Ólafur Örn Bjarnason spilandi þjálfari Grindavíkur var tiltölulega sáttur með að hafa fengið eitt stig gegn Breiðablik í Pepsi deild karla, en liðin gerðu 1-1 jafntefli. Hann var ósáttur með framlag sinna manna í fyrri hálfleik en ánægðari með seinni hálfleikinn.
„Eins og leikurinn spilaðist tökum við alveg þetta stig. Eftir fyrstu tíu mínúturnar korterið í fyrri hálfleik var eins og menn ætluðu bara að gera þetta á skokkinu og þá er Breiðablik bara gott lið þegar þeir fá að spila. Við komum varla við boltann síðasta hálftímann í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik er allavega meiri kraftur og vilji þó að kappið sé stundum of mikið,“ sagði Ólafur við Fótbolta.net.
Haukur Ingi Guðnason kom inn á fyrir Magnús Björgvinsson í hálfleik og frískaði það talsvert upp á sóknarleik Grindvíkinga.
„Það breytir bara ýmsu þegar menn eru vinnusamir og Haukur er þannig týpa að hann smitar út frá sér. Það sást allavega í seinni hálfleik að menn voru að reyna, en það er kannski smá falldraugs lykt af þessu einhvern veginn, menn eru svolítið tense og eru að taka slæmar ákvarðanir.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.