Kristinn Steindórsson, leikmaður Breiðabliks og U21 árs landsliðsins, mun dvelja hjá danska félaginu FC Nordsjælland næstu daga þar sem hann mun skoða aðstæður.
Nordsjælland er sem stendur í öðru sæti í dönsku úrvalsdeildinn á eftir FC Kaupmannahöfn.
Samningur Kristins hjá Breiðabliki rann út í síðasta mánuði og hann hefur hug á að reyna fyrir sér erlendis. Hann getur þó ekki farið frítt en erlend félög þurfa að greiða Breiðabliki uppeldisbætur ef þau vilja semja við hann.
Kristinn hefur verið í lykilhlutverki í sóknarleik Breiðabliks undanfarin ár en í sumar skoraði hann ellefu mörk í Pepsi-deildinni.
Samtals hefur Kristinn skorað 35 mörk í 94 deildar og bikarleikjum með Breiðabliki frá því árið 2007.