,,Málin standa þannig að Ajax er búið að gera tilboð sem AZ Alkmaar hafnaði," sagði íslenski landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson í viðtali við útvarpsþáttinn Fótbolti.net í dag um möguleg félagskipti sín til hollenska stórveldisins Ajax.
Greint hefur verið frá því að Ajax hafi boðið AZ Alkmaar 3,5 milljónir Evra fyrir Kolbein sem skoraði fimmtán mörk í deildinni og þrjú til viðbótar í Evrópudeildinni á nýliðnu tímabili. AZ hafnaði því tilboði og vill fá fimm milljónir evra fyrir Kolbein.
,,Mér finnst þetta frekar há upphæð. Ég er bara búinn að spila eitt ár í aðalliðinu og á aðeins eitt ár eftir af samningnum mínum," sagði Kolbeinn en bar til baka þær sögur að hann væri nú þegar búinn að semja við Ajax.
,,Ajax getur ekki talað við mig fyrr en AZ hefur samþykkt kaupverðið. Fyrr fæ ég ekki leyfi til að ræða við Ajax," sagði Kolbeinn sem hefur þó mikinn áhuga á að ganga í raðir nýkrýndra Hollandsmeistara Ajax.
,,Ég tel að þetta sé rétt skref fyrir mig. Ég vil ekki taka of stór skref í einu og því held ég að það sé gott fyrir mig að vera áfram í Hollandi. Það er mikil uppbyggingin hjá í gangi hjá Ajax og svo er það auðvitað í Meistaradeildinni á næsta tímabili," sagði Kolbeinn Sigþórsson við útvarpsþáttinn Fótbolti.net í dag.