Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   lau 05. febrúar 2011 15:02
Magnús Már Einarsson
Fótbolta.net mótið: Keflavík meistari eftir vítaspyrnukeppni
Keflavík 1 - 1 ÍBV (4-3 eftir vítaspyrnukeppni)
0-1 Andri Ólafsson ('34, víti)
1-1 Haraldur Freyr Guðmundsson ('68)

Keflavík tryggði sér sigur á Fótbolta.net mótinu en liðið lagði ÍBV í úrslitaleik í dag. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma en Keflvíkingar höfðu betur í vítaspyrnukeppni.

Hart var barist í byrjun leiks og Valgeir Valgeirsson veifaði gula spjaldinu þrívegis á fyrstu tuttugu mínútunum.

Bæði lið fengu einnig ágætis færi áður en fyrsta markið leit dagsins ljós á 34. mínútu.

Denis Sytnik féll þá utarlega í vítateignum eftir viðskipti sín við Einar Orra Einarsson. Valgeir dæmdi vítaspyrnu við litla hrifningu Keflvíkinga.

Andri Ólafsson fyrirliði Eyjamanna fór á punktinn og skoraði en hann hefur verið vítaskytta Eyjamanna í þessu móti. Í fyrra misnotuðu bæði Tryggvi Guðmundsson og Albert Sævarsson vítaspyrnur og nú hefur Andri fengið vítaskyttuhlutverkið. Tryggvi og Albert fengu reyndar báðir að spreyta sig á punktinum í vítaspyrnukeppninni í dag en hvorugur náði að skora.

Eyjamenn leiddu í leikhléi en Keflvíkingar mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik og minnstu munaði að þeir næðu að jafna á 51. mínútu. Eftir fyrirgjöf barst boltinn á fjærstöng þar sem vinstri bakvörðurinn Brynjar Örn Guðmundsson var mættur en skot hans hafnaði í stönginni.

Keflvíkingar áttu fleiri marktilraunir og þeir uppskáru mark um miðjan síðari hálfleik. Sigurbergur Elísson átti þá skot fyrir utan teig og boltinn hafði viðkomu í tveimur varnarmönnum á leið í netið. Skrautlegt mark en boltinn hafði síðast viðkomu í Haraldi Frey Guðmundssyni og hann fær því markið skráð á sig.

Eftir þetta fengu liðin fá færi og því þurfti grípa til vítaspyrnukeppni. Þar misnotuðu Eyjamenn þrjár vítaspyrnur en Keflvíkingar tvær og lokatölur 4-3.

Vítaspyrnukeppnin:
1-1 Ómar Jóhannsson ver frá Tryggva Guðmundssyni
2-1 Guðmundur Steinarsson skorar
2-2 Rasmus Christiansen skorar
3-2 Haraldur Freyr Guðmundsson skorar
3-2 Albert Sævarsson skýtur framhjá
3-2 Albert ver frá Sigurbergi Elíssyni
3-3 Finnur Ólafsson skorar
3-3 Albert ver frá Frans Elvarssyni
3-3 Eiður Aron Sigurbjörnsson skýtur framhjá
4-3 Grétar Ólafur Hjartarson skorar

Byrjunarlið ÍBV: Abel Dhaira, Brynjar Gauti Guðjónsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Rasmus Christiansen, Þórarinn Ingi Valdimarsson, Yngvi Magnús Borgórsson, Andri Ólafsson, Tryggvi Guðmundsson, Ian Jeffs, Denis Sytnik, Tonny Mawejje.

Byrjunarlið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson, Kristinn Björnsson, Einar Orri Einarsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Andri Steinn Birgisson, Arnór Ingi Traustason, Bojan Stefán Ljubicic, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þórir Matthíasson.
banner
banner
banner
banner