Liverpool mun ekki selja Chiesa - Völdu Onana fram yfir Ortega - Arsenal líklegasti áfangastaður Stiller - Real Madrid horfir til Bayern
   lau 05. febrúar 2011 15:02
Magnús Már Einarsson
Fótbolta.net mótið: Keflavík meistari eftir vítaspyrnukeppni
Keflavík 1 - 1 ÍBV (4-3 eftir vítaspyrnukeppni)
0-1 Andri Ólafsson ('34, víti)
1-1 Haraldur Freyr Guðmundsson ('68)

Keflavík tryggði sér sigur á Fótbolta.net mótinu en liðið lagði ÍBV í úrslitaleik í dag. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma en Keflvíkingar höfðu betur í vítaspyrnukeppni.

Hart var barist í byrjun leiks og Valgeir Valgeirsson veifaði gula spjaldinu þrívegis á fyrstu tuttugu mínútunum.

Bæði lið fengu einnig ágætis færi áður en fyrsta markið leit dagsins ljós á 34. mínútu.

Denis Sytnik féll þá utarlega í vítateignum eftir viðskipti sín við Einar Orra Einarsson. Valgeir dæmdi vítaspyrnu við litla hrifningu Keflvíkinga.

Andri Ólafsson fyrirliði Eyjamanna fór á punktinn og skoraði en hann hefur verið vítaskytta Eyjamanna í þessu móti. Í fyrra misnotuðu bæði Tryggvi Guðmundsson og Albert Sævarsson vítaspyrnur og nú hefur Andri fengið vítaskyttuhlutverkið. Tryggvi og Albert fengu reyndar báðir að spreyta sig á punktinum í vítaspyrnukeppninni í dag en hvorugur náði að skora.

Eyjamenn leiddu í leikhléi en Keflvíkingar mættu grimmir til leiks í síðari hálfleik og minnstu munaði að þeir næðu að jafna á 51. mínútu. Eftir fyrirgjöf barst boltinn á fjærstöng þar sem vinstri bakvörðurinn Brynjar Örn Guðmundsson var mættur en skot hans hafnaði í stönginni.

Keflvíkingar áttu fleiri marktilraunir og þeir uppskáru mark um miðjan síðari hálfleik. Sigurbergur Elísson átti þá skot fyrir utan teig og boltinn hafði viðkomu í tveimur varnarmönnum á leið í netið. Skrautlegt mark en boltinn hafði síðast viðkomu í Haraldi Frey Guðmundssyni og hann fær því markið skráð á sig.

Eftir þetta fengu liðin fá færi og því þurfti grípa til vítaspyrnukeppni. Þar misnotuðu Eyjamenn þrjár vítaspyrnur en Keflvíkingar tvær og lokatölur 4-3.

Vítaspyrnukeppnin:
1-1 Ómar Jóhannsson ver frá Tryggva Guðmundssyni
2-1 Guðmundur Steinarsson skorar
2-2 Rasmus Christiansen skorar
3-2 Haraldur Freyr Guðmundsson skorar
3-2 Albert Sævarsson skýtur framhjá
3-2 Albert ver frá Sigurbergi Elíssyni
3-3 Finnur Ólafsson skorar
3-3 Albert ver frá Frans Elvarssyni
3-3 Eiður Aron Sigurbjörnsson skýtur framhjá
4-3 Grétar Ólafur Hjartarson skorar

Byrjunarlið ÍBV: Abel Dhaira, Brynjar Gauti Guðjónsson, Eiður Aron Sigurbjörnsson, Rasmus Christiansen, Þórarinn Ingi Valdimarsson, Yngvi Magnús Borgórsson, Andri Ólafsson, Tryggvi Guðmundsson, Ian Jeffs, Denis Sytnik, Tonny Mawejje.

Byrjunarlið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson, Kristinn Björnsson, Einar Orri Einarsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Andri Steinn Birgisson, Arnór Ingi Traustason, Bojan Stefán Ljubicic, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Magnús Þórir Matthíasson.