Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 03. maí 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 8.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Dagsljós
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sætinu í þessari spá voru KA sem fengu 115 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um KA,

.
KA
Búningar: Gul treyja, bláar buxur, gulir sokkar.
Heimasíða: http://fot.ka-sport.is

Það var aðeins fjölgun liða í landsdeildum sem bjargaði KA frá falli í fyrra. Liðið hafnaði í næstneðsta sæti 1. deildarinnar en undir eðlilegum kringumstæðum er það fallsæti niður í 2. deild. En þar sem verið var að fjölga liðum í Landsbankadeildinni féll aðeins eitt lið úr 1. deildinni og KA slapp með skrekkinn.

Spáð er að KA-menn verði á svipuðum slóðum og frændur þeirra í Þór á komandi tímabili, muni vera í neðri hluta deildarinnar. Þar sem reikna má með mjög jafnri deild er þó ljóst að ef allt smellur saman hjá KA-mönnum og heppnin er í liði með þeim gætu þeir vel barist í efri hlutanum ef miðað er við mannskap. Það hlýtur allavega að vera krafan þegar lið inniheldur fimm erlenda leikmenn.

Dean Martin er tekinn við liðinu jafnframt því að hann mun spila með því. Ef hann sleppur við meiðsli verður hann liðinu gríðarlega mikilvægur enda einn albesti kantmaður íslenska boltans undanfarin ár. Fróðlegt verður að sjá hvort hann höndli þjálfarahlutverkið betur en markvörðurinn Sandor Matus gerði.

Ungverskur varnarmaður, Norbert Farkas, er kominn í KA og þá ættu erlendu leikmennirnir sem fyrir eru að vera búnir að læra enn betur inn á íslenska boltann. Nokkrir leikmenn hafa komið og nokkrir farir svo breytingarnar á liði KA geta ekki talist stórvægilegar. KA hefur átt sterka leikmenn í yngri flokkum sem eru farnir að banka þéttingsfast á dyrnar og gætu látið að sér kveða í sumar.

KA hafnaði í þriðja sæti í sínum riðli í Lengjubikarnum. Liðið var fyrir framan úrvalsdeildarlið Þróttar og svo einnig á undan Haukum og KS/Leiftri sem eru einnig í 1. deildinni. Meðal leikmanna KA sem vert er að fylgjast með er Almarr Ormarsson sem fæddur er 1988. Hann hefur bætt sig mikið á skömmum tíma og ljóst að þar fer leikmaður sem á framtíðina fyrir sér.

Styrkleikar: Sandor Matus er einn besti markvörður sem spilar hér á landi. Þrátt fyrir áhuga frá úrvalsdeildarliðum hefur þessi mikli vítabani sýnt KA mikla tryggð og er liðinu ótrúlega mikilvægur. Hópurinn inniheldur ágætis blöndu af yngri leikmönnum og reyndari köppum. Lið KA er agað og getur á góðum degi lagt öll lið að velli.

Veikleikar: KA fékk aðeins fjögur stig utan Akureyrar á síðasta tímabili. Það er arfadapurt og útivallarárangurinn eitthvað sem liðið verður að laga í sumar. Hópurinn er ekki mjög breiður og ef liðið lendir í mótlæti gæti liðið brotnað og átt í erfiðleikum með að ná sér á strik enda með marga unga og óreynda leikmenn.

Þjálfari: Dean Martin. Er kominn aftur í KA en þegar hann var þar áður þjálfaði hann í yngri flokkum félagsins við góðan orðstír. Fór síðan á Skagann og lék með ÍA síðustu þrjú ár. Martin kom fyrst til KA frá Englandi árið 1995 en skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í vetur. Er að stíga sín fyrstu skref sem meistaraflokksþjálfari.

Lykilmenn: Sandor Matus, Almarr Ormarsson og Dean Martin.

Komnir: Dean Martin frá ÍA, Norbert Farkas frá Ungverjalandi, Arnar Már Guðjónsson frá ÍA, Þorsteinn Þorvaldsson frá Magna, Guðmundur Óli Steingrímsson frá Völsungi.

Farnir: Aleksandar Linta í Þór, Ibra Jagne í Þór, Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson í KS/Leiftur, Ingvi Hrafn Ingvason í Dalvík/Reyni, Birkir Halldór Sverrisson í FH.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner