Þróttur Vogum að styrkja sig fyrir komandi átök í 3. deild með átta leikmönnum
Þróttur Vogum halda áfram að styrkja sig fyrir komandi átök sumarsins í 3. deildinni en í gær var ljóst að átta leikmenn frá sjö liðum hafa samþykkt að ganga til liðs við þá. Það er alltaf ákveðið verkefni að vekja aftur risa upp frá dauðum og stjórnin, ásamt Jakobi Má, þjálfara eða Kobba eins og hann er oft kallaður hafa verið að styrkja lið Þróttar síðustu vikurnar.
Tveir leikmenn með mismunandi reynslu komu frá Víðí í Garði, auk þess sem að einn leikmaður frá Hrunamönnum, Reyni Sandgerði, ÍH, Sindra, Þrótti Reykjavík og Keflavík skrifuðu undir samning hjá Þrótti Vogum.
Gunnar Helgason og Sveinbjörn Magnússon kom frá Víði í Garði. Sveinbjörn fæddur 1984 hefur æft og spilað með yngri flokka Reynis Sandgerði og Víði Garði en ekki enn leikið mótsleik með meistaraflokki. Gunnar fæddur 1973 er þó öllu reynslumeiri og þrátt fyrir að hafa tekið sér frí frá boltanum í fyrra þá hefur hann leikið 86 mótsleiki ýmist með ÍH eða Víði og skorað níu mörk. Gunnar er fæddur og uppalinn Vogastrákur og eflaust gaman fyrir hann að vera kominn aftur á heimslóðir.
Axel Rúnar Eyþórsson fæddur 1981 kemur frá Hrunamönnum. Axel hefur verið að spila með nokkrum utandeildar liðum hér á landi auk þess að hafa verið spilandi þjálfari með Íslendingaliðinu í Óðinsvé, B-1913. Axel kom víða við í yngri flokkum og spilaði með Keflavík, Reyni Sandgerði og Breiðablik.
Óli Chotdamrong Jóhannesson fæddur 1984 kemur frá Reyni í Sandgerði. Auk þess að hafa spilað með Reyni hefur Óli einnig spilað með Keflavík, en hann á að baki tvo mótsleiki í meistaraflokki með Reyni. Óli á einnig þann heiður að hafa skorað fallegasta mark sem Þróttur Vogum hefur skorað á undirbúningstímabilinu.
Ólafur Ibsen Tómasson fæddur 1981 kemur frá Keflavík. Ólafur er frændi Sverris Garðarsonar fyrrum leikmanns FH og hefur því ekki langt að leita þegar það kemur að knattspyrnuhæfileikunum, auk þess sem hann er Íslandsmeistari í tölvuleiknum FIFA 2006. Ólafur hefur enga leiki spilað með meistaraflokki Keflavíkur en margir hafa fundið fyrir tæklingum hans í utandeildum hér á landi, bæði Carlsbergdeildinni og Utandeildinni.
German A. Castillo Villalobos fæddur 1978 er á góðri leið með að stimpla sig inn sem "Nían" hjá Þrótti Vogum. German eða Hermann eins og hann er kallaður kemur frá Kosta Rica þar sem hann lærði að spila fótbolta. Hann var samningsbundinn Þrótti frá Reykjavík um tíma en spilaði ekki mótsleik með þeim.
Eysteinn Sindri Elvarsson fæddur 1985 kemur frá Sindra. Eysteinn hefur spilað með Sindra næstum allan sinn feril ef frá er talið eitt ár þar sem hann spilaði með Mána. Eysteinn hefur spilað bæði í 3. deild og 2. deild og í það heila hefur hann spilað 35 leiki og skorað tvö mörk.
Arnar Arnórsson fæddur 1979 er tvíburabróðir Péturs Arnórssonar sem áður hafði gengið frá félagaskiptum yfir í Þrótt Vogum, en Arnór kemur frá ÍH. Líkt og Pétur bróðir hans hefur hann komið víða við og spilað 79 leiki með fimm mismunandi liðum. Arnór spilaði þrettán leiki með ÍH í 2. deildinni í fyrra.
Athugasemdir