Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 23. febrúar 2010 23:03
Magnús Már Einarsson
Lengjubikarinn: Haukar lögðu Grindavík
Arnar skoraði fyrir Hauka.
Arnar skoraði fyrir Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ondo skoraði og var ágengur upp við mark Hauka.
Ondo skoraði og var ágengur upp við mark Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Grindavík 1 - 2 Haukar
0-1 Guðjón Pétur Lýðsson ('44)
0-2 Arnar Bergmann Gunnlaugsson ('48)
1-2 Gilles Mbang Ondo ('75, víti)

Haukar unnu Grindavík 2-1 í A deild Lengjubikars karla í kvöld en leikið var í Reykjaneshöllinni.

Grindvíkingar fengu fyrsta færi leiksins en Hilmar Trausti Arnarsson bjargaði á línu frá Marko Valdimar Stefánssyni.

Garðar Ingvar Geirsson, framherji Hauka, slapp tvívegis í gegn í fyrri hálfleiknum en náði ekki að skora.

Allt stefndi í markalausan fyrri hálfleik þar til að Guðjón Pétur Lýðsson náði að skora á 44.mínútu. Guðjón skoraði þá með skoti fyrir utan teig en boltinn fór undir Óskar Pétursson í markinu.

Haukar létu kné fylgja kviði og bættu öðru marki við strax í byrjun síðari hálfleiks. Garðar fór þá upp hægri kantinn og gaf fyrir á Arnar Bergmann Gunnlaugsson sem skoraði en Grindvíkingar voru reyndar ósáttir þar sem að þeir töldu að Garðar hefði verið rangstæður.

Grindavík vaknaði til lífsins eftir þetta og Gilles Mbang Ondo fékk færi strax í næstu sókn en honum brást bogalistin.

Á 75.mínútu braut Guðmundur Viðar Mete á Ondo innan vítateigs og dæmd var vítaspyrna. Ondo fór sjálfur á punktinn og skoraði og á næstu mínútum fengu Grindvíkingar þrjú fín færi til að jafna metin.

Fyrst fékk Jósef Kristinn Jósefsson dauðafæri en hann hitti ekki boltann við markteiginn.

Óli Baldur Bjarnason fékk einnig gott færi strax í næstu sókn en Daði Lárusson varði í markinu.

Ondo fékk síðan þriðja færið þegar að hann slapp í gegn en Daði sá við honum og lokatölur 2-1 fyrir Haukum.
banner
banner
banner