Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 05. júlí 2011 23:11
Alexander Freyr Tamimi
Umfjöllun: Stjarnan fékk ekkert gefins gegn Grindavík
Jóhann Björn Sveinbjörnsson stýrði Stjörnunni í kvöld í fjarveru Þorláks Árnasonar, sem er með U16 landsliðið á Norðurlandamótinu.
Jóhann Björn Sveinbjörnsson stýrði Stjörnunni í kvöld í fjarveru Þorláks Árnasonar, sem er með U16 landsliðið á Norðurlandamótinu.
Mynd: Fótbolti.net - Katla Margrét Aradóttir
Stjarnan 3 – 1 Grindavík
1-0 Inga Birna Friðjónsdóttir (´33)
1-1 Dernelle Mascall (´37)
2-1 Ashley Bares (´46)
3-1 Ashley Bares (´83)

Stjarnan vann í dag 3-1 sigur á botnliði Grindavíkur í Garðabænum í Pepsi deild kvenna. Grindavík situr enn í neðsta sæti með einungis eitt stig á meðan Stjarnan er stigi á eftir toppliði Vals. Grindvíkingar geta þó tekið margt jákvætt úr þessum leik þó að staðreyndin sé enn sú að þær séu í miklum vandræðum stigalega séð.

Stjarnan byrjaði leikinn mun betur og óð í ágætis færum. Þær áttu fjölda skota að marki en þau hittu þó ekki öll rammann.

Eftir um það bil stundarfjórðung fengu Grindavíkurstúlkur þó besta færi leiksins fram að þessu þegar fyrirliðinn Anna Þórunn Guðmundsdóttir komst ein gegn markverði, en Ashley Thompson varði vel frá henni með löppinni.

Skömmu síðar átti Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skalla naumlega framhjá marki Grindavíkur eftir hornspyrnu, nóg að gerast í þessum leik.

Leikurinn datt aðeins niður á tímabili en Grindavíkurstúlkur gáfu ekki tommu eftir. Shaneeka Gordon var fremst í flokki í liði gestanna og sýndi oft á tíðum frábæra takta. Hún var mjög hættuleg fram á við og olli vandræðum.

Stjarnan var þó umtalsvert sterkari aðilinn þegar á heildina var litið. Ashley Bares fékk gott færi til að skora en lét verja frá sér.

Heimastúlkum tókst þó að komast yfir á 33. mínútu en þar var á ferð Inga Birna Friðjónsdóttir með flottu skoti úr teignum. Það var mikið klafs inni í teig eftir hornspyrnu en boltinn barst að lokum til Ingu Birnu sem skoraði í vinstra hornið með hárnákvæmu skoti.

Það tók Grindavík þó ekki langan tíma að jafna metin, því að einungis fjórum mínútum síðar var Darnelle Mascall búin að skora. Hún lék sér þá að vörn heimaliðsins og skoraði síðan framhjá Ashley Thompson í markinu, sem var hársbreidd frá því að verja. Glæsilegt jöfnunarmark hjá Grindavík, tilþrifin hjá Mascall mjög flott.

Þrátt fyrir talsverða pressu af hálfu Stjörnunnar tókst þeim ekki að bæta við marki fyrir leikhlé og var staðan enn jöfn, 1-1, þegar Guðrún Fema Ólafsdóttir dómari flautaði til leikhlés.

Stjörnustúlkur mættu mjög grimmar í seinni hálfleikinn. Þær fiskuðu strax hornspyrnu og úr henni kom þeirra annað mark í leiknum. Þar var á ferð hin bandaríska Ashley Bares, en hún hefur verið iðin við kolann í markaskorun í sumar og er markahæsti leikmaður deildarinnar.

Stjarnan var yfirburðaraðilinn í leiknum en Shaneeka Gordon var ennþá hættuleg í liði Grindavíkur. Eftir tæpa klukkustund fengu Grindavíkurstúlkur einhverra ástæðna vegna vítaspyrnu inni í teig, en aðstoðardómarinn ákvað að mæla með því að sú spyrna væri dæmd og fylgdi dómarinn ráðum hans. Enginn skildi hvers vegna spyrnan var dæmd, en samkvæmt upplýsingum sem fengust eftir leik átti Írunn Þorbjörg Aradóttir að hafa dottið á knöttinn sem var þá þegar í höndum Ashley Thompson í markinu. En vítið var dæmt og á punktinn steig Ágústa Jóna Heiðdal.

Spyrna hennar var hins vegar ekki sérstök og varði Thompson frá henni. Staðan því enn 2-1 fyrir Stjörnunni. Skömmu síðar bjargaði Ashley Stjörnunni aftur þegar hún kom í veg fyrir að Shaneeka Gordon kæmi knettinum framhjá henni þegar hún var komin ein í gegn.

Stjarnan hélt áfram að sækja og leitaði eftir þessu eina marki til að koma sér í þægilegri stöðu. Gunnhildur Yrsa átti skalla í hliðarnetið eftir hornspyrnu og þær bláklæddu voru meira með knöttinn.

Það var þó ekki mikið í gangi í leiknum, annað en að Stjarnan fékk óendanlega margar hornspyrnur sem þeim tókst þó ekki að nýta. Þær voru samt talsvert betri en þó aldrei öruggar í stöðunni 2-1.

Markið sem þær höfðu lagt svo hart að sér að ná kom svo á 83. mínútu en þar var Ashley Bares aftur á ferðinni. Hún átti þá flotta rispu sem endaði með þrumuskoti utan teigs og boltinn steinlá í netinu. Þarna voru heimastúlkur komnar langt með að tryggja sér stigin þrjú í þessari viðureign.

Fátt markvert gerðist þar til lokaflautið gall, utan við þá staðreynd að Stjarnan komst næstum því í 4-1 með síðustu spyrnu leiksins. Þær urðu þó að láta sér nægja 3-1 sigur í mjög erfiðum leik, og una því sjálfsagt vel.

Eftir umferð kvöldsins eru Stjarnan og Valur búin að slíta sig svolítið frá hinum liðunum í toppbaráttunni. Valur er efsta liðið með 22 stig og Stjarnan með 21. ÍBV, sem tapaði 2-0 gegn Fylki í kvöld, kemur svo þar á eftir með 16 stig. Þetta gæti því orðið tveggja hesta kapphlaup, svo að maður þýði þann fræga enska frasa.

Byrjunarlið Stjörnunnar: Ashley Thompson (M), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (F), Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir (80. Helga Franklínsdóttir), Kristrún Kristjánsdóttir, Inga Birna Friðjónsdóttir (90. Þórhildur Stefánsdóttir), Ahkeela Mollon (90. Hugrún Elvarsdóttir), Anna Björk Kristjánsdóttir, Karen Sturludóttir, Ashley Bares, Írunn Þorbjörg Aradóttir.

Byrjunarlið Grindavíkur: Emma Higgins (M), Jóna Sigríður Jónsdóttir, Sarah Wilson, Shaneka Gordon, Alexandra Tómasdóttir (80. Elísabet Ósk Gunnþórsdóttir), Anna Þórunn Guðmundsdóttir (F), Kristín Karlsdóttir (68. Saga Kjærbech Finnbogadóttir), Sara Hrund Helgadóttir, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir, Ágústa Jóna Heiðdal (84. Guðrún Gunnarsdóttir), Demelle Mascal.

Gul spjöld: Shaneeka Gordon (Grindavík), Anna Þórunn Guðmundsdóttir (Grindavík), Karen Sturludóttir (Stjarnan), Ágústa Jóna Heiðdal (Grindavík), Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (Stjarnan), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (Stjarnan), Sara Hrund Helgadóttir (Grindavík)

Maður leiksins: Ashley Thompson (Stjörnunni)

Dómari: Guðrún Fema Ólafsdóttir, átti alls ekki góðan dag

Áhorfendur og aðstæður: 112 manns í frábæru veðri á nývökvuðu teppinu.
banner
banner
banner