Heimild: Sky
Pepe Reina markvörður Liverpool segir að félagið hafi komið í veg fyrir að hann hafi gengið til liðs við Arsenal fyrir 20 milljónir punda sumarið 2010.
Reina viðurkennir að honum hafi þótt freistandi að yfirgefa Liverpool eftir að hann sneri til baka frá Suður-Afríku sem heimsmeistari og varð vitni að félaginu í niðursveiflu.
Knattspyrnustjórinn Rafa Benítez hafði verið rekinn og íþróttastjórinn Christian Purslow var á fullu að reyna að finna nýja eigendur til að taka við af þeim Tom Hicks og George Gillett.
Reina vildi fara til Arsenal en segir að Liverpool hafi neitað 20 milljóna punda tilboði og komið í veg fyrir að hann færi neitt.
,,Ég fór frá því að vera himinlifandi eina mínútuna í að vera þunglyndur þá næstu þegar ég sá að Liverpool væri á hraðri leið í súginn," sagði Reina í nýrri sjálfsævisögu sinni.
,,Þegar ég skrifaði undir samninginn minn í apríl 2010 hélt ég að það væru betri tímar handan við hornið. Sú tilfinning fékk byr undir báða vængi þökk sé loforðum frá mönnum hjá félaginu."
,,Það tók mig ekki langan tíma að sjá að loforð þeirra voru innihaldslaus, og mér fannst ég vera svikinn. Eigendurnir voru í stríði við hvorn annan, skuldir félagsins voru á leið út um allar þúfur og þjálfaraskiptin höfðu ekki tilætluð áhrif."
,,Arsenal hafði sýnt að þeir vildu fá mig með því að bjóða 20 milljónir punda, sem er fáránleg upphæð fyrir markvörð. Hluti af mér taldi að ég ætti vel skilið að íhuga framtíð mína, þó svo að það væri ekki auðvelt."
,,Þegar Liverpool fékk tilboðið höfnuðu þeir því. Það var ekki vegna þess að ég væri of góður til að fara. Ástæðan sem ég fékk var allt önnur, og hún gerði mig leiðan. Mér var sagt að ég þyrfti nauðsynlega að vera áfram ef það ætti að vera hægt að selja félagið. Ég var ekkert nema samningatæki í söluferlinu."
,,Ég veit ekki enn hvað mér finnst um Purslow því að ég skil að hann vildi finna nýja eigendur og reyna að selja félagið, en þegar uppi var staðið var hann að taka stórar ákvarðanir sem hann var ekki hæfur til að taka."