Sú saga hefur gengið um netheima að enska götublaðið The Sun hafi verið með frétt í vinnslu um einkalíf Gary Speed. Samkvæmt sögunni á blaðamaður The Sun að hafa hringt í Speed á laugardeginum og tilkynnt honum að fréttin yrði birt.
Eins og flestir vita framdi Speed sjálfsmorð aðfaranótt sunnudags.
The Sun hefur algjörlega neitað þessum orðrómi og segir í gegnum Twitter að ekkert sannleikskorn sé í honum. Starfsmenn blaðsins hafi ekki á nokkurn hátt verið að skoða mál tengd Gary Speed þegar þessi hroðalegi atburður átti sér stað.
Margir hafa gagnrýnt hnýsni The Sun eftir að Speed tók eigið líf en í blaðinu í morgun er til að mynda viðtal við umboðsmann hans þar sem hann er spurður út í hjónaband Speed.