Óskar Örn Hauksson jafnaði fyrir KR í uppbótartíma - Hilmar Geir skoraði í sínum öðrum leik í röð
KR 1 - 1 Keflavík:
0-1: Hilmar Geir Eiðsson Keflavík ('62)
1-1: Óskar Örn Haukson KR ('90)
0-1: Hilmar Geir Eiðsson Keflavík ('62)
1-1: Óskar Örn Haukson KR ('90)
KR tók á móti Keflavík í annarri umferð Pepsí deildar karla í knattspyrnu í dag. Það viðraði hreint frábærlega til knattspyrnuiðkunnar í Vesturbænum í dag, sól og smávegis vindur.
Bæði lið sigruðu fyrsta leik sinn þetta sumarið og því stóðu væntingar til þess að leikurinn yrði fjörugur. Fyrri hálfleikurinn var það þó ekki og var lítið um góða tilburði. Hættulegasta færi fyrrihálfleiksins átti sér stað á 14 mínútu leiksins er Baldur Sigurðsson átti flotta stungusendingu á Kjartan Henry sem komst einn á móti Ómari í markinu og ágætt skot hans fór rétt framhjá markinu.
Keflvíkingar voru svo heppnir á 19 mínútu leiksins að missa ekki Ómar markmann af velli er Guðmundur Reynir fékk sendingu frá Bjarna Guðjónssyni inn fyrir vörnina, Guðmundur var við það að komast í boltann er Ómar kom á fullum krafti á móti honum og virtist fara í andlitið á Guðmundi Reyni en Gunnar Jarl dómari leiksins var viss í sinni sök og dæmdi ekki neitt.
Keflvíkingar voru svo nærri því að skora á 29 mínútu þegar Magnús Þórir sendir góða sendingu inn í teig KR, Hannes markmaður fór í skógarferð og missti af boltanum. Jóhann Birnir nær til hans en skotið hans var ekki nógu gott og fór yfir markið.
Óskar Örn Hauksson var svo hinum meginn á vellinum aðeins nokkrum mínútum seinna í góðu færi og náði fínu skoti en Ómar varði vel. Liðin fóru því inn í hálfleikshléið án þess að skora.
Seinni hálfleikur byrjaði af sama skapi líkt og sá fyrri og ekki mikið um að vera, fyrr en á 62 mínútu leiksins þegar Guðmundur Steinarsson átti frábæra stungusendingu á Hilmar Geir Eiðsson sem átti ekki í vandræðum með að leggja boltann snyrtilega framhjá Hannesi í markinu.
KR-ingar vöknuðu til lífsins við þetta er og sóttu stíft og reyndu sitt besta til þess að skora en voru ekki að ná að skapa sér nógu góð marktækifæri. Guðjón Baldvinsson fékk til að mynda stórgott færi á 80 mínútu leiksin er hann fékk boltann beint fyrir framan markið en skot hans ekki nógu gott og Ómar varði.
En þegar allt leit út fyrir að Keflvíkingar myndu ná sigri í leiknum að þá eftir mikinn atgang í teig Keflvíkinga náði Viktor Bjarki að senda boltann og Óskar Örn Hauksson náði að koma skoti að marki og jafnaði metin. Keflvíkingar voru ósáttir við Gunnar Jarl dómara því að einn af þeirra leikmönnum lá eftir óvígur í grasinu þegar KR jafnaði en Gunnar Jarl sá ekki ástæðu til að stöðva leikinn.
Eitt atvik átti síðan eftir að gerast áður en leiknum lauk sem var til þess að Keflvíkingar urðu æfir út í Gunnar Jarl. Magnús Sverrir Þorsteinsson var sloppinn einn í gegnum vörn KR en Grétar Sigfinnur Sigurðarsson náði að tækla Magnús og stöðva hann. Grétar fór í boltann og gerði þetta virkilega vel en skiljanlegt að Keflvíkingar væru ósáttir við það að Gunnar Jarl skildi ekki dæma vítaspyrnu. Það hefði alveg getað farið þannig en Gunnar dæmdi ekki og fljótlega var leikurinn flautaður af og niðurstaðan því í raun og veru sanngjarnt jafntefli.
Maður leiksins: Guðmundur Reynir Gunnarsson, KR.
Leik lokið. Umfjöllun um leikinn kemur hér á síðuna seinna í kvöld.
90 mín:MARK!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!! Óskar Örn skoraði hér á lokamínútum leiksins og jafnar. Eftir mikinn atgang í teig Keflvíkinga náði Viktor Bjarki að senda boltann og komst Óskar Örn til þess að skjóta og fór boltinn í netið.
88 mín: Guðmundur Steinarsson fer af velli og Bojan Stefán Ljubicic kemur í hans stað.
86 mín: Markaskorarinn Hilmar Geir fer af velli og í hans stað kemur annar markaskorari Grétar Ólafur Hjartarson en hann hefur einmitt spilað fyrir KR.
85 mín: Andri Steinn Birgisson fékk gult spjald.
80 mín: Guðjón Baldvinsson í dauðafæri en hann fékk boltann beint fyrir framan markið en náði ekki nógu góðu skoti og Ómar varði vel.
Twitter:Helgi Þór Gunnarsson
KR pressar stíft en eru ekki að ná að skora, vantar Takefusa #fótbolti
76 mín: Jóhann Birnir Guðmundsson fer af velli og Magnús Sverrir Þorsteinsson kemur í hans stað.
72 mín: Goran Jovanovski fær gult spjald.
Twitter: Helgi Þór Gunnarsson
Vel spilað hjá Keflvíkingum og alvöru mark #fótbolti
62 mín:MARK!!!!!!!!!!!!!!!!!! Hilmar Geir Eiðsson fékk flotta stungusendingu frá Guðmundi Steinarssyni og átti ekki í vandræðum með að setja boltann framhjá Hannesi í markinu. Loksins að það kom mark!
58 mín: Adam Larsson keflvíkingur fær gult spjald fyrir brot.
50 mín: Bjarni Guðjónsson fær gult spjald fyrir brot, beint fyrir framan nefið á Gunnari Jarli.
46 mín: Seinni hálfleikur hafinn og liðin koma óbreytt til leiks
45 mín: Hálfleikur......
45 mín: Miðjan syngur ,,allt sem við viljum er bikarinn heim" spurning hvort að lið þeirra uppfylli þá ósk í lok tímabilsins.
40 mín: Ég auglýsi eftir fjöri og mörkum í Vesturbæinn....einhver sem getur reddað því?
33 mín: Óskar Örn með stórgott skot að marki Keflvíkinga sem Ómar varði virkilega vel.
29 mín: Dauðafæri hjá Keflvíkingum. Magnús Þórir átti flotta sendingu inn í teig KR, Hannes fór í skógarferð og missti af boltanum og Jóhann Birnir komst í hann en skotið var lélegt og boltinn fór yfir.
25 mín: Það virðist sem svo að það sé að færast aðeins meira fjör í leikinn. Skulum vona að það fara að koma einhver mörk.
19 mín: Úfff.....hér eru Keflvíkingar heppnir að missa ekki Ómar útaf. Bjarni sendir flotta sendingu inn í teiginn, þar var Guðmundur Reynir mættur og var að ná til boltans þegar Ómar markmaður Keflvíkinga keyrir hann niður, fór beint í andlitið á Guðmundi Reyni að því sem mér sýndist. En Gunnar Jarl dómari leiksins dæmdi ekki neitt.
14 mín: Kjartan Henry í dauðafæri, hættulegasta færi leiksins. Baldur átti stungusendingu á Kjartan sem náði góðu skoti rétt framhjá marki Keflvíkinga. Búið að vera dauður leikur fram að því.
7 mín: Leikurinn fer ágætlega af stað, liðin eru að þreifa á hvort öðru og skiptast á að reyna að sækja en engin hættuleg færi eru búin að eiga sér stað enn sem komið er.
2 mín: Spurning hvort að Ólafur hafi rétt fyrir sér?
Twitter: Ólafur Guðmarsson:
Verður öruggur KR sigur í kvöld 4 - 1 #fótbolti
1 mín: Leikurinn er hafinn. Vonumst eftir mögnuðum leik!
19:14: Lagið ,,Heyr mína bæn" hljómar hér og fólkið í stúkunni stendur upp og tekur undir! Ansi magnað. En það eru mínúta í það að Gunnar Jarl Jónsson dómari leiksins flauti til leiks.
19:10: Lagaval drengjanna sem stýra upphitunartónlistinni hérna í Vesturbænum hefur oft verið betra....En veðrið er geggjað og stefnir allt í frábæran leik
19:05: Síðasti leikur þessara liða hér í Vesturbænum lauk með 0 - 0 jafntefli....það er eitthvað sem segir mér að það verði ekki svo í kvöld.
Twitter: Fannar Örn Arnarsson:
verður spennandi að sjá hvort KR-ingum tekst að svæfa Keflvíkinga með Heyr mína bæn í upphafi leiks #einaástæðanfyrirþessulagavali #fotbolti
19:00: Byrjunarliðin eru komin inn hér fyrir neðan og í raun ekkert sem kemur á óvart í þeim. Jóhann Birnir er kominn inn í byrjunarlið Keflvíkinga eftir að hafa tryggt þeim sigur á móti Stjörnunni í fyrstu umferð.
KR: Hannes Þór Sigurðsson, Grétar Sigfinnur Grétarsson, Bjarni Eggerts Guðjónsson (F) Skúli Jón Friðgeirsson, Baldur Sigurðsson, Kjartan Henry Finnbogason, Óskar Örn Hauksson, Viktor Bjarki Arnarsson, Magnús Már Lúðvíksson, Guðmundur Reynir Gunnarsson, Guðjón Baldvinsson.
Varamenn: Atli Jónasson, Ásgeir Örn Ólafsson, Gunnar Örn Jónsson, Dofri Snorrason, Hróar Sigurðsson, Aron Bjarki Jósepsson, Ingólfur Sigurðsson.
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Adam Larsson, Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson (F), Goran Jovanovski, Einar Orri Einarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Andri Steinn Birgisson, Guðmundur Steinarsson, Hilmar Geir Eiðsson, Magnús Þórir Matthíasson.
Varamenn: Magnús Sverrir Þorsteinsson, Bojan Stefán Ljubicic, Brynjar Örn Guðmundsson, Arnór Ingvi Traustason, Ásgrímur Rúnarsson, Bergsteinn Magnússon, Grétar Ólafur Hjartarson.
18:46: Við minnum svo alla Twitter notendur að nota hashtaggið #fótbolti ef þeir eru að twitta um þennan leik :)
18:45: Góða kvöldið og verið hjartanlega velkomin í beina textalýsingu frá Vesturbæ Reykjavíkur þar sem KR tekur á móti Keflavík, leikurinn hefst klukkan 19:15.