Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 29. nóvember 2011 22:57
Alexander Freyr Tamimi
Aron Einar: Draumurinn að fara á Old Trafford
Aron Einar í baráttunni í kvöld.
Aron Einar í baráttunni í kvöld.
Mynd:
,,Kenny Miller þurfti nú alveg að taka nokkrar snertingar áður en hann skoraði, þannig að hann fékk þetta ekki alveg gefins.“
,,Kenny Miller þurfti nú alveg að taka nokkrar snertingar áður en hann skoraði, þannig að hann fékk þetta ekki alveg gefins.“
Mynd:
Aron Einar Gunnarsson var að vonum hæstánægður eftir að Cardiff tryggði sér sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins með 2-0 sigri gegn Blackburn í kvöld. Aron Einar spilaði allan leikinn og lagði upp fyrra mark liðsins.

„Úrvalsdeildarlið er alltaf úrvalsdeildarlið og þeir eru með leikmenn sem eru í hæsta gæðaflokki. Þeir mættu með sterkt lið í þennan leik,“ sagði Aron Einar við Fótbolta.net.

„Við byrjuðum svolítið hægt, fyrstu tíu mínúturnar vorum við slappir en svo bættum við í og vorum eiginlega komnir með þetta eftir 20 mínútur. Þá vorum við betri aðilinn í leiknum og héldum þannig spilamennsku út allan leikinn. Við áttum sigurinn alveg skilið.“

Þó að Aron Einar hafi átt stoðsendinguna á Kenny Miller í fyrra markinu fæst hann ekki til að viðurkenna að hann hafi verið arkitektinn að markinu. Segir hann að Miller hafi enn þurft að hafa smá fyrir því að skora eftir að hann fékk sendinguna.

„Morten Gamst missti boltann á miðjunni og ég sendi hann inn fyrir á Kenny (Miller). Hann þurfti nú alveg að taka nokkrar snertingar áður en hann skoraði, þannig að hann fékk þetta ekki alveg gefins,“ sagði Aron Einar.

Íslenski landsliðsmaðurinn viðurkennir að það væri frábært að komast á Wembley í úrslitaleikinn en hann gerir sér þó grein fyrir því að það sé erfitt verkefni framundan. Manchester City og Liverpool eru komin í undanúrslitin og þá má gera ráð fyrir því að Manchester United vinni Crystal Palace á morgun.

„Það eru þrjú úrvalsdeildarlið í pottinum og það verður ekki auðvelt að spila við þau heima og úti. Við komum bara inn í leikina með engu að tapa, við viljum náttúrulega vinna alla leiki. En þetta eru þrjú feiknarsterk lið sem eru með okkur í pottinum og það verður erfitt að komast á Wembley. Við gerum samt allt til að reyna,“ sagði Aron Einar.

Hann segir að draumamótherjinn í undanúrslitunum yrði Manchester United, en hann er stuðningsmaður rauðu djöflanna.

„Það yrði nú gaman að spila á móti Manchester United. Ég er náttúrulega aðdáandi þeirra og það er eiginlega draumurinn að fá að koma á Old Trafford. Þó að það sé ekki óskamótherjinn til að komast áfram í keppninni er alltaf gaman að upplifa það að fara á Old Trafford með Championship klúbbi,“ sagði Aron Einar Gunnarsson að lokum við Fótbolta.net.
banner
banner
banner