Magnús Þormar sem varði mark Stjörnunnar í 1.deildinni í sumar er á förum frá félaginu og á hann í viðræðum við Grindavík en þetta staðfesti hann við Fótbolta.net í dag.
Magnús lék með Stjörnunni í sumar eftir að hafa verið á mála hjá Keflavík allan sinn feril fram að því, en hann hefur ákveðið að yfirgefa Garðabæjarliðið. ,,Ég er að klára samninginn og verð ekki áfram en það var gaman að vera þar," sagði Magnús við Fótbolta.net í dag.
Grindvíkingar eru í leit að markverði eins og við greindum frá fyrr í vikunni en Óskar Pétursson unglingalandsliðsmarkvörðurinn er eini markvörðurinn sem liðið hefur í sínum röðum sem stendur.
Sandnes Ulf sem var að komast upp í norsku 1.deildina hefur einnig áhuga á Magnúsi og möguleiki er á að hann fari til liðsins á reynslu.
Að sögn Magnúsar eru þessi tvö lið þau sem koma til greina í dag og fari hann ekki til Noregs bendir allt til þess að þessi 23 ára gamli markvörður gangi til liðs við Grindvíkinga.
Athugasemdir