Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 10. mars 2008 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Aðsend grein: Laugardalsvöllur
Teikning af Laugardalsvelli eftir stækkunina.
Teikning af Laugardalsvelli eftir stækkunina.
Mynd: Tark
Frá leik á Laugardalsvelli. Flest sætin sem þarna sjást tóm í stúkunni eru viðbótin sunnanmegin.
Frá leik á Laugardalsvelli. Flest sætin sem þarna sjást tóm í stúkunni eru viðbótin sunnanmegin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikvangur Viking í Noregi sem kostaði svipað og breytingarnar á Laugardalsvelli.
Leikvangur Viking í Noregi sem kostaði svipað og breytingarnar á Laugardalsvelli.
Mynd: Stadium Guide
Séð úr stúkunni á Viking Stadion.
Séð úr stúkunni á Viking Stadion.
Mynd: Stadium Guide
Á þessari mynd sést greinilega hversu opin stúkan er fyrir veðri og vindum. Myndin er tekin í norðurendanum á leik Íslands og Spánar af sætum sem voru hluti af stækkuninni en þarna fær stuðningsmannaklúbburinn úthlutað sætum frá KSÍ.
Á þessari mynd sést greinilega hversu opin stúkan er fyrir veðri og vindum. Myndin er tekin í norðurendanum á leik Íslands og Spánar af sætum sem voru hluti af stækkuninni en þarna fær stuðningsmannaklúbburinn úthlutað sætum frá KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Gamla stúkan fyrir breytinguna.
Gamla stúkan fyrir breytinguna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Colorline leikvangur Álasund í Noregi.
Colorline leikvangur Álasund í Noregi.
Mynd: Álasund
Leikvangur Fredrikstad.
Leikvangur Fredrikstad.
Mynd: Fredrikstad
Mynd: Sammarinn
Björn Berg Gunnarsson hefur sent okkur aðsenda grein þar sem hann ræðir um Laugardalsvöll og breytingarnar á honum sem eru svo mikið í umræðunni þessa dagana. Greinin er mjög áhugaverð og við hvetjum fólk til að lesa hana.


Laugardalsvöllur
Laugardalsvöllur stendur í dag sem þúsunda milljóna króna minnisvarði um slæma ákvarðanatöku og vanvirðingu fyrir hagsmunum knattspyrnuunnenda. Umræðan um stórkostlega framúrkeyrslu við endurbætur þjóðarleikvangs okkar er vissulega þörf og sjálfsögð, en tekur þó ekki, að mínu mati, á því versta við framkvæmdirnar; hversu stórkostlega slæm hugmynd þetta var til að byrja með.

Hverjar voru þarfirnar?
Þarfagreining er vinsælt orð í viðskiptalífinu. Þar eru atriði sem þörf er á hripuð niður á blað og lausna leitað. Ef til vill hefur slík aðferðafræði verið notuð við undirbúning umræddra framkvæmda, en einhver skortur hefur þó greinilega verið á viðhorfi hins almenna knattspyrnuáhugamanns við þá vinnu.

Þarfirnar fyrir framkvæmdir KSÍ, eins og ég sé þær, voru þessar:
• Hlaupabrautina burt
• Betri aðstaða fyrir áhorfendur
• Betri aðstaða fyrir fjölmiðla
• Meiri stemning
• Betri árangur

Ég vona að ég sé ekki að gleyma neinum veigamiklum atriðum, en við þennan lista má að sjálfsögðu bæta veitingaaðstöðu, almennilegri stafrænni stiga- og upplýsingatöflu og eflaust einhverju sem ratar ekki í kollinn á mér.

Þarfir Knattspyrnusambandsins virðast hins vegar hafa verið þessar:
• Betri skrifstofur fyrir Knattspyrnusambandið
• Fleiri sæti, en þó ekki góð
• Flottari gólf
• Glæsileg VIP aðstaða

Það liggur í augum uppi að gífurlega mikill munur virðist vera á hagsmunamati KSÍ og þeirra sem sambandið á að vera að þjóna. Þetta tel ég afar slæma stöðu. Þau atriði sem ég nefni að áhorfendur þarfnist ættu að vera öllum augljós. Svo augljós að auðvitað var forsvarsmönnum KSÍ ljóst að ekki var verið að mæta þörfum okkar.

Hvers vegna var þá ákveðið að haga framkvæmdum með þessum hætti? Hvers vegna var þörf fyrir svo glæsilega VIP aðstöðu, en ekki fyrir þjónustu við áhorfendur? Það er mér fyrirmunað að skilja.

Hvað hefðum við getað gert?
Ef vilji hefði verið fyrir hendi er ég sannfærður um að hægt hefði verið að nýta þessa fjármuni betur. Í því sambandi langar mig að nefna framkvæmd sem kostaði svipað mikið eða tæpa tvo milljarða króna. Það er hinn stórglæsilegi heimavöllur Viking í Stavangri, Viking Stadion. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er völlurinn byggður allan hringinn, af einhverjum dularfullum ástæðum er engin hlaupabraut og í fljótu bragði virðast flest sæti vera góð sæti. Fyrir svipaðar upphæðir fengum við vonlaus sæti á versta mögulega stað á vellinum og getum í raun þakkað fyrir að hlaupabrautin var ekki stækkuð í þokkabót.

Lítið aðeins á þessa mynd og svarið því hvort eitthvað vit sé í því að vilja frekar Laugardalsvöllinn eins og hann er. Þetta er engin fantasía heldur var svona framkvæmd raunhæfur kostur.

Ástæða lélegrar stemningar
Það dylst engum sem mætt hefur á erlenda knattspyrnuleiki að stemningin á Laugardalsvelli er afar lítil, þrátt fyrir frábært framtak Tólfunnar sem á heldur betur hrós skilið. Ég get nefnt þrjár áberandi ástæður fyrir þessu þar sem ég held að Viking Stadion hafi vinninginn:

• Hlaupabrautin
Forsendur fyrir veru hennar eru brostnar, en áður fyrr mátti ekki fjarlægja hana þar sem Laugardalsvöllur var sagður eini almennilegi frjálsíþróttavöllur landsins. Svo er ekki nú og því fráleitt að halda henni. Hlaupabrautin er einhver allra versti ókostur Laugardalsvallar.

• Tvær stakar stúkur
Stemning er staðbundin og smitast ekki nema frá næsta manni við hliðina, þetta þekkjum við. Sá sem stendur einn upp og syngur með stúkunni á móti fær væntanlega frítt í strætó, svo við orðum það pent. Heiðurssætin í stóru stúkunni spilla einnig fyrir, en þar er engin stemning og hún slítur því stúkuna í tvennt. Lítið einu sinni enn á myndina af Viking Stadion og veltið því fyrir ykkur hvort þetta vandamál væri upp á teningnum þar.

• Þak
Það tíðkast við byggingu leikvanga úti í heimi að leggja ríka áherslu á hlutverk stúkuþaksins í hljómburði. Nýja þakið er einhverjum ljósárum fyrir ofan stúkuna og hallar upp á við þannig að þau læti sem skapast bergmála út í buskann í stað þess að færast aftur inn í stúkuna og magna þannig upp andrúmsloftið. Auk þess veitir þakið takmarkað skjól fyrir rigningu vegna bila í því.

Hvernig bætum við þetta?
Geir Þorsteinsson hefur verið gerður að vonda kallinum í þessu framúrkeyrslumáli og það er svo sem skiljanlegt þar sem hann gegnir hlutverki formanns KSÍ. Við skulum þó ekki gleyma því að Eggert Magnússon var formaður þegar þetta gekk allt saman á og ætti því með öllu réttu að bera stóran hluta ábyrgðar. Helsta markmið Eggerts hjá West Ham var að byggja nýjan völl og ef Laugardalsvöllur er eitthvað til að miða við mega stuðningsmenn Hamranna þakka fyrir að honum var sparkað.

Við getum áfram tekið dæmi af vitleysunni sem þessi framkvæmd var. 6.000 sætum var bætt við á vonlausum stað sem knattspyrnuáhugamenn snerta ekki með priki. Salernisaðstaðan er samt alveg jafn léleg og hún var áður. Veitinga- og minjasöluaðstöðu svipar til 17. júní, engir veitingastaðir eru og í raun má segja að nákvæmlega ekkert hafi batnað sem lítur að áhorfendum.

Það getur þó hvaða besservisser sem er rifist og vælt yfir vanhæfi annara. Réttast er að benda á lausnir miðað við aðstæður í dag og ég sting upp á þessu:

Rífum litlu stúkuna. Fjarlægjum hlaupabrautina, færum grasvöllinn upp að stóru stúkunni og byggjum allan hringinn. Inni í nýrri stúku gegnt þeirri stóru skulum við byggja miðstöð fyrir fjölmiðla- og frjálsíþróttamenn og aðstöðu fyrir Valbjarnarvöll sem og stúku sem vísar hina áttina út á hann. Byggjum svo 8 brauta hlaupabraut utan um Valbjarnarvöll. Þar með gætum við gert Laugardalsvöllinn nothæfan og tryggt frjálsíþróttafólki áframhaldandi aðstöðu í Laugardal.

Framkvæmum þetta í einkaframkvæmd. Flest allir vellir sem byggðir eru á Norðurlöndum í dag eru meira en bara fótboltavellir. Þar eru reknar verslanir, heilsugæslustöðvar, tónlistaskólar, hótel og fleira. Framkvæmdirnar eru að stóru leiti fjármagnaðar með sölu eða leigu á slíku plássi auk þess sem líf færist á svæðið og mannvirkin eru betur nýtt.

Nú hefur KSÍ sent Reykjavíkurborg auka reikning upp á 400 milljónir króna. Sveitarfélagi sem hefur verið eftirbátur nágranna sinna þegar kemur að uppbyggingu knattspyrnumannvirkja. Hvernig haldið þið að samskipti KSÍ og Reykjavíkur verði í framhaldi af þessu? Eitthvað segir mér að þessar 400 milljónir verði skilgreindar sem útgjöld til knattspyrnu og tekið verði tillit til þess við fjárveitingar í framtíðinni.

Hefði KSÍ haft einhverjar rænu á því eða metnað til að gera þetta almennilega væri nú risinn stórglæsilegur þjóðarleikvangur sem við Íslendingar værum stoltir af og fjölmenntum á hvern einasta leik. Framkvæmdirnar hefðu verið í einkframkvæmd og staðið undir sér, enda völlurinn á besta stað á landinu með Grasa- og Húsdýragarðana, Laugar og Skautahöllina í næsta nágrenni. Þar væri hótel sem fjármagnaði stóran hluta byggingarinnar, ýmiss þjónusta og skrifstofur sérsambanda, heilsugæsla, sjúkraþjálfun, verslanir og fleira.

En þessu hafði KSÍ ekki áhuga á heldur frekar á því að niðurlægja sig með svo óheppilegri framkvæmd að mér sárnar við að hugsa til hennar.

Skv. mínum heimildum kostar glæsilegur knattspyrnuvöllur með öllu sem tekur um 10-20 þúsund manns í sæti um 1,5 til 2 milljarða á Norðurlöndum, þó kostnaður geti aukist vegna lokaðs þaks, umhverfisbreytinga og annars. Gera má ráð fyrir svipuðum kostnaði hér. Slíkar framkvæmdir standa yfir eða er nýlokið hjá fjölmörgum liðum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og eru þar að rísa vellir sem fyllilega hefði verið hægt að reisa hér. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þá tek ég sem dæmi:

Ålesund – Color Line Stadion
Molde – Aker Stadion
Stabæk – Fornebu Arena
Fredrikstad – Fredrikstad Stadion
Bryne – Jæren Arena
Viborg – Viborg Stadion
FC Midtjylland – SAS Arena
Elfsborg – Borås Arena
HKJ Helskini – Finnair Stadium

Markmið þessarar greinar er ekki að koma á illindum milli KSÍ og okkar hinna, heldur að vekja athygli á því hve illa hefur verið farið með peningana okkar. Ef réttir menn hefðu verið við stjórnvölin væri Laugardalsvöllur ekki til skammar heldur til sóma og auðvitað sárnar okkur við að svo sé ekki. Gerum hins vegar sem best úr þessu, þrýstum duglega á vandaðri vinnubrögð hjá KSÍ, fjölmennum á völlinn og mætum svo galvaskir á HM í Suður-Afríku 2010!

Áfram Ísland!
Björn Berg Gunnarsson

Höfundur er stjórnarmaður í reykvísku knattspyrnufélagi, heldur úti heimasíðunni www.sammarinn.com og Fótboltaþættinum á Útvarpi Sögu FM 99,4 alla mánudaga og föstudaga kl. 17-18.

Heimildir:
Páll Kristjánsson
www.stadiumguide.com
www.worldstadium.com
www.lenecc.no

Athugasemdir
banner
banner
banner