Man City hefur áhuga á Pogba - Barist um Kudus - Amorim ætlar að styrkja hóp Man Utd
   lau 27. ágúst 2011 19:07
Fótbolti.net
Umfjöllun: Spenna framundan eftir 3-2 sigur Keflavíkur
Björg Ásta Þórðardóttir skrifar frá Keflavík
Keflavík sigraði Selfoss 3-2 í fyrri úrslitaviðureign liðanna
Keflavík sigraði Selfoss 3-2 í fyrri úrslitaviðureign liðanna
Mynd: Aðsend
Keflavík og Selfoss áttust við á Nettóvellinum í Keflavík, í fyrri leik liðanna í úrlistakeppni 1.deildar kvenna. Aðstæður voru nokkuð góðar þar sem sólin skein og vindurinn lét lítið á sér kræla.

Keflavík 3-2 Selfoss:
0-1 Guðmunda Óladóttir ('1)
1-1 Nína Ósk Kristinsdóttir ('12)
2-1 Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir ('20)
2-2 Katrín Ýr Friðgeirsdóttir ('24)
3-2 Agnes Helgadóttir('73)

Selfoss byrjaði leikinn betur og komust yfir strax á fyrstu mínútu þegar Guðmunda Brynja Óladóttir fær boltann inn fyrir vörn Keflavíkur og afgreiðir boltann vel yfir Örnu Lind Kristinsdóttur í markinu. Mjög vel gert hjá Selfossstúlkum sem komu greinilega mjög tilbúnar í leikinn.

Eftir markið var nokkuð jafnræði með liðunum og sótt var á báða bóga. Á 12. mínútu leiksins kemur svo annað mark leiksins þegar Nína Ósk Kristinsdóttir fær sendingu inn fyrir vörn Selfossstúlkna og rennir boltanum í fjær hornið. Staðan orðin 1-1 og allt virtist geta gerst í leiknum þar sem varnarleikur beggja liða var nokkuð opinn.

Eftir góð marktækifæri þá komast Keflavíkurstúlkur yfir á 20. mínútu þegar Arndís Ingvarsdóttir kemst inn fyrir vörn Selfossstúlkna og klárar færið sitt með skoti. Gleðin varði þó stutt því Katrín Ýr Friðgeirsdóttir jafnaði metin, fjórum mínútum seinna, með glæsilegu skoti yfir markmann Keflavíkur og staðan aftur jöfn, 2 – 2.

Það sem eftir lifði hálfleiksins var mikið barist og fengu bæði lið tækifæri til að setja fleiri mörk en allt kom fyrir ekki og voru hálfleikstölur 2 -2.

Í síðari hálfleik dró ekki eins mikið til tíðinda, eins og í þeim fyrri, en hart var barist og var nokkuð jafnræði með liðunum, sem skiptust á að sækja. Á 73. mínútu dregur síðan til tíðinda þegar Agnes Helgadóttir kemst ein inn fyrir vörn Selfyssinga en bjargað var í horn. Agnes tekur hornið og skorar beint úr horninu og kemur Keflavík yfir, staðan 3-2.

Eftir markið þá setja Selfyssingar mikla pressu á Keflavík en allt kom fyrir ekki. Keflavík fór með sigur af hólmi í fyrsta leik liðanna en miðað við frammistöðu beggja liða í þessum leik þá getur allt gerst á komandi þriðjudag þegar liðin mætast aftur á Selfossvelli.
banner
banner