Heimild: Morgunblaðið

Dóra Stefánsdóttir leikmaður LdB Malmö í Svíþjóð og íslenska landsliðsins hefur tekið ákvörðun um að leggja skóna á hilluna en þetta kom fram í Morgunblaðinu í morgun.
Dóra hefur glímt við meiðsli á hné síðan í fyrrasumar og hefur ekkert leikið síðan hún lék tvo landsleiki fyrir Íslands hönd í undannkeppni HM 2011 í vor.
,,Eftir miklar æfingar og vangaveltur, og langar andvökunætur, þá hef ég ákveðið að leggja skóna á hilluna. Alla vega að sinni. Ég er búin að prófa allt mögulegt en ég losna bara ekki við verkinn sem ég er með í hnénu," sagði Dóra við Morgunblaðið.
Dóra sagði einnig að sænsku meistararnir sem hún hefur verið hjá undanfarin ár vilji að hún starfi áfram í kringum félagið en hún hefur ekki tekið ákvörðun um hvað hún gerir.