Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea er hættur hjá félaginu en þetta kom fram á fréttavef BBC nú seint í kvöld. Ekkert hefur komið formlega frá félaginu ennþá en BBC vísar í Jonathan Legard þul á BBC Radio 5live. Á vef Eurosport kemur fram að ekki sé enn ljóst hvort Mourinho hafi hætt sjálfur eða verið rekinn.
Á vefsíðu Daily Mail kemur fram að Mourinho hafi sent fimm af eldri leikmönnum sínum textaskilaboð klukkan 18:00 að enskum tíma í kvöld þar sem hann tilkynnti að hann væri að yfirgefa félagið. BBC segir að John Terry hafi verið einn þeirra leikmanna sem fékk þessi skilaboð.
Á fréttavef Times segir að Mourinho hafi hringt í Frank Lampard og tilkynnt honum fréttirnar áður en hann sendi textaskilaboðin á hina leikmennina fimm. Hann mun hafa sagt þeim að hann hafi fengið nóg og væri hættur hjá félaginu.
Fréttavefur Sky sagði að SMS skilaboð Mourinho hafi farið til John Terry, Frank Lampard og Didier Drogba og þar hafi hann óskað þeim alls hins besta á ferlinum en hann væri að fara frá félaginu í fyrramálið.
Times segir einnig að Mourinho fullyrði að hann hafi verið rekinn frá félaginu en Chelsea líti svo á sem hann hafi sjálfur sagt upp. Hvort sem er rétt þá mun þetta hafa komið Chelsea mönnum mjög á óvart og skyndilega var til boðað til fundar sem á voru þeir Peter Kenyon framkvæmdastjóri, Bruce Buck formaður og Eugene Tenenbaum helsti aðstoðarmaður Roman Abramovich.
Mourinho mun hafa komið æðstu mönnum hjá Chelsea á óvart í gær eftir frumsýningu á heimildarmyndinni Blue Revolution um liðið er hann óskaði eftir viðræðum um framtíð sína. Viðræðurnar gengu fram eftir kvöldi en leikmennirnir telja að 1-1 jafntefli liðsins gegn Rosenborg í gærkvöld hafi verið hans síðasta kvöld við störf hjá félaginu.
Meiri hluti starfsmanna Chelsea mun hafa verið í bíóhúsinu á Fulham Broadway að horfa á heimildarmyndina en voru kallaðir í höfuðsstöðvar félagsins til að vinna í málinu. ABramovich mun hafa hætt við viðskiptaferð fyrr í dag til að eiga viðræður við Tenenbaum þó upphaflega verið talið að sá fundur hafi verið um slaka mætingu á Meistaradeildarleik Chelsea í gær. Annað kom hinsvegar á daginn nú um miðnætti.
Um miðnætti mun allur leikmannahópur liðsins hafa vita að Mourinho væri hættur hjá félaginu en hann mun hafa sagt leikmönnum sínum að hann muni koma til æfingar á morgun en það verði aðeins til að kveðja eftir rétt rúmlega þrjú ár hjá félaginu.
Mourinho og Abramovich eru taldir hafa rifist harkalega eftir markalaust jafntefli Chelsea gegn Blackburn Rovers um helgina
Mourinho sem er 44 ára gamall tók við Chelsea sumarið 2004 eftir að hafa stýrt Porto til sigurs í Meistaradeildinni. Hjá Chelsea sigraði hann ensku úrvalsdeildina 2004/2005 og 2005/2006, enska deildabikarinn 2004/2005 og 2006/2007 og enska bikarinn síðastliðið vor.
Chelsea mætir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag og því koma þessar fréttir á óvart, svo skömmu fyrir þennan stórleik. Steve Clarke aðstoðarmaður Mourinho eða Avram Grant yfirmaður fótboltamála hjá Chelsea mun væntanlega fá það verk að stýra liðinu á Old Trafford.
Juande Ramos knattspyrnustjóri Sevilla á Spáni sem í kvöld stýrði liðinu í 3-0 tapi gegn Arsenal er nú orðaður við starfið. Ramos hafnaði Tottenham í síaðsta mánuði og þá komu fréttir um að hann væri að bíða eftir stærra tilboði.
Heimildir:
Times
BBC
Daily Mail
Eurosport
Sky
Athugasemdir