Óvíst með Harald Frey og Adam Larsson
Andri Fannar Freysson, Grétar Atli Grétarsson og Jóhann Ragnar Benediktsson hafa æft með Keflvíkingum að undanförnu en þetta staðfesti Zoran Daníel Ljubicic þjálfari liðsins í samtali við Fótbolta.net í dag.
Andri Fannar, sem er 19 ára leikmaður hjá Njarðvík, var valinn efnilegasti leikmaðurinn í annarri deild á síðasta tímabili.
Jóhann Ragnar hefur verið í lykilhlutverki hjá Fjarðabyggð undanfarin ár en hann lék með Keflavík frá 1999-2002. Grétar Atli er uppalinn Stjörnumaður en hann hefur verið í láni hjá Haukum síðustu tvö tímabil.
,,Við ætlum að gefa okkur tíma og skoða þessa leikmenn. Við erum með marga unga leikmenn en við þurfum kannski smá meiri reynslu. Við erum með reynda menn í liðinu en við erum með 18-19 ára stráka og svo leikmenn yfir þrítugt. Það er ekkert þarna á milli hjá okkur," sagði Zoran Daníel við Fótbolta.net.
Keflvíkingar hafa verið að endursemja við sína leikmenn undanfarið en óljóst er hvað bakvörðurinn Guðjón Árni Antoníusson mun gera.
,,Það er undir honum komið. Hann fékk samningstilboð frá Keflavík og þarf að ákveða sig. Ég vona að hann verði áfram en maður veit aldrei í þessum bransa."
Haraldur Freyr Guðmundsson fór frá Keflavík til Start í Noregi í ágúst en óljóst er hvað hann gerir á næsta tímabili.
,,Hann er úti í Noregi og ætlar að skoða sín mál. Ef hann kemur heim til Íslands þá verður hann hjá okkur," sagði Zoran.
Þá er einnig óljóst hvað sænski varnarmaðurinn Adam Larsson gerir. Í sumar átti hann fast sæti í liði Keflvíkinga en hann var þá á láni frá Mjällby.
,,Hann fór heim og ætlar að skoða sín mál. Hann er samningslaus úti og hann gæti komið aftur en við vitum vonandi meira um það í janúar," sagði Zoran.