Fyrirliði Grindvíkinga, Óskar Pétursson var líklega feginn að ganga með eitt stig af Vodafone-vellinum í kvöld þegar Grindvíkingar heimsóttu Valsmenn. Grindvíkingar komust yfir í fyrri hálfleik en Valsmenn jöfnuðu metin snemma í seinni hálfleik.
,,Ég er aldrei sáttur nema ég vinni, en það er betra að ganga í burtu með eitt stig heldur en ekkert," sagði Óskar Pétursson markvörðurinn ungi og efnilegi sem átti góðan leik í marki Grindavíkur.
,,Þeir sóttu mikið undir lokin og þar vorum við sjálfum okkur verstir. Við vorum búnir að koma okkur inn í teig og þegar við fengum boltann loksins þá kýldum við boltanum bara fram og misstum boltann strax aftur í staðin fyrir að reyna halda honum lengur innan liðsins," sagði Óskar við Fótbolti.net eftir leikinn í kvöld.
Viðtalið í heild sinni er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.