,,Ég er sérstaklega ánægður með stelpurnar, þær stóðu sig frábærlega," sagði Jón Þór Brandsson þjálfari Grindavíkur eftir 3-2 sigur á Þrótti í botnbaráttu Pepsi-deildar kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Grindavík 3 - 2 Þróttur R.
,,Mikill karakter og þær gáfust aldrei upp. Þetta var alls ekki auðveldur leikur og þrátt fyrir að við höfum náð þriggja marka forskoti var þetta aldrei búið eins og sýndi sig. En þær héldu haus og stóðu í lappirnar allan tímann og vildu virkilega sigurinn og náðu honum."
,,Við erum óánægð með að vera að gefa færi en vorum ánægð með að skora tvö mörk í fyrri hálfleik. Við ákváðum að þétta svolítið vörnina en svo þróast þetta og fór út í vitleysu þegar við lendum 3-0 yfir og þær henda öllum mannskapnum fram. Þá dettum við til baka og verður pressa."
,,En ég er ánægður með stelpurnar, þær stóðu sig gríðarlega vel og ég var mjög ánægður með stuðninginn hérna. Það var góð mæting á völlinn og mikill stuðningur utan vallar líka sem stelpurnar þáðu með þökkum og skiluðu þremur stigum í hús."
Nánar er rætt við Jón Þór í sjónvarpinu að ofan.