Varamaðurinn, Magnús Björgvinsson tryggði Grindavíkur sigur í uppbótartíma
Fylkir 2 - 3 Grindavík
1-0 Gylfi Einarsson ('13)
2-0 Ingimundur Níels Óskarsson ('27)
2-1 Orri Freyr Hjaltalín ('43)
2-2 Scott Ramsey ('53)
2-3 Magnús Björgvinsson ('90 )
1-0 Gylfi Einarsson ('13)
2-0 Ingimundur Níels Óskarsson ('27)
2-1 Orri Freyr Hjaltalín ('43)
2-2 Scott Ramsey ('53)
2-3 Magnús Björgvinsson ('90 )
Það var sögulegur leikur í Kórnum í kvöld þegar heimamenn í Fylki tóku á móti Grindvíkingum í 1.umferð Pepsi-deildarinnar árið 2011. Leikurinn var sögulegur fyrir þær sakir að um er að ræða fyrsta leik í efstu deild á Íslandi sem leikinn er innanhús.
Leikurinn var jafn til að byrja með, báðar varnirnar voru sterkar og gáfu fá færi á sér. Grindvíkingar með þjálfarann, Ólaf Örn Bjarnason í miðri vörninni héldu meira boltanum fyrstu mínúturnar en síðan var tími Fylkismanna kominn.
Það var við hæfi að Gylfi Einarsson fyrirliði Fylkis skoraði fyrsta mark leiksins sem og fyrsta mark Pepsi-deildarinnar í ár. Þetta var hans fyrsti leikur á Íslandsmótinu í 11 ár en hann hefur spilað í atvinnumennsku síðan hann fór frá Fylki. Arkitektinn að þessu marki var Ingimundur Níels Óskarsson sem sendi boltann frá hægri inn í miðjan markteig Grindvíkinga og þar kom Gylfi Einarsson á fleygiferð og var undan Óskari Péturssyni markverði Grindavíkur í boltann.
Stuttu eftir markið þurfti Óskar Pétursson síðan að fara af velli vegna meiðsla og í hans stað kom hinn 19 ára gamli Jack Giddens. Fylkismenn voru á þessum kafla mun sterkari aðilinn og áttu allt sem hægt er að eiga í knattspyrnuleik.
Það kom því fáum á óvart er Fylkismenn juku forskot sitt á 28.mínútu í 2-0. Þar var að verki Ingimundur Níels Óskarsson sem skoraði með flottum skalla eftir sendingu frá Tómasi Þorsteinssyni.
Eftir markið voru Fylkismenn nærri því að auka forskotið en í stað þess að fara með þægilega 2-0 forystu inn í hálfleik sofnuðu þeir á verðinum og fengu mark á sig skömmu fyrir hálfleik. Fyrirliði Grindvíkinga, Orri Freyr Hjaltalín var þar að verki, en hann átti gott skot úr vítateig Fylkis sem söng í netinu góða í Kórnum.
Það var því 2-1 í hálfleik fyrir heimamenn úr Árbænum. Það tók Grindvíkinga ekki nema átta mínútur að jafna síðan leikinn. Scott Ramsey potaði þá boltanum yfir línuna eftir að Orri Freyr Hjaltalín hafði framlengt fyrirgjöf Alexanders Magnússonar með því að skalla boltann áfram.
Grindvíkingar voru greinilega vaknaðir til lífs síns því þeir voru sterkari aðilinn í byrjun seinni hálfleiks. Færin voru samt sem áður ekki ýkja mörg og gáfu varnir liðanna ekki mörg færi á sér. Hinsvegar var Bjarni Þórður Halldórsson næstum búinn að gefa Grindvíkingum mark á silfurfati. Eftir aukaspyrnu frá Ramsey sem virtist vera hættulaus missti Bjarni Þórður boltann frá sér og kom Michal Pospisil að boltanum en Bjarni Þórður kastaði sér fyrir skotið og Fylkismenn hreinsuðu frá.
Það var nánast ekkert markvert sem gerðist eftir þetta, Fylkismenn komust þó meira inn í leikinn og var leikurinn frekar jafn allan seinni hálfleikinn. Það voru flestir farnir að búast við að leikurinn myndi enda í jafntefli og var Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Stöð 2 Sport meira að segja búinn að yfirgefa svæðið þegar Magnús Björgvinsson varamaður Grindavíkur skoraði sigurmark leiksins, þegar komið var í uppbótartíma.
Magnús fékk langa sendingu inn fyrir vörn Fylkis, hann komst því einn á móti Bjarna Þórði og lagði boltann í netið. Óskabyrjun hjá Magnúsi í leiknum sem og hjá Grindavík en hann gekk til liðs við Grindavík frá Haukum í vetur.
Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins flautaði síðan leikinn af, stuttu eftir að Fylkismenn tóku miðjuna. Þvílík vonbrigði fyrir Fylkismenn sem voru komnir í góða stöðu í fyrri hálfleik og ekkert virtist í spilunum að Grindavík myndu ógna þeim eitthvað í þessum leik.
Grindvíkingar hinsvegar seigir að gefast ekki upp og munu þessi þrjú stig kannski skipta sköpum fyrir þá þegar lengra líður á sumarið.
Byrjunarlið Fylkis: Bjarni Þórður Halldórsson, Andri Þór Jónsson, Kristján Valdimarsson, Þórir Hannesson, Kjartan Ágúst Breiðdal, Ingimundur Níels Óskarsson (Rúrik Andri Þorfinnsson ('80), Andrés Már Jóhannesson (Trausti Björn Ríkharðsson ('84), Gylfi Einarsson, Baldur Bett, Tómas Þorsteinsson (Jóhann Þórhallsson ('56), Albert Brynjar Ingason.
Ónotaðir varamenn Fylkis: Valur Fannar Gíslason, Fjalar Þorgeirsson (M), Andri Már Hermannsson, Jóhann Andri Kristjánsson.
Byrjunarlið Grindavíkur: Óskar Pétursson (M) (Jack Giddens ('13), Ray Anthony Jónsson, Bogi Rafn Einarssonl, Jamie McCunnie, Jóhann Helgason, Scott Ramsay, Orri Freyr Hjaltalín (F), Ólafur Örn Bjarnason, Ywacine Si Salem (Paul McShane('89), Alexander Magnússon, Michal Pospisil (Magnús Björgvinsson('78).
Ónotaðir varamenn Grindavíkur: Matthías Friðriksson, Guðmundur Andri Bjarnason, Óli Baldur Bjarnason, Guðmundur Egill Bergsteinsson.
Aðstæður: Gervigrasið slétt, logn og bjart.
Áhorfendur: 876
Dómari: Gunnar Jarl Jónsson, komst vel í gegnum verkefnið.
Maður leiksins: Orri Freyr Hjaltalín (Grindavík)
90.mín: MAAAAAAARK! Magnús Björgvinsson skorar þriðja mark Grindavíkur í leiknum. Og nokkrum sekúndum síðar er leikurinn flautaður af.
88.mín: Paul McShane kemur inn á fyrir Ywacine Si Salem í liði Grindavíkur.
84.mín: Eintómar skiptingar hér. Trausti Björn Ríkharðsson kemur inná fyrir Andrés Má Jóhannesson.
81.mín: Rúrik Andri Þorfinnsson kemur inná í liði Fylkis fyrir Ingimund Níels Óskarsson.
78.mín: Magnús Björgvinsson kemur inná í liði Grindavíkur fyrir Michal Pospisil. Rólegt áfram hér í Kórnum.
68.mín: Allt fremur rólegt hér í Kórnum. Fylkismenn eru þó að sækja í sig veðrið.
Twitter Oddur Helgi Guðmundsson
Scott Ramsey er ennþá maðurinn! Þvílíkur kóngur! #fagmaður #fotbolti #pepsideildin
61.mín: Grindvíkingar nærri því að komast yfir í leiknum. Scott Ramsey átti aukaspyrnu sem virst hættulítil og fór beint á Bjarna Þórð, sem hinsvegar missti boltann úr höndum sér og Pospisil var mættur í frákastið en Bjarni Þórður kastaði sér fyrir boltann og Fylkismenn hreinsuðu frá.
56.mín: Tómas Þorsteinsson fer útaf og fyrir hann kemur Jóhann Þórhallsson.
53.mín: MAAAAAAARK! Scott Ramsey jafnar metin fyrir Grindavík
Alexander Magnússon átti sendingu fyrir markið frá vinstri þar sem fyrirliðinn Orri Freyr skallaði boltann áfram, á Scott Ramsey sem var skrefi frá marklínunni og potaði boltanum yfir línuna.
48.mín: Baldur Bett átti gott skot sem fór rétt yfir þverslánna.
46.mín: Seinni hálfleikurinn er hafinn. Óbreytt lið sem hefja leik.
Twitter: Hreinn Gustavsson
Fylkir miklu betri í fyrri, óþarfa mark hjá Grindavík #fotbolti #fylkirbestir #fylkir
45.mín: Hálfleikur.
43.mín.: MAAAAAAAARK Orri Freyr Hjaltalín minnkar muninn fyrir Grindavík.
Eftir aukaspyrnu að aukaspyrna Grindavíkur frá miðjum vellinum hrökk úr vítateig Fylkismanna, sendi Scott Ramsey boltann aftur inn í teig og þaðan hrökk boltinn á Orra Frey sem skaut boltanum þéttingsfast að marki Fylkis og söng boltinn í netinu. 2-1.
Twitter: Ragnar Bragi:
Fylkir að byrja gridarlega vel, mark nr 2! Mark umferðarinnar? #fotbolti #Gylfimadurmotsins
36.mín:Tómas Þorsteinsson ekki langt frá því að koma Fylkismönnum í 3-0, en Jack Giddens bjargaði á síðustu stundu. Ingimundur Níels átti þó mikinn þátt í þessu, því hann prjónaði sig framhjá Ray Jónssyni og var kominn að endalínunni og gaf stuttan bolta á nærstöngina þar sem Tómas kom á fleygiferð en skot hans eins og fyrr segir í Jack og í horn.
33.mín:Grindvíkingar reyna og reyna en Fylkisvörnin er sterk og gefur fá færi á sér.
27.mín:MAAAAAARK! Ingimundur Níels Óskarsson kemur Fylkismönnum í 2-0 eftir flottann skalla. Tómas Þorsteinsson komst upp vinstri kantinn, átti fyrirgjöf sem fór beint á kollinn á Ingimundi sem skallaði boltann yfir Jack Giddens og endaði boltinn í hliðarnetinu hinum megin.
25.mín: Mótið er hafinn, þó að Pétur K. Kristinsson vilji halda öðru fram.
Twitter: Pétur Kristinsson:
@aborkur Mótið er ekki byrjað Geiri og þú strax kominn í bann. Mér þykir samt vænt um þig. #fotbolti #Börkuríbanni! #vertustillturísumar!
23.mín: Meistaralega vel varið hjá hinum unga, Jack Giddens! Albert Brynjar komst einn í gegn og framhjá Giddens en missti boltann einum og langt frá sér, lagði síðan boltann út í teiginn þar sem Andrés Már Jóhannesson var einn og átti fínt skot sem Jack Giddens varði mjög vel.
Twitter: Davið Lúther og Gísli Torfi:
#fotbolti Hver annar en Gylfi með fyrsta markið!
Gylfi Einars með fyrsta markið 2011 #fótbolti
18.mín: Óskar Pétursson markvörður Grindavíkur var skipt útaf en hann hefur líklega lent í samstuði við Gylfa Einarsson í markinu. Jack Giddens kemur inn á í hans stað.
13.mín: MAAAAAAAAAARK Gylfi Einarsson hefur skorað fyrsta mark Pepsi-deildarinnar!
Ingimundur Níels Óskarsson gaf fyrir frá hægri þar sem Gylfi Einarsson mætti á fleygiferð og potaði boltanum inn en Óskar Pétursson markvörður Grindavíkur var of seinn og náði ekki fyrirgjöfinni.
7.mín: Grindvíkingar eru vaknaðir, Alexander Magnússon geystist upp hægri vænginn, gaf góðan bolta fyrir þar sem Scott Ramsey var á fjær stönginni, en slakt skot hans fór aftur fyrir markið.
5.mín:Fyrsta skot leiksins að marki átti vinstri bakvörðurinn í liði Fylkis, Andri Þór Jónsson, en skotið beint á Óskar Pétursson sem var ekki í vandræðum að verja.
Twitter: Brynjar Ingi Erluson:
Mest spennandi leikur dagsins, Fylkir vs Grindavík. Toppslagur #fotbolti #korinn #30gradur
1.mín: Leikurinn er hafinn, Grindvíkingar spila í bláu en Fylkismenn leika að sjálfsögðu í sínum appelsínugulu búningum. Það er afar fámennt en vonandi góðmennt í stúkunni.
19:13: Leikmenn liðana er að ganga inn á völlinn.
Twitter: Freyr Gustavsson:
Kórinn lyktar eins og lengjubikar #fylkirbestir #fotbolti
19:06: Leikmenn beggja liða hafa haldið inn í búningsklefa og eru líklega að peppa sig upp fyrir komandi átök. Það styttist í að Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins munu flauta þennan sögulega leik á.
19:01: Grindvíkingar hita upp í "drilli" en Fylkismenn spila aftur á móti 5 á móti 5 á litlu svæði. Hvor upphitunin mun skila sigri í kvöld, kemur síðan í ljós...
18:58: Ásgeir Börkur er í leikbanni í dag í liði Fylkis, en hann lætur ekki deigan síga og er mættur tvítaði í tilefni dagsins.
Twitter: Ásgeir Börkur Ásgeirsson:
áfram fylkir
Twitter: Magnús Sigurbjörnsson:
Fylkismenn mættir á Blástein og vilja ekkert annað en sigur í Kórnum! #fotbolti #fylkirgrindavik
18:44: Byrjunarliðin eru komin í hendur mínar og eru liðin eftirfarandi.
Byrjunarlið Fylkis: Bjarni Þórður Halldórsson, Andri Þór Jónsson, Kristján Valdimarsson, Þórir Hannesson, Kjartan Ágúst Breiðdal, Ingimundur Níels Óskarsson (Rúrik Andri Þorfinnsson ('80)), Andrés Már Jóhannesson (Trausti Björn Ríkharðsson ('84)), Gylfi Einarsson, Baldur Bett, Tómas Þorsteinsson (Jóhann Þórhallsson ('56)), Albert Brynjar Ingason.
Varamenn Fylkis: Valur Fannar Gíslason, Fjalar Þorgeirsson (M), Andri Már Hermannsson, Jóhann Andri Kristjánsson.
Byrjunarlið Grindavíkur: Óskar Pétursson (M) (Jack Giddens ('13)), Ray Anthony Jónsson, Bogi Rafn Einarssonl, Jamie McCunnie, Jóhann Helgason, Scott Ramsay, Orri Freyr Hjaltalín (F), Ólafur Örn Bjarnason, Ywacine Si Salem (Paul McShane('89)), Alexander Magnússon, Michal Pospisil (Magnús Björgvinsson('78)).
Varamenn Grindavíkur: Mattíhas Friðriksson, Guðmundur Andri Bjarnason, Óli Baldur Bjarnason, Guðmundur Egill Bergsteinsson.
18:45: Þar sem um er að ræða fyrstu umferðina í Pepsi-deildina þá væri nú ekki vitlaust að fara aðeins yfir hvaða leikmenn liðin hafa fengið fyrir tímabilið og að sama skapi hvaða leikmenn kvöddu liðið.
Fylkismenn vönduðu valið vel á leikmannamarkðnum fyrir tímabilið og fengu einn mann heim úr atvinnumennsku. Gylfi Einarsson kom til liðsins frá Brann í Noregi. Bjarni Þórður Halldórsson kom heim aftur í lautina úr Garðabænum. Svo fengu Fylkismenn einnig þá, Rúrik Andra Þorfinnsson frá Fram og Trausta Björn Ríkharðsson frá ÍR.
Þeir sem fóru frá Fylkir, voru þeir; Andrew Bazi, Felix Hjálmarsson, Friðrik Ingi Þráinsson, Pape Mamadou Faye og Einar Pétursson. Einnig hætti Ólafur Stígsson. Úr láni fengu Fylkismenn síðan Daníel Frey Guðmundsson og Fannar Baldvinsson.
Grindvíkingar voru duglegir að fá leikmenn í vetur enda misstu þeir marga á sama tíma. Annað hvort fengu þeir leikmenn að utan eða frá liðum í næstu bæjarfélögum. Bogi Rafn Einarsson og Einar Helgi Helgason komu frá Njarðvík. Paul McShane kom frá Keflavík. ÚR Hafnarfirðinum komu þeir, Magnús Björgvinsson og Jamie McCunnie frá Haukum.
Erlendis frá komu síðan Jack Giddens, Michal Pospisil og Yacine Si Salem.
Þeir sem hurfu á brott voru þeir, Auðun Helgason, Grétar Ólafur Hjartarson, Gjorgi Manveski, Gilles Ondo, Jósef Kristinn Jósefsson, Loic Ondo, Marko Stefánsson og Rúnar Daníelsson.
18:44: Fyrir áhugamenn um íslenska dómgæslu get ég upplýst ykkur með því að dómari leiksins í kvöld er Gunnar Jarl Jónsson. Aðstoðardómari eitt er síðan Frosti Viðar Gunnarsson, aðstoðardómari tvö er Birkir Sigurðarson. Eftirlitsmaður KSÍ á leiknum er hinn þrautreyndi, Eyjólfur Ólafsson.
Twitter: Tómas Þorsteinsson, leikmaður Fylkis
Fylkir vs Grindavík í Kórnum kl 19:15, spáð 20°C og logn ! #3stigíárbæinn
18:30: Sælt verið fólkið. Fyrsta umferðin í Pepsi-deild karla í ár er söguleg fyrir margar sakir og ein þeirra er sú að leikur Fylkis og Grindavíkur í 1.umferðinni verður leikinn innan dyra í Kórnum.
Hér verður bein textalýsing frá leiknum sjálfum.
Við minnum Twitter-notendur á að nota hashtagið #fotbolti ef þeir tísta um leikinn.