banner
   þri 03. janúar 2012 18:34
Elvar Geir Magnússon
Liverpool mun ekki áfrýja átta leikja banni Suarez
Hann verður í banni gegn Manchester City í kvöld
Mynd: Getty Images
Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að Liverpool muni ekki áfrýja átta leikja banninu sem úrúgvæski sóknarmaðurinn Luis Suarez var dæmdur í fyrir kynþáttaníð í garð Patrice Evra.

Suarez mun þegar byrja að afplána leikbannið og verður því ekki með Liverpool gegn Manchester City í kvöld. Hann ætti að snúa aftur fyrir leik gegn Tottenham þann 6. febrúar næstkomandi.

Í tilkynningu frá Liverpool segir að kominn sé tími á að ljúka þessu máli, horfa fram á veginn og vinna saman að því að útrýma kynþáttafordómum af öllu tagi, bæði innan og utan vallar.

„Dómstóll enska knattspyrnusambandsins hefur skaðað orðspor eins besta leikmanns deildarinnar," segir meðal annars í tilkynningunni.

Félagið segist hafa staðið við bakið á Suarez í málinu þar sem það hafi trúað því, og trúi því enn að hann hafi ekki verið með kynþáttaníð. Hann sé aðeins dæmdur af ásökunum en ekki eftir sönnunum.

„Að halda áfram að berjast fyrir sanngjarnri niðurstöðu málsins myndi aðeins hylja þá staðreynd að félagið styður af heilum hug baráttu knattspyrnusambandsins, deildarkeppninnar og úrvalsdeildarinnar að útrýma öllum rasisma í enskum fótbolta."

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild.
banner
banner