Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins IFK Gautaborgar, er á óskalista tveggja liða sem spila í sömu deild. Þetta herma heimildir Fótbolti.net.
Elmar var einn besti leikmaður Gautaborgarliðsins á síðasta keppnistímabili og var m.a. efstur í kosningu á leikmanni ársins á stuðningsmannasíðu félagsins.
Ólíklegt má telja að forráðamenn IFK Gautaborgar vilji sleppa hendinni af Elmari en annað liðið sem hefur áhuga á leikmanninum er stórt á sænska vísu og gæti verið tilbúið að borga uppsett verð fyrir leikmanninn.
Elmar lék 22 leiki með IFK Gautaborg á síðasta tímabili og skoraði í þeim fjögur mörk.
Hann er samningsbundinn liðinu til ársins 2013.