Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   sun 22. maí 2011 23:25
Jóhann Ingi Jónsson
Umfjöllun: Enn eitt jafnteflið hjá Víkingi og Grindavík staðreynd
Nýliðar Víkings R. tóku á móti Grindvíkingum í Víkinni
Víkingur R. 0 - 0 Grindavík

Það var fátt um fína drætti í Víkinni í kvöld þar sem heimamenn tóku á móti Grindvíkingum.

Víkingar sátu fyrir leikinn í 8. sæti með fimm stig en þeir gulklæddu höfðu tapað þremur leikjum í röð og höfðu aðeins þrjú stig í 10. sæti deildarinnar.

Veðrið var ágætt þrátt fyrir kulda og vind. Leikmenn sluppu við bleytu en þurftu þó að sætta sig við ösku í síðari hálfleik sem fauk yfir Reykjavík frá Eldgosinu í Grímsvötnum.

Víkingar léku fyrri hálfleikinn með vindinn í bakið og byrjuðu ágætlega en Marteinn Briem lék boltanum inn á miðjuna til Baldurs Ingimars Aðalsteinssonar sem átti gott skot af um 20 metra færi en boltinn fór rétt framhjá.

Fljótlega eftir það fór að hægjast á leiknum. Víkingar áttu erfitt með að bera boltann upp með samspili og reyndu ítrekað langar sendingar á Helga Sigurðsson sem hljóp út um allar trissur. Grindvíkingar sköpuðu sér lítið í fyrri hálfleik að undanskildum hörkuskalla Ólafs Arnar þjálfara þeirra gulklæddu eftir hornspyrnu en Víkingar björguðu á marklínu. Upp úr því geystust heimamenn í skyndisókn þar sem Helgi Sigurðsson renndi boltanum inn fyrir vörn Grindvíkinga á Martein Briem, en Óskar Pétursson markvörður Grindavíkur kom út fyrir teig og rétt náði að koma í veg fyrir að Marteinn næði til knattarins.

Annað markvert gerðist ekki í síðari hálfleik.

Grindvíkingar mættu ívið öflugri eftir hálfleiksræðurnar. Paul McShane fékk besta færi leiksins á 53. mínútu þegar hann slapp einn inn fyrir vörn heimamanna. Þrátt fyrir mikinn tíma til að athafna sig náði hann ekki að koma knettinum í netið en skot hans fór framhjá.

Stuttu síðar fékk Paul McShane aftur dauðafæri og þá náði hann að koma honum í markið en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu.

Nú héldu áhorfendur að líf væri að færast í leikinn en það varð ekki raunin.

Björgólfur Takefusa kom þó inn á völlinn á 67. mínútu og átti nokkra snarpa spretti. Fékk hann til að mynda ágætis færi á 76. mínútu þegar hann tók vel á móti fyrirgjöf Helga Sigurðssonar, lék á varnarmann en var of lengi að koma skoti að marki og varnarmenn komu hættunni frá.

Í uppbótartíma fékk Yacine Si Salem góða sendingu utan af kantinum en móttakan var ekki nægilega góð hjá honum og markalaust jafntefli var staðreynd.

Bæði lið hafa eflaust gott af því að fá stigið í hús, en það verður að teljast athyglisvert að áhorfendur munu án vafa muna meira eftir öskuskýinu sem færðist yfir völlinn í síðari hálfleik en knattspyrnutöktunum á vellinum.


Víkingur R: Magnús Þormar (M), Hörður Sigurjón Bjarnason, Mark Rutgers, Halldór Smári Sigurðsson, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Marteinn Briem (Björgólfur Takefusa - '67), Denis Abdulahi, Milos Milojevic, Helgi Sigurðsson (F), Walter Hjaltested, Sigurður Egill Lárusson (Kemar Roofe - '67).
Ónotaðir varamenn: Skúli Sigurðsson (M), Ingólfur Þórarinsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Kjartan Dige Baldursson, Cameron Gayle.

Grindavík: Óskar Pétursson (M), Jamie McCunnie, Ray A. Jónsson, Paul McShane, Jóhann Helgason, Orri Freyr Hjaltalín (F), Ólafur Örn Bjarnason, Óli Baldur Bjarnason (Scott Ramsay - '87), Yacine Si Salem, Robert Winters, Alexander Magnússon.
Ónotaðir varamenn: Jack Richard Edward Giddens (M), Bogi Rafn Einarsson, Michal Pospisil, Matthías Örn Friðriksson, Magnús Björgvinsson, Guðmundur Andri Bjarnason.

Maður leiksins: Mark Rutgers.
Áhorfendur: 852
Aðstæður: Þurrt og þónokkur vindur. Öskuský færðist svo yfir völlinn í síðari hálfeik.
Dómari: Þorvaldur Árnason. Steig vart feilspor, en það reyndi lítið á hann.


Leik lokið
Niðurstaðan markalaust jafntefli. Liðin hafa nú mæst 7 sinnum í efstu deild, sex sinnum hefur endað með jafntefli.


66. mín Víkingar gera tvöfalda skiptingu. Marteinn Briem og Sigurður Egill fara af velli en Björgólfur Takefusa Kemar Roofe koma inn á völlinn.

Þá er Baldur Ingimar Aðalsteinsson heppinn að vera enn á vellinum að mínu mati en hann fór hátt upp með olnbogann og í höfuð eins Grindvíkingsins í einu skallaeinvíginu.

64. mín Grindvíkingar skora mark en það er dæmt af vegna rangstöðu. Paul McShane var að mati aðstoðardómarans fyrir innan vörn Víkings og kláraði hann færið vel framhjá Magnúsi í markinu. Líklega réttur dómur.

56. mín Hér rétt áðan gerðu Grindvíkingar tilkall til vítaspyrnu þegar Ólafur Örn féll í teignum eftir viðskipti sín við Mark Rutgers en Þorvaldur var viss í sinni sök og dæmdi ekkert á það atvik. Baldur Ingimar Aðalsteinsson var nú rétt í þessu fyrstur til þess að fá að líta gult spjald.

52. mín Grindvíkingar hafa hafið síðari hálfleik af miklum krafti. Nú rétt í þessu var Paul McShane að fara illa með upplagt marktækifæri þar sem hann komst einn inn fyrir vörnina með nægan tíma til að athafna sig. Hann hins vegar skaut framhjá markinu. Dauðafæri!

46. mín Þorvaldur hefur flautað leikinn á að nýju. Nú er að vona að menn taki sig á í andlitinu og bjóði upp á almennilega knattspyrnu nú í að minnsta kosti 45 mínútur. Sjáum hvað setur.

Twitter: Sverrir Sverrisson
Skelfilega leiðinlegur fyrri hálfleikur hérna í víkinni thad er meirri spenna í hálfleiksupphitun #fotbolti

Twitter: Sverrir Sverrisson: Er þetta Anderson sem er að hita upp í hálfleik hjá víkingsmönnum??? #fotbolti

45. mín Þá hefur Þorvaldur Árnason dómari leiksins flautað til hálfleiks. Markalaust og bragðdauft.

45. mín Víkingar fengu aukaspyrnu á hættulegum stað en aukaspyrna Sigurðs Helga Lárussonar var laflaus og þar að auki langt yfir markið.

39. mín Ég óska eftir Twitter-uppfærslum áhorfendur góðir. Ekki hef ég mikið um að skrifa í þessum leik, fyrir utan hægar sóknir og misheppnaðar fyrirgjafir.

30. mín Já lesendur góðir, þá fara hjólin að snúast. Grindvíkingar fengu sína fyrstu hornspyrnu og skalla Ólafs Arnar var varinn á marklínu. Víkingar þeystust upp völlinn og fékk Marteinn Briem stungusendingu inn fyrir vörn Grindvíkinga en Óskar Pétursson kom út fyrir teig og rétt náði að komast í veg fyrir boltann. Markalaust enn hér í Víkinni, en sjáum til hvort að fyrsta markið komi nú ekki bráðlega.

27. mín Já leikurinn heldur áfram á sömu leið. Víkingar keppast við það að hafa boltann sem mest í loftinu því þeir dúndra honum fram á við um leið og þeir ná taki á honum. Grindvíkingar spila boltanum heldur meira með jörðu gegn vindinum en hafa enn ekki skapað neitt færi, hvað þá hálffæri.

18. mín Leikurinn er ekki mikið fyrir augað þessa stundina. Víkingar reyna of mikið af löngu sendingum fram á við sem unglambið Helgi Sigurðsson er búinn að elda eftir mestu getu án þess að valda Grindvíkingum of miklum vandræðum. Grindvíkingar hafa enn ekki skapað sér neitt hættulegt færi hingað til.

10. mín Leikurinn er að komast í jafnvægi en Grindvíkingarnir eru búnir að átta sig á rokinu. Ef einhverjir eiga að þekkja vindinn, þá eru það þeir gulklæddu.

3. mín Víkingar byrja sprækir. Marteinn Briem lék boltanum fyrir miðju þar sem Baldur Ingimar Aðalsteinsson átti ágætis marktilraun af 20 metra færi en boltinn fór framhjá.

1. mín Þá hefur dómari leiksins, Þorvaldur Árnason flautað leikinn á. Grindvíkingar hefja leik en Víkingar hafa vindinn í bakið nú í fyrri hálfleik.

Twitter: Pétur K. Kristinsson
Marri Berserkur Bremsa skorar 2 stykki í kvöld #fotbolti #staðfest

19.14 Vert er að minna á það að áhorfendur á vellinum eru hvattir til þess að skella inn færslum á Twitter á meðan leik stendur. Ef notað er has-tag-ið #fotbolti er aldrei að vita nema að Twittið ykkar birtist hér í lýsingunni.

19.11 Peppi Pepsidós/karl/stúlka er hvergi sjáanlegur. Því er miður en við auglýsum eftir því/honum/henni.

Þá má líka vekja athygli á því að varamenn Grindvíkinga hafa hingað til verið í "crossbar-challenge" ef ég leyfi mér að sletta hérna. Þeir hafa verið að reyna að hitta í þverslána frá miðjum vallarhelmingi með miður góðum árangri.
Hugsanlega eru þeir vanari meiri vindi, þeir gulklæddu.

19.09 Liðin hafa komið sér fyrir í búningsklefunum að hlusta á síðustu orð þjálfarana. DJ-Víkingur er búinn að lækka í trans/teknóinu svo áhorfendur geta nú átt eðlilegar samræður saman hér í stúkunni og sólin er farin að skína á okkur. Það má með sanni segja að allt sé á uppleið hérna í Víkinni,

19.05 Veðrið hér í Víkinni er ágætt þrátt fyrir þónokkurn kulda. Einnig er þónokkur vindur hér skáhalt yfir völlinn og því ljóst að annað liðið leikur með hann í bakið.

19.01 Athyglisvert að sjá liðin í kvöld. Marteinn Briem er í fyrsta sinn í byrjunarliði Víkings í sumar, en hann kom inn á í síðasta leik gegn FH. Pétur Georg Markan er ekki í hóp hjá Víking.

Þá dettur Scott Ramsay úr byrjunarliði Grindvíkinga en hann situr á bekknum við upphafsflautið.

18.59 Sæl veriði, þá hafa byrjunarliðin verið opinberuð.

Víkingur R:
Magnús Þormar (M), Hörður Sigurjón Bjarnason, Mark Rutgers, Halldór Smári Sigurðsson, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Marteinn Briem, Denis Abdulahi, Milos Milojevic, Helgi Sigurðsson (F), Walter Hjaltested, Sigurður Egill Lárusson.
Varamenn: Skúli Sigurðsson (M), Ingólfur Þórarinsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Kjartan Dige Baldursson, Kemar Roofe, Cameron Gayle, Björgólfur Takefusa.

Grindavík:
Óskar Pétursson (M), Jamie McCunnie, Ray A. Jónsson, Paul McShane, Jóhann Helgason, Orri Freyr Hjaltalín (F), Ólafur Örn Bjarnason, Óli Baldur Bjarnason, Yacine Si Salem, Robert Winters, Alexander Magnússon.
Varamenn: Jack Richard Edward Giddens, Bogi Rafn Einarsson, Michal Pospisil, Matthías Örn Friðriksson, Scott Ramsay, Magnús Björgvinsson, Guðmundur Andri Bjarnason.

18.30 Víkingar bjóða Grindvíkinga velkomna í Víkinni í kvöld.

Bæði lið hafa leikið fjóra leiki og eru nýliðarnir betur settir nú í upphafi móts því þeir hafa uppskorið 5 stig og eru í 8. sæti.
Grindvíkingar unnu Fylki í fyrstu umferð í Fífunni en þrír síðustu leikir hafa endað með tapi þeirra gulklæddu. Þeir eru því aðeins með þrjú stig og sitja í 10. sæti.

Í síðustu umferð náðu Víkingar í gott stig gegn sigurstranglegum FH-ingum í Hafnarfirði. Grindvíkingar töpuðu hins vegar þriðja leik sínum í röð gegn nágrönnum sínum úr Keflavík á Grindavíkurvelli.

Í fyrstu fjórum umferðunum hafa Víkingar skorað þrjú mörk og Grindvíkingar fjögur. Ætli liðin muni loksins taka sig til og bjóða upp á markaveislu fyrir okkur í kvöld?
banner
banner
banner