Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 25. september 2007 00:39
Hafliði Breiðfjörð
Elísabet og Freyr Alexandersson þjálfa Valsstúlkur saman
Freyr hættir með Leikni
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson á hliðarlínunni hjá Val.
Freyr Alexandersson á hliðarlínunni hjá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elísabet Gunnarsdóttir og Freyr Alexandersson munu þjálfa Valsstúlkur saman á næstu tvö árin en í fréttatilkynningu frá Val nú á miðnætti var þetta staðfest. Elísabet hefur þjálfað liðið undanfarin ár og Freyr hefur verið henni til aðstoðar. Þau munu nú þjálfa liðið saman.

Auk þess að hafa verið aðstoðarþjálfari hjá Val hefur Freyr einnig þjálfað 4. flokk kvenna hjá félaginu og náð góðum árangri með það lið. Hann hefur einnig aðstoðað hjá yngri landsliðum Íslands kvenna megin.

Freyr hefur einnig verið leikmaður hjá 1. deildarliði Leiknis úr Breiðholti undanfarin ár þar sem hann hefur borið fyrirliðabandið.

Hann hefur leikið níu leiki, með Leikni í 1. deildinni í sumar, nú þegar ein umferð er eftir, en missti eitthvað úr vegna meiðsla.

Undanfarin ár hefur hann jafnan leikið alla leiki liðsins. Hann mun nú með þessari ráðningu leggja skóna sem leikmaður á hilluna, og einbeita sér að þjálfuninni.

Elísabet Gunnarsdóttir hefur náð góðum árangri með Valsstúlkur undanfarin ár og gerði liðið að Íslandsmeisturum í ár, annað árið í röð. Á síðustu leiktíð varð Valur einnig VISA-bikarmeistari. Hún tók við liðinu árið 2003.

Valur mun tefla fram breyttu liði á næstu leiktíð en þegar er ljóst að Nína Ósk Kristinsdóttir er hætt knattspyrnuiðkun og þá eru allar líkur á að Margrét Lára Viðarsdóttir og Guðbjörg Gunnarsdóttir muni leika erlendis á næsta ári.

Tímabilinu er ekki enn lokið hjá Valsstúlkum því þær eru enn í Evrópukeppni félagsliða kvenna þar sem þær leika í milliriðlum í október. Leikirnir fara fram í Belgíu 11-16. október og þar er Valur í riðli með þýska stórliðinu Frankfurt, enska liðinu Everton og KFC Rapide Wezemaal frá Belgíu.

Tvö lið komast upp úr riðlinum og í átta liða úrslit. Takist Val það fara þeir leikir fram 14/15. og 21/22. nóvember næstkomandi og leikið er heima og að heiman. Þar sem þá er kominn hávetur má búast við að ef Valur kemst svo langt þá fari heimaleikur þeirra fram innandyra, í Egilshöll eða Kórnum í Kópavogi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner