Óskar Pétursson markvörður Grindvíkinga var nokkuð sáttur með stigið sem liðið fékk í Vesturbænum í dag, en leikur þeirra gegn KR í Pepsi deildinni endaði með 1-1 jafntefli.
Lestu um leikinn: KR 1 - 1 Grindavík
„Þó að við þurfum á þremur stigum að halda er gott að koma og fá jafntefli á móti efsta liðinu miðað við stöðuna sem við erum í í dag,“ sagði Óskar við Fótbolta.net eftir leikinn.
„Við höfum allir verið að koma til og við fengum einmitt lýsi í hálfleik sem ég held að hafi gert gæfumuninn.“
KR-ingar komust yfir snemma í seinni hálfleik en Óli Baldur Bjarnason jafnaði síðan metin með stórglæsilegu marki þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum.
„Maður missti hálfpartinn hökuna í gólfið þegar maður sá þetta. Hann er gjarn á að taka upp á alls kyns atriðum og þetta var eitt af því. Hann mun sýna meira það sem eftir er.“
Viðtalið við Óskar má sjá í heild sinni í myndbandinu hér að ofan.