,,Þetta var erfitt og mikil barátta. Svo skiptir máli þetta atvik þegar Albert fær rautt og gerir þetta enn erfiðara," sagði Tryggvi Guðmundsson leikmaður ÍBV eftir 2-0 tap gegn Grindavík í Pepsi-deild karla í kvöld.
,,Ég er nokkuð sáttur við okkar leik en við nýtum ekki okkar yfirburði og okkar færi áður en atvikið á sér stað og eftir það finnst mér við skeinuhættari. Mér fannst við eiga fullt af fínum færum þó þeir ættu auðvitað sín líka. Svo virkaði þetta svolítið sprungið í lokin og Scotti bætti við flottu marki."
Albert Sævarsson markvörður ÍBV fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot snemma leiks. Hvað fannst Tryggva um það?
,,Ef þetta er brot þá er þetta víst rautt samkvæmt reglunum, stórskrítnar þessar reglur, þessi double sekt sem við fáum, víti og rautt og einum færri það sem eftir er af leiknum. Þetta virkaði voðalega saklaust, frekar eins og samstuð. En dómarinn var nær þessu en ég, ég var uppi á topp. En ef þetta var brot þá var þetta bara rautt."
Nánar er rætt við Tryggva í sjónvarpinu að ofan.