Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 12. desember 2007 07:00
Hörður Snævar Jónsson
Magnús Páll er ekki þriðji markahæsti í íslensk knattspyrna
Magnús Páll.
Magnús Páll.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Víðir Sigurðsson.
Víðir Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Páll Gunnarsson leikmaður Breiðabliks er ekki þriðji markahæsti leikmaður Landsbankadeildar karla árið 2007 í bókinni, íslensk knattspyrna sem kom út á dögunum.

Magnús skoraði átta mörk í Landsbankadeildinni í sumar og fékk bronsskóinn á Lokahófi KSÍ.

Málið snýst um mark sem Magnús Páll skoraði eða skoraði ekki í leik gegn FH í 16 umferð Landsbankadeildar karla í sumar en ágreiningur er um hvort markið hafi verið sjálfsmark eða mark Magnúsar.

Magnús sjálfur sagði í samtali við Fótbolta.net í sumar að hann hefði skorað markið og er enn á þeirri skoðun ,,Ég einn veit það hvort þetta var mark, ég fann að hann fór í takkana. Ég færi aldrei að ljúga því neitt og skiljanlega er Tryggvi ósáttur en ég hlæ að því," sagði Magnús Páll við Fótbolta.net í sumar en Tryggvi Guðmundsson leikmaður FH var ekki ánægður með Magnús.

Magnús er ekki ánægður með vinnubrögð Víðis Sigurðsson sem skrifar bókina.

,,Ég hringdi í ritstjóra bókarinnar sem sagði að þeir notist við aðra tölfræði en KSÍ. Mér finnst að menn sem gefa út bók sem er ætlað að vera annáll ársins um íslenska knattspyrnu, geti ekki leyft sér að sniðganga tölfræði frá KSÍ eða verðlaun sem knattspyrnusambandið veitir," sagði Magnús Páll í samtali við Fótbolta.net í gær.

,,Mér finnst að minnsta kosti óverjandi ef ekki er einu sinni sagt frá þeim deilum sem að urðu útaf þessu marki og þeirri niðurstöðu sem KSÍ komst að, jafnvel þótt bókarhöfundar séu ekki sömu skoðunar," sagði Magnús Páll.

Víðir Sigurðsson höfundur bókarinnar segir að hann fari eftir ákveðnum vinnureglum og segir að markið hafi verið sjálfsmark Auðuns Helgassonar fyrrum leikmanns FH sem nú er gengin í raðir Fram.

,,Við skoðum hvert einasta mark, Óskar Ófeigur Jónsson (Blaðamaður á Fréttablaðinu) sér alveg um það og hann er búinn að grandskoða þetta mark eins og öll önnur og niðurstaðan er sú að það er ekki annað hægt en að skrá þetta sem sjálfsmark," sagði Víðir í samtali við Fótbolta.net í gær

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona er gert í íslensk knattspyrna. ,,Þetta er alls ekki í fyrsta sinn og þetta hefur gerst af of til í gegnum árin að við höfum úrskurðað sjálfsmark eða ekki öfugt við KSÍ því við viljum hafa það sem er réttast. Það hefur aldrei verið svona atriði áður að þetta snúist um bronsskó."

,,Við viljum ekki vera að taka afstöðu til þess, það er ekki tilgangurinn með þessu en af myndbandi er ekki annað hægt að sjá en að þetta sé sjálfsmark," sagði Víðir sem hefur rætt við Magnús Pál um málið.

,,Ég og Magnús erum búnir að ræða þetta og skildum sáttir með sjónarmið okkar. Hann telur sig hafa snert boltann og ég trúi honum alveg fyrir því. Ég færi síðastur manna að rengja hann en myndbandið ræður og þetta eru eitt af þessum endalausu atriðum í fótboltanum," sagði Víðir að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner