Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   þri 17. maí 2011 13:46
Ingibjörg Hinriksdóttir
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Er Hóllinn besti staðurinn?
Ingibjörg Hinriksdóttir
Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum. Hér sitja menn í makindum og má glögglega sjá þann fjölda af bílum sem menn nota sem skjól gegn veðri og vindum.
Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum. Hér sitja menn í makindum og má glögglega sjá þann fjölda af bílum sem menn nota sem skjól gegn veðri og vindum.
Mynd: Stadien & Arenen
Stúkan í Grindavík
Stúkan í Grindavík
Mynd: Stadien & Arenen
Nýja stúkan í Kópavogi er glæsilegt mannvirki
Nýja stúkan í Kópavogi er glæsilegt mannvirki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það væri lítið gaman að Íslandsmótinu í knattspyrnu ef engir væru áhorfendurnir. Á síðustu árum hafa kröfur UEFA og KSÍ um vallaraðstæður og áhorfendaaðstöðu aukist til mikilla muna frá því sem áður var og ekki er laust við að sumir fulltrúar sveitarfélaga (sem yfirleitt fjármagna framkvæmdir) kvarti sáran undan þeim kröfum sem gerðar eru.

Það má líka spyrja sig að því hvaða kröfur eru raunhæfar hér uppi á Íslandi þar sem áhorfendatölur fara sjaldan yfir 3.000 manns á venjulegum leik á Íslandsmóti karla. Er raunhæft að krefjast þess af sveitarfélagi með tæplega 3.000 íbúa að á staðnum sé áhorfendastúka með yfirbyggðum sætum fyrir 1.500 áhorfendur?

Þetta hafa yfirvöld í Grindavík gert, þar var byggð stúka sem, skv. upplýsingum á vefnum tekur 2.500 manns í sæti. Grindvíkingar eru lítið eitt fleiri en þetta, fylla tæplega í þrjú þúsund íbúa. Mannvirkið er enda Grindvíkingum til mikils sóma og gerir ferð suður eftir mun skemmtilegri en áður fyrr þegar maður sat í grasinu, oftast í roki og rigningu.

Persónulega finnst mér krafan um svona stórar og miklar áhorfendastúkur ansi hæpin en ég geri þó þá kröfu til þeirra sem eiga lið í efstu deild að aðstæður séu þannig að áhorfendur geti notið þess að horfa á leikinn í þokkalegu skjóli frá vætu og vindum.

Ekki hafa öll lið í Pepsi deild karla í sumar uppá að bjóða viðunandi aðstæður fyrir áhorfendur. Það á meðal annars við um Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum. Þar hírast menn enn í bílum úti á götu, uppi á Hólnum og hangandi utan á auglýsingaskiltunum utanum völlinn. Sumir "eiga" sinn stað, og vilja hvergi annarsstaðar vera en í brekkunni bak við áhorfendasætin á meðan aðrir geta ekki hugsað sér að hverfa af Hólnum. Miðasalan fer fram á götunni sitt hvoru megin við völlinn og þeir sem eiga leið framhjá vellinum þurfa að gera grein fyrir ferðum sínum áður en þeim er hleypt í gegn. Blaðamannaaðstaðan er í vörubifreið sem er parkerað á götunni bak við áhorfendur.

Þetta er vitaskuld óviðunandi aðstaða fyrir alla sem þangað koma.

Ég þekki þetta vel sjálf, því lengi vel vildi ég hvergi annarsstaðar horfa á leiki á Kópavogsvelli en í brekkunni. Í "stúkuna" fór ég helst aldrei og átti mitt svæði í brekkunni þaðan sem ég sótti mörk. En nýja stúkan breytti þessu öllu enda miklu mun þægilegri og betri en brekkan, sem þó freistar enn á blíðviðrisdögum.

Stúkubyggingar þurfa heldur ekki endilega að vera svo dýrar að þær setji venjulegt sveitarfélag eða íþróttafélag á hliðina. Sjáið t.d. stúkuna í KR, þar sem stemmingin verður hvergi meiri. Hún var ekki byggð fyrir mörg hundruð milljónir króna eins og stúkurnar í Kópavogi og að Hlíðarenda (enda meira umleikis þar heldur en bara áhorfendastæðin). Nei ef ég þekki rétt til byggingar stúkunnar í Frostaskjóli þá var hún haganlega gerð á sínum tíma og þannig að sem minnstur kostnaður hlytist að. Viðhald stúkunnar er að ég tel lítið en notagildið þeim mun meira.

Sem betur fer mun fara að sjást til lands í málefnum áhorfenda á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum og vonandi geta þeir fljótlega leikið heimaleiki sína í Evrópukeppni í sinni heimabyggð. Nýlega byggðu Eyjamenn glæsilega knattspyrnuhöll og nú ríður á að þeir ljúki við byggingu áhorfendaaðstöðu sem sómi er af. Kannski er Hóllinn besti staðurinn til að horfa á leiki en Jói, Einar og hinir karlanir á Hólnum verða að koma sér inn í stúku eins og hinir. Undanþágan frá núverandi ástandi mun ekki vara að eilífu.


banner
banner
banner