Björn Bergmann Sigurðarson, framherji Lilleström, hefur leikið frábærlega í norsku úrvalsdeildinni í sumar og eru mörg lið með hann undir smásjánni, þ.á.m. Rosenborg samkvæmt heimildum Fótbolti.net.
Björn skoraði tvö mörk gegn Rosenborg í norsku bikarkeppninni í gærkvöldi og var í kjölfarið valinn besti maður vallarins.
Forráðamenn Rosenborg líta á Björn sem framtíðarstjörnu í norska boltanum og hafa óformlegar þreifingar þegar átt sér stað milli félaganna. Hinsvegar er ljóst að forráðamenn Lilleström hafa lítinn áhuga á að selja eina stærstu stjörnu liðsins til liðsins frá Þrándheimi.
Útsendarar frá enska 1. deildarliðinu Watford og gríska liðinu AEK frá Aþenu hafa einnig fylgst með leikmanninum að undanförnu en hann var á meðal bestu leikmanna U-21 árs landsliðinu á Evrópumótinu í Danmörku.
Líkur eru á því að framherjapar Lilleström hverfi á braut frá félaginu innan tíðar en félagi Björns í framlínunni, Anthony Ujah, er gríðarlega eftirsóttur um þessar mundir og hefur danska úrvalsdeildarliðið Bröndby mikinn áhuga á leikmanninum.
Björn, sem er tvítugur, skrifaði undir nýjan samning við Lilleström í upphafi árs en forráðamenn félagsins munu væntanlega ekki hlusta á tilboð undir 200 milljónum króna í leikmaninn.