Chelsea býst við að landa Guehi - Risaverðmiði á Isak - Mikill áhugi á Mateta
banner
   lau 19. maí 2012 08:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir 1.deild kvenna: B-riðill
HK/Víkingi er spáð efsta sæti B-riðils
HK/Víkingi er spáð efsta sæti B-riðils
Mynd: Óðinn Þórarinsson
Spámenn okkar telja að Keflvíkingar blandi sér í toppbaráttuna
Spámenn okkar telja að Keflvíkingar blandi sér í toppbaráttuna
Mynd: Aðsend
María Rós Arngrímsdóttir (lengst til hægri) verður í láni hjá uppeldisfélaginu Fram
María Rós Arngrímsdóttir (lengst til hægri) verður í láni hjá uppeldisfélaginu Fram
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Harpa Ásgeirsdóttir verður í eldlínunni hjá Völsungi í sumar
Harpa Ásgeirsdóttir verður í eldlínunni hjá Völsungi í sumar
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Lið Grindavíkur er óskrifað blað
Lið Grindavíkur er óskrifað blað
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Álftnesingar stefna á að gera betur en í fyrra
Álftnesingar stefna á að gera betur en í fyrra
Mynd: Aðsend
Tindastól er spáð botnbaráttu
Tindastól er spáð botnbaráttu
Mynd: Björn Ingvarsson
BÍ/Bolungarvík tekur þátt í 1. deildinni í fyrsta skipti í 5 ár
BÍ/Bolungarvík tekur þátt í 1. deildinni í fyrsta skipti í 5 ár
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Keppni í 1. deild kvenna hófst í gær með leik ÍR og Hauka í A-riðli. Í dag verður svo flautað til leiks í B-riðli þegar Grindavík tekur á móti BÍ/Bolungarvík kl.13:00. Kl. 15:00 mætast svo Fram og Völsungur á Úlfarsárdalsvelli.

Við á Fótbolta.net fengum nokkra boltaspekinga til að spá fyrir um 1.deildina í sumar. Eins og undanfarin ár er deildinni skipt upp í tvo riðla og tvö efstu lið úr hvorum riðli taka þátt í úrslitakeppni um tvö laus sæti í úrvalsdeild í haust. Við birtum spá okkar fyrir A-riðilinn í gær og í dag er komið að því að skoða spánna fyrir B-riðilinn.

Sérfræðingar Fótbolta.net eru sex talsins og þau röðuðu liðunum upp eftir því sem þau telja líklega lokastöðu eftir riðlakeppnirnar. Liðið í efsta sæti fær 8 stig, annað sætið 7 stig og svo koll af kolli niður í áttunda sæti sem gefur eitt stig.

Sérfræðingarnir: Ásgrímur Helgi Einarsson, Bryndís Jóhannesdóttir, Daði Rafnsson, Hafliði Breiðfjörð, Helena Ólafsdóttir, Sigurður Ragnar Eyjólfsson.

Spáin:
1. HK/Víkingur 41
2.-3. Keflavík 40
2.-3. Fram 40
4. Völsungur 33
5. Grindavík 21
6. Álftanes 20
7. Tindastóll 13
8. BÍ/Bolungarvík 9

1. HK/Víkingur
Sérfræðingar okkar telja allt stefna í hörku toppbaráttu í B-riðlinum og spá því að HK/Víkingar tryggi sér efsta sætið með naumindum ef marka má stigafjölda. Lið HK/Víkings hefur ákveðna reynslu fram yfir hin liðin í riðlinum. Sú reynsla liggur ekki síst hjá Sigurði Víðissyni, þjálfara liðsins. HK/Víkingur getur á góðum degi unnið öll lið í deildinni en einnig dottið niður í meðalmennsku. Liðið fékk gríðarlegan liðsstyrk nú rétt fyrir lok félagaskiptagluggans þegar þær Berglind Bjarnadóttir, Lára Hafliðadóttir og Þórhildur Stefánsdóttir skiptu aftur yfir í uppeldisfélagið sitt eftir að hafa spreytt sig í Pepsi-deildinni undanfarin ár.

Þjálfari: Sigurður Víðisson.

Lykilleikmaður: Elma Lára Auðunsdóttir hefur verið viðloðandi U-17 ára landsliðið er klárlega leikmaður sem getur skipt sköpum fyrir liðið í sumar.


2. -3. Fram
Lið Fram er að hasla sér völl í 1.deildinni en félagið sendir meistaraflokk kvenna til keppni þriðja árið í röð. Liðið er byggt upp af ungum uppöldum stelpum og utanaðkomandi reynsluboltum. Það gæti verið árangursrík blanda og sumarið 2012 gæti verið sumarið þar sem Framarar taka næsta skref. Liðið fékk góðan liðsstyrk rétt fyrir mót en fjórir firnasterkir leikmenn Breiðabliks gerðu lánssamninga við Fram. Það munar um minna og Fram-stúlkur eru til alls líklegar í sumar.

Þjálfari: Haukur Hilmarsson.

Lykilleikmaður: María Rós Arngrímsdóttir. María er uppalin hjá Fram en hefur verið á mála hjá Val og Breiðablik undanfarin ár. Hún hefur nú gengið til liðs við Fram á láni og gæti orðið liðinu afar mikilvæg.


2.-3. Keflavík
Stelpurnar suður með sjó eru að byrja nýtt uppbyggingartímabil en undanfarin ár hafa erlendir leikmenn verið fengnir til liðsins til að bera það uppi. Þetta árið á að stóla á heimastúlkur og það verður gaman að sjá hvernig þær koma til með að bregðast við. Í liðinu eru margar efnilegar stelpur í bland við eldri leikmenn sem hafa reynslu af toppbaráttunni í 1. deild. Keflavík getur vel gert tilkall til tveggja efstu sætanna en til þess þarf þó allt að ganga upp og mikilvægur þáttur í því er að markahrókurinn Nína Ósk Kristinsdóttir taki fullan þátt í verkefninu.

Þjálfari: Snorri Már Jónsson

Lykilleikmaður: Nína Ósk Kristinsdóttir hefur verið helsti markaskorari liðsins undanfarin ár. Með Nínu Ósk í formi og reynslu hennar úr A-landsliði og efstu deild getur Keflavík náð langt.


4. Völsungur
Húsavíkurliðið hefur verið í framför undanfarin ár og það er ekki ástæða til annars en að liðið haldi áfram að bæta sig í sumar. Völsungsliðið er borið uppi af heimastelpum og það virðist vera góður andi í liðinu. Leikmenn ná alltaf að þjappa sér saman og fara ansi langt á liðsheildinni. Liðið hefur þó misst einn besta leikmann og helsta markaskorara Völsungs undanfarin ár, en Hafrún Olgeirsdóttir fór í Þór/KA. Það verður vandmeðfarið að fylla skarðið sem hún skilur eftir sig en öflug liðsheildin ætti að geta það með góðri samstöðu.

Þjálfari: Jóhann Rúnar Pálsson

Lykilleikmaður: Harpa Ásgeirsdóttir. Harpa er snúin aftur á heimaslóðir eftir að hafa reynt fyrir sér í efstu deild með KR og Aftureldingu. Hún er skemmtilegur karakter og mikilvægur hlekkur í sterkri liðsheild Völsungs.


5. Grindavík
Grindavík fór niður úr efstu deild í fyrra og missti marga af burðarstólpum liðsins. Goran Lukic er nýr þjálfari liðsins en þar sem liðið tók ekki þátt í Lengjubikarnum er erfitt að meta ástandið á liðinu. Leikmannahópur Grindavíkur er þunnskipaður en tveir erlendir leikmenn bættust í hópinn fyrir skömmu og styrkja þær liðið. Sarah Wilson er öflugur leikmaður sem spilaði með liðinu í Pepsi-deildinni í fyrra en auk hennar er Rebekka Salicki komin til liðsins.

Þjálfari: Goran Lukic.

Lykilleikmaður: Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir er uppalin Grindjáni sem vert er að gefa gaum. Í vor fréttist af áhuga úrvalsdeildarliða en hún ákveð að vera trú sínu félagi og hjálpa liðinu til afreka.


6. Álftanes
Nú gæti verið tækifæri fyrir Álftanes að taka skref upp á við eftir tvö mögur ár. Sveinn Guðmundsson er nýr þjálfari liðsins og gaman verður að sjá hvernig honum tekst til með liðið. Álftnesingar hafa verið duglegir við að fá til sín eldri leikmenn sem áður hafa hætt en eru að taka skónna niður af hillunni frægu. Ef þessir leikmenn komast í form þá má búast við ýmsum töktum á Álftanesinu í sumar.

Þjálfari: Sveinn Guðmundsson.

Lykilleikmaður: Júlíana Sigurgeirsdóttir er uppalinn leikmaður sem getur leikið nær allar stöður á vellinum. Júlíana er hörð í horn að taka og mikilvæg liðinu þótt ung sé.


7. Tindastóll
Tindastóll hefur átt í erfiðleikum í deildinni undanfarin ár og sennilega verður engin breyting þar á í ár. Liðið er skipað heimastúlkum en skortir meiri breidd til að geta tekið næsta skref í deildinni. Liðinu gekk ekki vel á undirbúningstímabilinu en hefur þó alla burði til að gera betur í deildinni en í fyrra þegar Tindastóll endaði í neðsta sæti B-riðils með aðeins 5 stig.

Þjálfari: Pétur Björnsson.

Lykilleikmaður: Sunna Björk Atladóttir er fyrirliði liðsins og varnarmaður sem fáir fara framhjá. Mætti segja að hún sé límið í liðinu.


8. BÍ/Bolungarvík
BÍ/Bolungarvík sendir sameiginlegt lið til keppni í sumar en liðið lék síðast í 1.deildinni sumarið 2007. Þetta verður erfitt sumar fyrir ungt og óreynt lið BÍ/Bolungarvíkur en vonandi verður þetta jákvæð reynsla fyrir ungu leikmennina sem koma til með að bera liðið uppi á komandi árum. Liðið fékk tvo erlenda leikmenn til að styrkja liðið en það eru þær Marilia de Melo og Talita B. Pereira.

Þjálfari: Jónas Leifur Sigursteinsson.

Lykilleikmaður: Anna Marzellíusardóttir er burðarásinn í liði nýliðanna og fyrirliði liðsins. Hún drífur liðið áfram og gefur þeim sem spila með henni auka kraft.
Athugasemdir
banner
banner