Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 02. maí 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 9.sæti
Mynd: Pedromyndir - Þórir Tryggvason
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Pedromyndir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sætinu í þessari spá voru Þórsarar sem fengu 107 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Þór.


9.sæti: Þór
Búningar: Hvít treyja, rauðar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.thorsport.is

Það verður virkilega fróðlegt að sjá hvernig Þórsarar munu mæta til leiks þegar Íslandsmótið hefst. Liðið hefur verið að ganga í gegnum ákveðin kynslóðaskipti að undanförnu og nú fer að koma í ljós hvernig öflugt starf félagsins í yngri flokkunum mun skila sér. Þór leggur traust sitt á unga uppalda leikmenn.

Þór er fjölskylduklúbbur þar sem ákveðin samheldni ríkir. Liðið á marga virkilega unga og spræka stráka og má þar meðal annars nefna Einar Sigþórsson sem var að ganga upp úr 2. flokki. Einar hefur öðlast reynslu með meistaraflokki síðustu ár og eru góðar líkur á því að hann springi virkilega út í sumar eins og fleiri ungir leikmenn Þórsliðsins.

Sóknarmaðurinn Hreinn Hringsson er virkilega mikilvægur hlekkur í liðinu. Er þyngdar sinnar virði í reynslu og kann svo sannarlega listina að skora mörk. Óvíst er hve mikið refirnir Lárus Orri Sigurðsson og Hlynur Birgisson geta spilað í sumar enda aldurinn farinn að segja til sín. Þeir búa þó yfir mikilli reynslu sem margir leikmanna liðsins skortir.

Aleksandar Linta og Ibra Jagne eru komnir yfir ána og gengnir til liðs við Þór. Farið er að síga á seinni hluta ferils Linta og Ibra Jagne hefur átt ansi misjafna leiki á ferli sínum hér á landi. Báðir leikmenn eru því talsvert spurningamerki fyrir sumarið en gætu reynst sterkir ef þeir ná sér á strik. Þá hefur liðið fengið kamerúnskan miðjumann. Jóhann Halldór Traustason sem lék alla leiki Þórs í deildinni í fyrra en er fluttur til Noregs og þá er Víglundur Páll Einarsson kominn í Hött.

Þórsarar enduðu í sjöunda sæti í deildinni í fyrra en á Akureyri vilja menn sjá liðin í bænum fara að gera alvöru atlögu að sæti í Landsbankadeildinni. Ef það fer ekki að takast hljóta raddir um sameiningu Þórs og KA að verða enn háværari.

Styrkleikar: Aldrei skal vanmeta fjölskyldustemninguna og samheldnina. Þórsarar hafa öfluga sóknarlínu sem getur verið ansi skeinuhætt. Mikið af virkilega góðum ungum leikmönnum og svo nokkrar gamlar reynslumiklar kempur. Heimavöllurinn hefur oft reynst Þórsurum vel.

Veikleikar: Varnarleikurinn hefur verið ákveðið vandamál hjá Þór síðustu ár. Það sama gæti verið uppi á teningnum í sumar en vörn liðsins virðist vera mjög brothætt. Atli Jens Albertsson leikur þar algjört lykilhlutverk, er virkilega sterkur leikmaður sem má alls ekki vanta. Annars skortir hraða eða reynslu í leikmenn í öftustu línu. Breiddin mætti vera meiri í ákveðnar stöður á vellinum.

Þjálfari: Lárus Orri Sigurðsson. Var atvinnumaður í Englandi í mörg ár og harður í horn að taka. Á yfir 40 landsleiki fyrir Ísland að baki. Kom heim fyrir sumarið 2005 og lék með Þór, liðinu sem hann yfirgaf 1994 þegar hann hélt erlendis. Eftir tímabilið það ár tók hann við þjálfun liðsins og hefur stýrt því undanfarin ár.

Lykilmenn: Atli Jens Albertsson, Einar Sigþórsson, Hreinn Hringsson.

Komnir: Aleksandar Linta frá KA, Ibra Jagna frá KA, Belmondo Khumba Mbangha frá Kamerún, Víkingur Pálmason frá Fjarðabyggð, Brynjar Davíðsson frá Magna.

Farnir: Jóhann Halldór Traustason til Noregs, Víglundur Páll Einarsson í Hött, Ingi Hrannar Heimisson hættur, Helgi Jones hættur og Þórður Halldórsson hættur.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner