Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 29. október 2007 13:03
Hafliði Breiðfjörð
Óli Jó tekur við íslenska landsliðinu (Staðfest) (Uppfært)
Gerir samning til tveggja ára
Ólafur á fréttamannafundi KSÍ nú í dag.
Ólafur á fréttamannafundi KSÍ nú í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Ólafur Jóhannesson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Íslands en þetta var staðfest á fréttamannafundi í höfuðsstöðum KSÍ nú rétt í þessu. Ólafur mun taka við liðinu strax og stýra því í landsleik gegn Dönum 21. nóvember næstkomandi.

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ sagði á fréttamannafundinum að hann hafi viljað að Eyjólfur Sverrisson myndi stýra liðinu í leiknum gegn Dönum en Eyjólfur hafi sagt að hann vildi nýjan samning eða hætta strax. Því hafi verið ákveðið á stjórnarfundi á laugardag að endurnýja ekki samning við hann.

Hann sagðist hafa rætt lítillega við Ólaf síðdegis á laugardag þar sem Ólafur lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn að taka að sér starfið og í kjölfar þess var ákveðið í samráði við landsliðsnefnd KSÍ að bjóða Ólafi starfið til tveggja ára. Hann undirritaði því í gær samning til 31. desember 2009.

Geir sagði að nokkir þjálfarar hafi komið til greina en í hans huga hafi Ólafur verið hans fyrsti kostur vegna góðrar frammistöðu hans með FH undanfarin ár.

Ólafur sagði á fréttamannafundinum að hann væri þakklátur fyrir þann heiður að vera boðið starfið og honum litist ljómandi vel á það. Hann sagði ekki búið að ganga frá hver yrði hans aðstoðarmaður en það væri í skoðun.

,,Íslenska landsliðið þarf að verjast, það er algert skilyrði, það er stærsta málið sem ég kem til með að leggja áherslu á," sagði Ólafur um áherslur sínar með liðið. Hann sagðist ætla að stilla upp sínu sterkasta liði í leiknum gegn Dönum 21. nóvember næstkomandi.

Landsliðsþjálfarar hafa verið umdeildir í fjölmiðlum og um það sagði Ólafur í léttum tón: ,,Síðustu þrír landsliðsþjálfarar hafa verið aflífaðir af fjölmiðlum og konan mín spurði mig hvort ég væri að koma mér í þá stöðu að ég þyrði ekki að koma mér út úr húsi eftir tvö ár."

Ólafur sagði að ekki væri um að ræða fullt starf en mikil vinna þó. Hann sagði þó að hann muni hagræða starfinu þannig að hann gæti líka gripið í hamarinn en hann starfar sem smiður meðhliða þjálfuninni.

Ólafur sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um, eða hugleitt að skipta um fyrirliða hjá landsliðinu en eins og við sögðum frá fyrir helgi var Eyjólfur kominn að þeirri ákvörðun að láta Hermann Hreiðarsson taka við bandinu en hættti við.


Ólafur Jóhannesson hefur þjálfað FH undanfarin fimm ár og á þeim tíma vann liðið Íslandsmeistarattitilinn 2004, 2005 og 2006 og bikarmeistaratitil 2007. Auk þess endaði liðið í öðru sæti í deild og bikar 2003 og í öðru sæti í deild í sumar.

Hann ákvað svo að hætta með FH liðið eftir að Íslandsmótinu lauk í haust og Heimir Guðjónsson aðstoðarmaður hans tók við starfinu.

Ólafur sem í dag er 50 ára gamall hóf þjálfaraferilinn árið 1982 en þá þjálfaði hann Einherja í næst efstu deild hér á landi. Því næst fór hann til Skallagríms þar sem hann var 1983-1985.

Á þeim árum var hann einnig leikmaður en árið 1988 tók hann næst við þjálfun. Þá tók hann við FH og var þar spilandi þjálfari og kom liðinu upp í efstu deild á fyrsta ári. Hann þjálfaði FH líka næstu tvö árin en tók við Þrótti 1992 og var þar í eitt ár. Árið 1993 stýrði hann Haukum í þriðju efstu deild.

Hann kom svo aftur til FH 1995 og stýrði liðinu ekki lengur en það tímabil heldur tók við Skallagrími í Borgarnesi 1996. Hann kom Skallagrími beint í efstu deild og stýrði þeim í efstu deild 1997.

1998 fór hann til Selfoss og stýrði liðinu í þriðju efstu deild en fór þá aftur til Skallagríms sama ár. Hann tók við ÍR á miðju tímabili 2002 en árið eftir fór hann aftur til FH og náði þessum fábæra árangri sem fyrr var greint frá.
Athugasemdir
banner
banner
banner