Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. júlí 2011 23:55
Fótbolti.net
Umfjöllun: Sterkur útisigur Víkings í rokinu á Seltjarnarnesi
Gunnar Þorbergur Gylfason skrifar frá Seltjarnarnesi
Þorsteinn Már Ragnarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Þorsteinn Már Ragnarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Jónmundur Grétarsson skoraði mark Gróttu í leiknum.
Jónmundur Grétarsson skoraði mark Gróttu í leiknum.
Mynd: Eyjólfur Garðarsson
Grótta 1 - 2 Víkingur Ó:
1-0 Jónmundur Grétarsson
1-1 Guðmundur Magnússon
1-2 Þorsteinn Már Ragnarsson

Grótta og Víkingur Ólafsvík áttust við nú fyrr í kvöld út á Seltjarnarnesi. Mikilvægur leikur fyrir bæði lið enda bæði að reyna að slíta sig frá fallslagnum.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru vægast sagt slæmar. Stífur vindur allan leikinn og völlurinn blautur.

Grótta lék undan vindi í fyrri hálfleik og var mun sterkara. Kvöldið byrjaði vel fyrir heimamenn því á 19. mínútu fengu þeir aukaspyrnu hægra megin út fyrir teig Víkings eftir að brotið var á Sölva Davíðssyni. Einar Bjarni Ómarsson tók spyrnuna sem Einar Hjörleifsson, markmaður Víkings, náði ekki að halda og boltinn datt fyrir Jónmund Grétarsson sem potaði boltanum yfir línuna.

Eftir markið styrktust heimamenn og áttu nokkuð góð færi. Sölvi Davíðsson tók rosalegan sprett þegar hann fór með boltann yfir allan völlinn og jafnframt framhjá nokkrum leikmönnum Víkings og tók skot við vítateiginn sem skall í stönginni.

Einnig sýndi Jónmundur flotta takta rétt fyrir lok hálfleikissins þegar hann tók hjólhestaspyrnu í teig gestanna en boltinn fór rétt framhjá markinu.

En eins og búast mátti við var alger viðsnúningur í seinni hálfleik þar sem ef eitthvað var virtist hafa bætt í vindinn. Nú var komið af gestunum að sækja. Strax á 52. mínútu fékk Guðmundur Magnússon boltann í teig Gróttu og fékk að taka nokkrar snertingar á boltann áður en hann negldi honum í markið. Frábærlega gert hjá Guðmundi.

Aðeins nokkrum mínútum síðar fengu gestirnir svo dæmt víti þegar brotið var á Guðmundi Hafsteinssyni framherja þeirra inn í teig Gróttu. Á vítapunktinn fór fyrirliði þeirra Þorsteinn Már Ragnarsson sem skoraði að öryggi.

Eftir mörkin héldu gestirnir áfram að sækja án þess að skapa sér mikið af hættulegum færum. Gróttumenn máttu sín hins vegar lítið gegn vindnum og gátu lítið náð upp almennilegu spili. Boltinn fór eiginlega bara í hringi, frá útsparki Kristjáns Finnboga í marki Gróttu í innkast aftarlega á vallarhelmingi Gróttu og eftir innkastið leið ekki langur tími þangað til að hann var kominn aftur til Kristjáns.

Víkingar eiga eflaust eftir að fagna sigrinum vel enda náðu þeir með honum að slíta sig frá fallbaráttunni og eru komnir með 19 stig í 6 sæti . Grótta virðist aftur á móti bíða fallbaráttuslagur það sem eftir er sumars og eru eflaust gríðarlega ósáttir með að hafa ekki náð að klára færin sín betur í fyrri hálfleik.
banner
banner