hjá Gunnari en þegar kemur að fótboltaspurningum stenst enginn leikmaður Grindavíkur honum snúning.
„Ég er á heimavelli þar. Við tókum Beint í mark fyrir jól þegar liðið var að fá sér kaldan saman. Við hentum upp í þrjú lið og ég hefði getað verið einn í liði þess vegna. Yngsta liðið fékk ferilinn hjá Patrick Vieira og þeir klóruðu sér bara í hausnum. Þá hugsaði ég að við þyrftum ekki að spila þetta meira."
Ætlar að sparka í Lennon
Grindvíkingar mæta FH í fyrsta leik í Pepsi-deildinni laugardaginn 28. apríl og Brynjar er spenntur að mæta uppeldisfélagi þar.
„Ég er að vona að við getum strítt þeim og tekið einhver stig af þeim," sagði Brynjar.
„Það eru margir farnir síðan ég var þarna. Ég hefði viljað að Böddi væri þarna ennþá. Ég þekki einhverja stráka þarna og Lennon fær að finna fyrir því. Ég vil helst sparka aðeins í hann," sagði Brynjar léttur.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni. Þar ræðir Brynjar Ásgeir meðal annars um frumraun sína í meistaraflokksþjálfun sem þjálfari ÍH og Gunnar segir frá námi sínu í jarðeðlisfræði.
Athugasemdir