Eiríkur Stefán Ásgeirsson blaðamaður á Fréttablaðinu á Laugardalsvelli á laugardag. Eins og sjá má er borð hans blautt eftir rigningu.
Íþróttafréttamenn voru mjög óánægðir með þá aðstöðu sem Knattspyrnusamband Íslands bauð þeim upp á á Laugardalsvelli á meðan leik Íslands og Spánar í undankeppni EM 2008 stóð á laugardag. Nokkrir þeirra hafa lýst yfir óánægju sinni á bloggsíðum sínum.
Eftir að framkvæmdum lauk við breytingar á Laugardalsvelli hafa fréttamenn fengið fína aðstöðu efst í stúkunni, fyrir ofan svokallað VIP rými. Á leiknum gegn Spáni var staðan hinsvegar breytt því íslenskir fréttamenn blaða og netmiðla þurftu að hýrast utandyra með fartölvur sínar og skriffæri sem blotnuðu í rigningunni.
,,Þrátt fyrir stórkostlegar breytingar á stúkunni eru vinnuaðstæður blaðamanna á vellinum verri en þær voru. Nei fyrirgefið, þær eru MIKLU verri en þær voru og það er hreinlega til skammar fyrir Knattspyrnusambandið að bjóða upp á þennan viðbjóð," má lesa á bloggsíðu Henry Birgis Gunnarssonar blaðamanns á Fréttablaðinu.
Sigurður Elvar Þórólfsson blaðamaður á Morgunblaðinu hefur einnig bloggað um aðstöðuna og tengt sömu greinina við nokkrar fréttir á vefsíðunni mbl.is.
,,Í dag er aðstaða blaðamanna verri en fyrir hálfri öld..... Kollegar mínir í starfsstétt íþróttafréttamanna eru foxillir og það kraumar í flestum," segir Sigurður Elvar meðal annars í bloggfærslu sinni.
Kristján Jónsson samstarfsmaður hans á Morgunblaðinu tjáir sig einnig um málið í bloggfærslu þar sem hann segir meðal annars: ,,Auk þess má augljóslega benda KSÍ mönnum á að við búum ekki á sólarströnd hafi það farið fram hjá þeim."
Tómas Þór Þórðarson á Fótbolta.net bloggaði líka um málið og í færslu hans segir meðal annars: ,,Magnað líka að íslenskir fjölmiðlar sem mæta á alla leiki í Landsbankadeildinni og sýna landsliðinu þá virðingu að fjalla á öflugan hátt um alla landsleiki m.a. Liechteinstein séu látnir vera í 2. sæti."
Sjá einnig:
Bloggsíða Henry Birgis
Bloggsíða Sigurðar Elvars
Bloggsíða Kristjáns Jónssonar
Bloggsíða Tómasar Þórs
Athugasemdir