Lið Manchester United stillir sér upp fyrir síðasta leikinn fyrir flugslysið, gegn Rauðu Stjörnunni í Belgrad.
Matt Busby sjálfur ræðir við Bobby Charlton í maí mánuði en þarna er Busby nýkominn til Englands eftir að hafa verið á sjúkrahúsi eftir slysið.
Roger Byrne leiðir liðið út á völlinn gegn Arsenal 1. febrúar 1958, síðasti deildarleikurinn fyrir slysið.
Lið Manchester United á flugvelli í Lundúnum í janúar 1959. Þetta var fyrsta flugferðin eftir slysið.
Kirkjugluggi á St. Francis kirkjunni í Dudley. Þarna er Duncan Edwards sem er úr Dudley minnst en hann fórst vegna áverka sem hann hlaut í slysinu.
Krans er borinn inn í flugvélina sem flytur líkamsleifar Duncan Edwards til Manchester eftir andlát hans.
Klukkan sem er til minningar um slysið. Skiptar skoðanir eru um að hún sé látin ganga því sumir vilja að hún sé stopp á 15:04, tímasetningu slyssins.
Í dag, 6. febrúar 2018, eru liðin 60 ár frá því að flugvél, sem flutti lið Manchester United, hrapaði í Munchen í Þýskalandi en 8 leikmenn liðsins voru meðal þeirra sem létust í slysinu. Í samantektinni hér að neðan rifjum við upp hvað gerðist og hverjir eftirmálarnir urðu af þessu hræðilega slysi.
Busby Babes
Lið Manchester United á þessum tíma gekk undir gælunafninu „Busby Babes,” eða „Börn Busby,” ef það væri þýtt yfir á íslenskuna. Ástæða þess var að stjóri liðsins var Matt Busby og meðalaldur leikmanna liðsins var óvenjulega ungur, aðeins 22 ár. Þetta unga lið virtist ósigrandi og ekkert virtist ætla að stöðva þá frá því að verða bestir næsta áratuginn.
Manchester United í Evrópukeppninni
Evrópukeppni hafði verið haldin frá árinu 1955 en ekkert enskt lið tók þátt fyrr en tímabilið 1956-1957 þegar Manchester United tók þátt og komast í undanúrslit þar sem þeir töpuðu fyrir Real Madrid, sem enduðu sem meistarar. Manchester United voru taldir meðal líklegri liða til að vinna mótið 1957-1958 en eins og í dag fóru leikir í Evrópukeppni fram í miðri viku og deildarleikir heima fyrir á laugardögum.
Þannig var það einmitt í febrúar árið 1958. Lið Manchester United hafði skemmt 63 þúsund áhorfendum á Highbury í Lundúnum á laugardeginum 1. febrúar. Liðið mætti þá Arsenal í hreint mögnuðum fótboltaleik þar sem níu mörk voru skoruð, leiknum lauk með 4-5 sigri „Busby Babes” liðsins. Eftir þann leik hélt liðið svo utan þar sem leikið var í Evrópukeppninni í miðri viku.
Liðið mætti Crvena Zvezda frá Júgóslavíu í fjórðungsúrslitum Evrópukeppninnar 1958, lið sem er betur þekkt sem Rauða Stjarnan frá Belgrad. Fyrri leiknum í Manchester 14. janúar þetta ár hafði lokið með 2-1 sigri Manchester United og í byrjun febrúar var svo haldið til Belgrad til að leika síðari leik liðanna. Leiknum lauk með 3-3 jafntefli svo Man Utd komst áfram 5-4 samanlagt og gátu því farið ánægðir heim í flugvélina sem átti að flytja þá heim á leið.
Flugið frá Belgrad tefst vegna vegabréfs
Johnny Berry leikmaður Manchester United virðist hafa fengið einhvers konar skilaboð að handan því hann týndi vegabréfinu sínu í Belgrad og það tafði brottför flugvélarinnar til Munchen um klukkustund. Á endanum fann hann vegabréfið og flaug því með liðinu, fréttamönnum og starfsmönnum félagsins til Munchen þar sem þurfti að millilenda til að taka eldsneyti. Vandamál með vegabréf átti hinsvegar eftir að bjarga fréttamanni frá Júgóslavíu sem ætlaði að fara með liðinu heim.
Hann hét Miro Radojcic og var pólitískur blaðamaður sem hafði hitt Tommy Taylor og Duncan Edwards á bar í Belgrad. Radojcic hafði tekið ákvörðun um að fljúga með Man Utd liðinu til Englands og skrifa grein í júgóslavneskt blað frá sjónarhóli Man Utd liðsins. Þegar hann mætti á flugvöllinn til að fara í flugið fattaði hann að hann hafði gleymt vegabréfinu heima. Hann bað um að beðið væri með flugið meðan hann reddaði vegabréfinu en þegar hann sneri aftur á flugvöllinn í leigubíl hafði vélin tekið af stað til Munchen.
Meðal þeirra sem voru með í för var Frank Swift sem hafði áður verið markvörður Manchester City og enska landsliðsins. Hann hafði hætt í fótboltanum þegar þarna var komið og starfaði sem íþróttafréttamaður News of the World dagblaðsins. Hlutverk hans í Belgrad var að skrifa pistil í næsta sunnudagsblað News of the World um leikinn. Swift hafði verið liðsfélagi Busby í Manchester City liðinu sem vann enska bikarinn árið 1934. Auk hans voru fleiri blaðamenn með í för frá ýmsum miðlum.
Millilent í Munchen
Flugvélin millilenti svo í Munchen á leið sinni til Englands til að fylla á eldsneyti og það var þar sem örlög vélarinnar réðust. Leikmenn liðsins voru þó mjög rólegir og áttu síst von á því sem beið þeirra. Þeir spiluðu á spil, spjölluðu um nýjustu fréttirnar, lásu bækur og tímarit sem voru til staðar og reyndu að láta tímann líða á sem bestan hátt. Sumir fengu sér meira að segja lúr.
Um 14:00 var vélin tilbúin til flugtaks á ný en fyrsta tilraun til flugtaks tókst ekki því vélarnar fengu of sterka eldsneytisgjöf og keyrðu því of hratt, nokkuð sem þótti algengt í slíkum flugvélum á þessum tíma. James Thain flugmaður ræddi málið við Kenneth Rayment aðstoðarflugstjóra og ákváðu að reyna aftur og í þetta skiptið skyldi auka eldsneytisgjöfina hægt og rólega áður en bremsunum yrði sleppt, og fara svo á fullt.
14:34 fékkst leyfi til að reyna aftur en þá varð að hætta við öðru sinni og ekki bætti úr stöðunni að eftir það fór að snjóa mikið. Menn bjuggust ekki við að fara í loftið þennan dag og Duncan Edwards sendi þannig skeyti heim til Manchester þess efnis að flugi hafi verið aflýst og þeir kæmu heim daginn eftir. Skeytið skilaði sér um 17:00.
En vélin fór samt aftur af stað því nokkrum mínútum síðar voru menn beðnir að fara á ný í vélina þar sem reyna átti þriðja sinni. Flugmennirnir höfðu fengið skilaboð um að vandamálin sem höfðu hrjáð þá væru algeng á flugvelli eins og í Munchen og klukkan 15:03 var vélin klár í flugtak á ný og mínútu síðar hafði hún farist,15:04.
Slysið hræðilega
Þriðja tilraun gekk ekkert betur en þær fyrri tvær og þó vélin hafi náð góðum hraða fór hún að missa afl þegar hún var komin framyfir þann stað þar sem of seint var að sleppa flugtaki. Vélin komst aldrei á flug og skyndilega var hún komin útaf flugbrautinni og flugmaðurinn sá hús og tré í vegi vélarinnar. Vélin fór í gegnum grindverk er hún fór útaf flugbrautinni og yfir veg áður en annar vængurinn fór í húsið. Vængurinn brotnaði af vélinni og eldur kviknaði í húsinu. Flugmannhúsið fór beint á tréð og stjórnborðshlutinn fór á kofa sem í var meðal annars flutningabíll með bensín og dekk sem sprakk í loft upp.
Flugmaðurinn var í fyrstu sakaður um slysið því hann hafi ekki hreinsað ís úr hreyflunum en var síðar hreinsaður af ásökunum og úrskurðað að slabb á flugbrautinni hafi komið í veg fyrir að vélin næði að taka á loft.
Sjö leikmenn liðsins sem voru í vélinni voru látnir. Þetta voru þeir Roger Byrne, Geoff Bent, Mark Jones, David Pegg, Liam Whelan, Eddie Colman og Tommy Taylor en auk þeirra létust Walter Crickmer ritari félagsins, Tom Curry þjálfari liðsins og Bert Whalley þjálfari.
Duncan Edwards og Johnny Berry voru alvarlega slasaðir og börðust fyrir lífi sínu. Matt Busby sjálfur hafði lent í miklum meiðslum en var eini starfsmaður félagsins sem lifði af flugslysið.
Átta af níu blaðamönnum létust einnig. Alf Clarke, Don Davies, George Follows, Tom Jackson, Archie Ledbrooke, Henry Rose, Eric Thompson og Frank Swift sem áður hefur verið sagt frá. Einn úr starfsliði flugvélarinnar lést einnig og tveir aðrir farþegar. Sá sem hafði skipulagt ferðina og stuðningmaður sem hafði flogið út til að sjá leikinn. Níu leikmenn lifðu slysið af en tveir þeirra, Johnny Berry og Jacki Blanchflower spiluðu aldrei fótbolta að nýju.
Tveir ljósmyndarar, eiginkona skipuleggjanda ferðarinnar, og tveir Júgóslavar auk lítils barns höfðu einnig lifað slysið af eins og Frank Taylor. Síðar sama daginn var tilkynnt að 21 hafi látist, 18 lifðu af og fjórir voru nærri dauðanum.
Þessir fjórir voru Duncan Edwards, Matt Busby, Johnny Berry og flugmaðurinn Kenneth Rayment. Edwards og Rayment létust svo síðar af sárum sínum.
Eftirköstin
Manchester United var sýnd mikil samúð eftir slysið og á hinum ýmsu völlum um gervalla Evrópu var tveggja mínútna þögn til minningar um fórnarlömb slyssins næsta laugardag.
Rauða Stjarnan sendi frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lögðu til að Manchester United yrðu gerðir að heiðursmeistarar í Evrópukeppninni árið 1958. Ekki varð úr því en áratug síðar varð Manchester United fyrsta enska liðið til að vinna Evrópubikarinn.
Elísabet Englands drottning sagði að sér væri mjög brugðið og sendi borgarstjóra Manchester og samgönguráðherra samúðarkveðju.
Nýtt lið byggt upp
Jimmy Murphy var aðstoðarmaður Matt Busby á þessum tíma en missti af ferðinni til Belgrad. Hann var einnig landsliðsþjálfari Wales og landsliðið átti leik í undankeppni Heimsmeistaramótsins á sama tíma. Murphy var samt tilbúinn að fara til Belgrad og sleppa landsleiknum á Ninian Park en Busby sagði honum að hann yrði að vera með welska liðinu.
Hann flaug hinsvegar út til Munchen eftir slysið og hitti þar Busby sem var í súrefnistjaldi. Busby tjáði honum að nú væri hans verk að halda vagninum gangandi. Eitthvað sem Murphy vissi að yrði erfitt enda hafði hann enga leikmenn. Erkiféndur þeirra í Liverpool og Nottingham Forest voru fyrstu félögin til að bjóða fram hjálparhönd og enska knattspyrnusambandið ákvað að láta þá reglu ekki gilda þetta tímabilið að leikmaður sem hefur spilað bikarleik með einu liði megi ekki spila með öðru á tímabilinu. Ljóst var að Manchester United bráðvantaði leikmenn til að halda áfram.
Samt liðu ekki nema 13 dagar þar til Man Utd spilaði aftur en þar var um að ræða bikarleik gegn Sheffield Wednesday sem 60 þúsund manns mættu til að sjá á köldu febrúar kvöldi. Miklar tilfinningar réðu í stúkunni þetta kvöld á Old Traffford þar sem margir áhorfendur grétu. Í leikskrá leiksins var auð síða þar sem nöfn leikmanna liðsins áttu að vera.
Harry Gregg og Bill Foulkes höfðu snúið aftur í liðið eftir slysið í Munchen en önnur nöfn voru ekki þekkt, menn sem höfðu verið í unglinga og varaliði en hugarfarið var svo svakalegt að enginn hefði getað unnið þá þetta kvöld. Leiknum lauk með 3-0 sigri Man Utd en tveimur dögum síðar varð enn eitt áfallið þegar skærasta stjarna liðsins, Duncan Edwards, lést á sjúkrahúsi þar sem hann hafði barist fyrir lífi sínu.
Busby sem lá í tvö mánuði á sjúkrahúsi í Munchen tók svo aftur við liðinu fyrir næstu leiktíð og þá var hlutverk hans og Murphy að endurbyggja nýtt lið hjá félaginu og gegnt á spár manna tókst að búa aftur til sigursælt lið nokkrum árum síðar og tímabilið 1964-1965 varð liðið aftur meistari á Englandi.
Til minningar um fórnarlömbin
Nokkrir minningarreitir eru um slysið. Fyrstu þrír voru á Old Trafford og voru settir upp 25. febrúar 1960. Það var platti sem var settur fyrir ofan einkastúkuna með leikmanni og stuðningsmanni sem lúta höfði og fyrir neðan er dagsetning slysins og nöfn þeirra sem létust.
Brons platti til minningar um blaðamennina átta sem létust var settur í blaðamannatúkuna og að lokum var klukka sett upp fyrir framan leikvanginn. Plattinn hefur skipt um stað og nýjir gerðir og sá nýjasti er fyrir framan leikvanginn og hefur verið síðan 1966. Klukkan var líka færð til en hana má enn sjá með dagsetningu slyssins. Platta blaðamannana var hinsvegar stolið og annar settur upp í staðinn síðar.
Auk þess eru tveir minningarreitir í Þýskalandi. Í þorpinu Kirchtruderin er lítill minningarreitur úr viði þar sem áletrað er: „Í minningu fórnarlamba flugslyssins 6. 2 1958, þar á meðal meðlima fótboltaliðsins Manchester United og allra fórnarlamba bæjarins Trudering."
Í september 2004 var settur minningarreitur á flugvöllinn í Munchen en þar er áletrað á ensku og þýsku. „Í minningu þeirra sem misstu líf sitt í flugslysinu í Munchen 6. febrúar 1958." Fyrir neðan er platti þar sem United lýsa yfir þökkum til borgarinnar og fólksins í Munchen.
Duncan Edwards
Duncan Edwards var aðeins 21 árs gamall er hann lést 21. febrúar 1958 af sárum sínum eftir slysið. Þarna lést einn besti fótboltamaður heims og margir sem sáu hann spila telja að ef hann hefði ekki látist í slysinu þá hefði hann orðið ein af goðsögnum fótboltans, þvílíkir voru hæfileikarnir. Á ferli sínum náði hann 175 leik með Manchester Unitd sem hann skoraði 21 mörk í. Auk þess voru 18 landsleikir fyrir England sem hann skoraði fimm mörk í.
Edwards var frá Dudley á Englandi þar sem hann gekk í skóla og var lykilleikmaður í skólaliðum sínum. Hann fór að vekja athygli stóru félaganna um 1950 og eftir að hafa fengið ábendingu um hann sendi Matt Busby Joe Armstrong yfirnjósnara sinn til að kíkja á drenginn sem þá var 14 ára gamall.
Eftir 10 mínútna leik hringdi Armstrong í Busby og sagði honum að koma sjálfum til Dudley enda taldi hann sig hafa séð nóg. Viku síðar sá Busby hann spila og ákvað að kaupa hann. Það var hinsvegar ekki hægt næstu tvö árin vegna ungs aldurs Edwards og á 16 ára afmæli hans, 1. október 1952 gerði hann samning við Manchester United.
4. apríl 1953 varð hann svo yngsti leikmaðurinn til að spila í efstu deild á Englandi er hann kom inná gegn Cardiff City. Hann varð í kjölfarið einn af lykilmönnum í Busby Babes. 18 ára og 183 daga gamall lék hann sinn fyrsta landsleik gegn Skotum í apríl 1955 og varð þar með yngsti leikmaður Englands eftir stríð, met sem hann átti til 1998 er Michael Owen sló honum við og síðar Wayne Rooney og síðar Theo Walcott.
Edwards gat spilað allar stöður á vellinum en oftast spilaði hann sem djúpur miðjumaður.
Í slysinu margbrotnaði hann á fótum auk þess sem hann hlaut nýrnaskaða. Læknar voru vongóðir um bata hans en töldu þó ólíklegt að hann spilaði fótbolta að nýju. Reynt var að græða gervinýra í hann eftir slysið en ekki vildi betur til en svo honum tók að blæða innvortis. Læknar undruðust hversu duglegur hann var að berjast fyrir lífi sínu en ástand hans versnaði og hann lést að lokum á sjúkrahúsi í Munchen 21. febrúar, 15 dögum eftir slysið, og var jarðsettur í kirkjugarði í Dudley fimm dögum síðar.
Albert Scanlon
Albert Scanlon var einn þeirra sem lifðu slysið af og átti eftir að halda áfram að leika með liðinu. Nafn hans er sérstaklega tekið út hér og við segjum stuttlega sögu hans vegna þess að íþróttavöruframleiðandinn Halldór Einarsson, Henson, ákvað að veita honum sérstaka peningagjöf í febrúar 2008 enda bjó hann við kröpp kjör á þeim tíma.
Scanlon er fæddur 10. október 1936 og kom uppúr unglingastarfi Manchester United í aðalliðið. Þar lék hann sinn fyrsta leik árið 1954 og vann með liðinu tvo titla árin 1956 og 1957.
Hann var 22 ára gamall þegar flugslysið í Muchen varð og slasaðist nokkuð þar sem hann höfuðkúpubrotnaði meðal annars. Hann náði þó fullum bata og um haustið þegar tímabilið 1958-1959 hófst var hann klár í slaginn.
Skömmu fyrir flugslysið munaði litlu að hann gengi í raðir Arsenal en hætt var við félagaskiptin. Með Man Utd skoraði hann 35 mörk og þar af voru 16 mörk tímabilið eftir slysið. Hann gekk svo til liðs við Newcastle United árið 1960 og lék síðar með Lincoln City og Mansfield Town þar sem hann var þar til hann lagði skóna á hilluna árið 1966.
Eftir að ferlinum lauk starfaði hann sem hafnaverkamaður og að lokum sem næturvörður í verksmiðju. Hann hafði 12 pund í vikulaun sem leikmaður Manchester United en átti möguleika á mun hærri launum sem hafnaverkamaður.
Hann er einn fimm leikmanna liðsins sem lifðu af flugslysið en man lítið eftir því sem gerðist. Hann bjó undir það síðasta í lítilli blokkaríbúð í Salford og sagði þá frá því að félagið hafi greitt laun leikmannana sem lifðu af meðan þeir voru meiddir en fyrir utan það hafi þeir ekkert fengið frá félaginu.
Enn þann dag í dag virðist litið framhjá þeim því ef þeir vilja sjá Manchester United spila í dag eða fara á safnið á Old Trafford þá verði þeir að greiða sig inn eins og aðrir gestir.
Henson hóf í byrjun ársins framleiðslu og sölu á sérstökum treyjum til minningar um slysið þar sem nöfn þeirra sem létust voru áletruð á svartan sorgarborða. Hluti söluágóðans átti að fara til fyrrum leikmanns og Scanlon varð fyrir valinu. Upphaflega átti að bjóða honum hingað til lands til að taka á móti peningagjöfinni en þá kom í ljós að hann fer ekki í flugvél í dag og því fór Henson sjálfur til Manchester.
Albert Scanlon lést á aðfangadag 2009. 74 ára gamall.
6. febrúar 2018
Nú 6. febrúar 2018 eru liðin 60 ár frá þessu hræðilega slysi. Þrátt fyrir að sumir hafi í fyrstu talið að slysið myndi gera út um lið Manchester United var það einmitt andstaðan sem varð raunin.
Fjöldi manna um allan heim fylktist í kringum þetta lið og það efast enginn um að mikill fjöldi stuðningsmanna liðsins í dag hóf að styðja liðið eftir slysið eða eftir að hafa heyrt söguna af því.
Fórnarlömbin
Leikmenn:
Roger Byrne, 28 ára gamall bakvörður og fyrirliði liðsins.
Mark Jones, 24 ára gamall miðvörður
Duncan Edwards, 21 árs gamall
Tommy Taylor, 26 ára gamall framherji
Eddie Colman, 21 árs gamall miðvörður
Liam Whelan, 22 ára gamall kantmaður
David Pegg, 22 ára gamall kantmaður
Geoff Bent, 25 ára gamall bakvörður
Aðrir:
Walter Crickmer, ritari félagsins
Bert Whalley, yfirþjálfari
Tom Curry, þjálfari
Alf Clarke, blaðamaður, Manchester Evening Chronicle
Don Davies, blaðamaður Manchester Guardian
George Follows, blaðamaður Daily Herald
Tom Jackson, blaðamaður Manchester Evening News
Archie Ledbrooke, blaðamaður Daily Mirror
Henry Rose, blaðamaður Daily Express
Eric Thompson, blaðamaður Daily Mail
Frank Swift, blaðamaður News of the World
Kenneth Rayment, annar flugmaður
Bela Miklos, ferðaumboðsmaður
Willie Satinoff, stuðningsmaður
Tom Cable, flugþjónn
Eftirlifendur
Leikmenn:
John Berry (lést 1994)
Jacki Blanchflower (lést 1998)
Dennis Villet (lést 1999)
Ray Wood (lést 2002)
Bobby Charlton
Bill Foulkes (lést 2013)
Harry Gregg
Kenny Morgans (lést 2012)
Albert Scanlon (lést 2009)
Aðrir:
Matt Busby, knattspyrnustjóri (lést 1994)
Frank Taylor, blaðamaður (lést 2002)
James Thain, flugmaður (lést 1975)
George Rodgers, útvarpsmaður (dánardagur ekki vitaður)
Peter Howard, ljósmyndari (lést 1996)
Margaret Bellis, flugfreyja (lést á síðasta áratug)
Ted Ellyard, ljósmyndari
Vera Luckic, ungt barn hennar Venona og barn sem hún bar undir belti
Frú Miklos, eiginkona ferðaumboðsmannsins
Nebojsa Bato Tomasevic, farþegi
Rosemary Cheverton, flugfreyja
Sjá einnig:
Litmyndir eftir Peter Dreyer af brakinu eftir slysið
Fleiri myndir af slysinu