Framherjinn Michael Owen hefur löngum verið óheppinn með meiðsli á ferlinum og það sannaðist í kvöld. Manchester United er nú að spila við Otelul Galati frá Rúmeníu í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu og var Owen í byrjunarliðinu.
Það voru hins vegar ekki liðnar nema tíu mínútur af leiknum þegar Owen þurfti að fara af velli, og virtist það vera vegna meiðsla aftan í læri. Inn í hans stað kom Mexíkóinn Javier Hernandez.
Owen hefur einungis komið við sögu í einum leik það sem af er ensku úrvalsdeildinni, þegar United mætti Stoke þann 24. september. Þá hefur hann verið í byrjunarliðinu í bikarleikjunum gegn Leeds og Aldershot, en þar við situr.
Hann hefur alltaf verið ónotaður varamaður í Meistaradeildinni, en nú þegar hann loks fékk tækifærið þurfti hann að sætta sig við einungis tíu mínútur.