Arsenal gefst upp á Nico Williams - Fabio Vieira aftur til Porto - Brighton nær samkomulagi við Fenerbahce - Greenwood skiptir um landslið
   fim 02. desember 2010 13:12
Magnús Már Einarsson
Guðjón Þórðarson: Þurfum að sjá hvað rekur á fjörur okkar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Það vakti mikla athygli þegar að Guðjón Þórðarson tók við BÍ/Bolungarvík í október síðastliðnum. BÍ/Bolungarvík leikur í fyrstu deild næsta sumar en Guðjón hefur nú stýrt æfingum hjá liðinu í rúman mánuð.

,,Þetta hefur gengið ágætlega. Við æfum þéttingsvel en við erum liðfáir," sagði Guðjón við Fótbolta.net í dag.

,,Meirihlutinn er fyrir sunnan en síðan eru fjórir fyrir vestan og tveir af þeim gætu komið um áramótin. Við erum að æfa í Laugum og síðan erum við á gervigrasinu og með einn tíma í höllinni uppi á Skaga. Við erum ágætlega settir."

Eins og farfuglarnir:
BÍ/Bolungarvík mun æfa á höfuðborgarsvæðinu þar til í vor en þá fara leikmenn heim á Vestfirðina.

,,Við erum í borginni og verðum hér fram á vor með obbann af leikmönnunum okkar. Við verðum eins og farfuglarnir, þessir strákar sem eru í skóla eru ekki búnir fyrr en í kringum miðjan maí og síðan byrjar skólinn aftur í lok ágúst. Þetta eru kannski þrír mánuðir sem menn fara vestur."

Tveir erlendir leikmenn eru farnir frá BÍ/Bolungarvík síðan í sumar sem og leikmenn sem voru í láni. Hópurinn er því minni núna en hann var síðastliðið sumar.

,,Hópurinn er lítill. Við vorum að spila æfingaleik um síðustu helgi og þar voru fimm leikmenn sem voru ekki skraðir í BÍ en við vorum ekki nema 14 í allt," sagði Guðjón sem gæti samið við einhverja leikmenn sem hafa æft með BÍ/Bolungarvík að undanförnu.

,,Ég á alveg eins von á því en það er ekki komið á hreint. Við eigum leik við Leikni um helgina og leik við Tindastól 11.desember og þegar því er lokið mun ég setjast yfir það hvað við munum taka af þessum mönnum."

Markaðurinn heima erfiður og svolítið sérstakur:
Guðjón hefur einnig verið að skoða aðra leikmenn en hann vonast til að styrkja liðið talsvert.

,,Ég er búinn að tala við nokkra stráka. Ég er að vonast til þess að við sækjum okkur einhvern styrk innanlands en síðan erum við að leita út fyrir landsteinana líka."

,,Ég er að vonast til að við verðum búnir að krækja okkur í 2-4 stráka af innlenda markaðinum og svo þurfum við að fá einhverja erlenda leikmenn í viðbót við það. Við þurfum að hafa allavega 16 manna hóp sem er keppnisfær."


,,Markaðurinn hérna heima er erfiður og svolítið sérstakur. Sumir hverjir, sem hafa ekki einu sinni fest sig í sessi, eru með miklar kröfur en síðan eru aðrir sem eru mjög raunhæfir og rólegir og eru að skoða þetta frá mjög raunhæfum forsendum. Þetta er í bland hvernig þessi markaður er. Ég er fyrst og fremst að leita að góðum karakterum sem eru tilbúnir í þetta og langar að prófa eitthvað nýtt."

Þegar nær dregur móti býst Guðjón við að fá erlenda leikmenn til BÍ/Bolungarvíkur og nokkrir möguleikar eru þar í stöðunni.

,,Hvað sem er, meðal annars England. Ég er aðeins farinn að þreifa á því máli og það gæti farið svo að ég ætti möguleika á að fá menn þaðan. Síðan líka úr Skandinavíu og annars staðar úr Evrópu. Við þurfum að sjá hvað rekur á fjörur okkar. "

Vitum að deildin er jöfn og sterk:
BÍ/Bolungarvík er að fara að leika í fyrstu deild í fyrsta skipti síðan að liðin sameinuðust árið 2006.

,,Við ætlum okkur að hafa lið sem reynir að vinna eins marga leiki og hægt er. Við vitum að deildin er jöfn og sterk. Það eru nokkur mjög góð lið þarna og þetta verður hörð og góð barátta."

,,Við sáum hvernig þetta var í sumar, Njarðvík fór upp og niður aftur og Grótta var í baráttunni við Fjarðabyggð um að halda sér uppi. Fjarðabyggð fór niður og kannski út af meiðslalistanum sem var langur hja þeim. Við vitum að þetta verður barátta en við ætlum að undirbúa okkur vel og mæta af krafti,"
sagði Guðjón að lokum.
banner
banner