Kaiserslautern í Þýskalandi bætist í hóp áhugasamra liða
Ragnar Sigurðsson, leikmaður IFK Gautaborgar og íslenska landsliðsins, er undir smásjá fjölmargra liða á meginlandi Evrópu en hann hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum í sænsku úrvalsdeildinni á þessu ári og stimplað sig rækilega inní vörn íslenska landsliðsins í síðustu leikjum þess.
Eins og Fótbolti.net greindi frá fyrir nokkrum vikum var franska úrvalsdeildarliðið Sochaux á höttunum eftir Ragnari undir lok félagaskiptagluggans í síðasta mánuði en hann var einn nokkurra varnarmanna sem félagið var með til skoðunnar.
Franskir fjölmiðlar greindu síðan frá því fyrir stuttu að forráðamenn félagsins hafi verið nálægt því að gera tilboð í landsliðsmanninn en á endanum hafi félagið fengið varnarmanninn Damien Perquis frá Saint Etienne á lánssamningi út tímabilið, viku áður en félagaskiptaglugginn lokaðist.
Heimildir Fótbolta. net herma að Sochaux hafi í hyggju að fylgjast grannt með framgöngu Ragnars á komandi misserum.
Ennfremur greindu þýskir fjölmiðlar frá því í síðustu viku að hið fornfræga þýska félag Kaiserslautern, sem er sem stendur í 14. sæti í næst efstu deildinni í Þýskalandi, hafi augastað á Ragnari en þjálfari liðsins er norðmaðurinn Kjetil Rekdal.
Belgíska félagið Club Brugge og nokkur hollensk úrvalsdeildarlið eru einnig með Ragnar undir smásjánni en gera má ráð fyrir því að njósnarar frá þessum félögum verði á Laugardalsvellinum í kvöld þegar Ísland tekur á móti Norður Írlandi í undankeppni EM.
Athugasemdir