„Miðað við veturinn kemur þetta ekkert sérstaklega á óvart en það kemur á óvart að eitt af stóru liðunum er fyrir neðan okkur," segir Hrannar Björn Steingrímsson bakvörður KA um að Fótbolti.net spái liðinu 4. sæti í Pepsi-deildinni í sumar.
„Við enduðum í sjöunda sæti í fyrra og ef okkur yrði boðið það aftur núna þá myndi ég aldrei samþykkja það. Það býr miklu meira í hópnum og við ætlum okkur ofar," bætti Hrannar við.
Fótbolti.net ræddi við Hrannar og Elfar Árna Aðalsteinsson en þeir eru á meðal sex Húsvíkinga í liði KA. Auk þeirra eru Ásgeir Sigurgeirsson, Hallgrímur Jónasson, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Sæþór Olgeirsson frá Húsavík. Hrannar og Elfar sáu það alls ekki fyrir sér að spila með KA þegar þeir voru yngri.
„Þegar ég var yngri þá var bilaður rígur á milli Völsungs, KA og Þós. Þetta voru erkifjendur. Þegar ég var lítill þá gat ég ekki hugsað mér að spila fyrir KA einn daginn. Þegar Gummi bróðir (Guðmundur Óli Steingrímsson) minn fór í KA 2008 þá breyttist sýn mín á þetta. Síðan þá hefur maður smátt og smátt orðið meira og meira KA maður. Ég tek eftir því á Húsavík og hjá Húsvíkingum að þeir vona að okkur gangi vel í sumar," sagði Hrannar.
„Það var aldrei planið að spila fótbolta á Akureyri en stundum breytist þetta. Ég sá að þetta var skemmtilegt verkefni fyrir mig og ég sé alls ekki eftir því," sagði Elfar Árni.
Grímsi glórulaus á æfingum
Hrannar og Hallgrímur Mar eru bræður en þeir hafa báðir leikið með KA undanfarin ár.
„Hann er duglegur að láta mig heyra það frekar en hann. Menn halda alltaf að hann sé góði kallinn í fjölskyldunni en hann er lúmskt erfiður í skapinu. Hann er yfirleitt geðbilaður á æfingum og mun brjálaðari en ég. Ég held að Elfar sé sammála," sagði Hrannar.
„Grímsi getur verið alveg glórulaus. Hann gerði síðast allt vitlaust á æfingu í síðustu viku," bætti Elfar við léttur í bragði.
„Mér finnst mjög mikilvægt að vera með svona karaktera í liðinu. Það er hægt að rífast smá á æfingum meðan það fer ekki út í glórulausar tæklingar og slagsmál, sagði Hrannar.
Íþróttakennsla og vallarstarfsmaður
Utan vallar hafa Elfar og Hrannar einnig nóg fyrir stafni. „Ég er að kenna íþróttir í Lundaskóla á Akureyri. Ég fór á Laugarvatn í nám þar og hef verið að kenna síðustu þrjú ár. Þetta voru mjög góðir tímar á Laugarvatni," sagði Elfar.
Hrannar starfar á Akureyrarvelli með Srdjan Rajkovic markvarðarþjálfara KA. Hrannar segir að völlurinn verði tilbúinn fyrir fyrsta heimaleik KA gegn ÍBV í 3. umferðinni þann 2. maí.
„Hann verður spilfær en ég held að menn fari ekki í viðtöl eftir leik að hrósa vellinum. Ég held að menn geri frekar eins og Óli Jó í fyrra og hrauni yfir völlinn," sagði Hrannar og hló. „Í fyrra hraunaði hann yfir völlinn eftir jafntefli hérna á Akureyri og allir töluðu um það en ekki að KA gerði jafntefli. Ég held að þetta hafi verið sálfræðilegt hjá honum."
Búast við góðum stuðningi á útivöllum
KA hefur leik gegn Fjölni á útivelli en sá leikur fer fram í Egilshöll þann 28. apríl. Stuðningsmannasveitin Schiötarar mun væntanlega fylgja KA þangað eins og á leikina í fyrra.
„Síðan 2015 hafa þeir verið duglegir að fylgja okkur í alla leiki. Það dró aðeins af þeim seinni hlutann síðasta sumar en mér heyrist að þeir séu jafn spenntir og við leikmenn fyrir sumrinu og held að þeir ætli að gera ennþá betur en árin á undan," sagði Hrannar.
Hér að ofan má hlusta á viðtalið í heild sinni en þar fara Hrannar og Elfar um víðan völl. Þeir tala meðal annars um lið sín í enska boltanum, Manchester Unted og Newcastle.
Athugasemdir