Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 11. desember 2011 18:06
Elvar Geir Magnússon
England: Ömurleg dómgæsla þegar Stoke vann Tottenham
Younes Kaboul fær rauða spjaldið frá Chris Foy.
Younes Kaboul fær rauða spjaldið frá Chris Foy.
Mynd: Getty Images
Stoke 2 - 1 Tottenham
1-0 Matthew Etherington ('13)
2-0 Matthew Etherington ('43)
2-1 Emmanuel Adebayor ('62, víti)
Rautt spjald: Yones Kaboul (Tottenham '82)

Enskir fótboltadómarar halda áfram að stela senunni en Chris Foy er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Tottenham eftir hörmulega frammistöðu hans og aðstoðarmanna í leik Stoke og Tottenham í dag.

Lið Tottenham var alls ekki líkt sjálfu sér í fyrri hálfleiknum. Stoke byrjaði leikinn miklu mun betur og skoraði Matthew Etherington fyrsta mark leiksins á 13. mínútu. Þegar Tottenham virtist vera að vakna skoraði Stoke aftur og aftur var það Etherington.

Bæði mörk Stoke komu eftir löng innköst frá Ryan Shotton.

Á 62. mínútu náði Tottenham að minnka muninn úr vítaspyrnu. Glenn Whelan var dæmdur brotlegur og gat ekkert kvartað, hann felldi Luka Modric og réttilega dæmt. Emmanuel Adebayor fór á punktinn, sendi Sörensen í rangt horn og skoraði.

Tottenham hefði vel getað fengið þrjú víti til viðbótar í leiknum en Foy dómari var ekki með á nótunum.

Eftir að hafa minnkað muninn stigu gestirnir vel á bensíngjöfina og jöfnunarmarkið lá í loftinu. Ryan Shawcross bjargaði á línu með hendi en ekkert var dæmt. Strax á eftir skoraði Adebayor en var ranglega dæmdur rangstæður.

Þetta var greinilega ekki dagur Tottenham því Yones Kaboul fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á lokakaflanum. Gestirnir luku því leik tíu og voru það heimamenn í Stoke sem fögnuðu góðum sigri sem lyftir þeim upp í áttunda sæti. Tottenham er enn í þriðja sæti, sjö stigum á eftir Manchester City sem trónir á toppnum.
banner
banner