Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í tólfa og neðsta sæti í þessari spá voru nýliðar Hamars sem fengu 30 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hamar.
12. Hamar
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.hamarsport.is
Hamar úr Hveragerði komst upp í 2. deild eftir að hafa lagt Leikni Fáskrúðsfirði að velli í 8-liða úrslitum 3. Deildar í fyrra. Fjölgun liða í 2. deild gerði það að verkum að það nægði til að liðið færi upp um deild. Hamar fór nokkuð örugglega í úrslitakeppnina undir stjórn hins gamalreynda Boban Ristic og gerðu það sem þurfti til að komast upp um deild.
Það kom eflaust mörgum á óvart að Hamar skyldi tryggja sér sæti í 2. deild en það er hins vegar ljóst að markmið félagsins fyrir tímabilið í fyrra var að fara alla leið. Félagið réð hinn gamalreynda Boban Ristic sem þjálfara og var sú ráðning staðfesting á því að Hamar ætlaði að gera atlögu að einu af þeim fimm sætum sem gáfu rétt til að leika í 2. deild að ári. Nú þegar félagið er loks komið í 2. deild er ljóst að liðið þarf að sýna úr hverju það er gert.
Það verður seint sagt að lið Hamars sé stjörnuprýtt lið. Með liðinu leika þó nokkrar kempur eins og Kristmar Geir Björnsson sem lék lengi vel með Tindastóli og Zoran Panic sem gerði garðinn frægan með HK. Panic hefur verið drjúgur með liðinu í Lengjubikarnum og mun mikið mæða á þeim snjalla knattspyrnumanni í sumar.
Einnig hefur Boban Ristic náð að draga Predrag Milosavljevic aðeins á flot í Lengjubikarnum og spurning hvort hann leiki eitthvað með liðinu í sumar. En til þess að styrkja liðið fyrir átökin í sumar hefur Hamar fengið til sín nokkuð óþekktar stærðir. Helstan ber þó að nefna Ágúst Örlyg Magnússon sem er uppalinn á Skaganum en hann var hluti af afar öflugum 2. flokki fyrir nokkrum árum. Síðan þá hefur hann leikið með KS, Víkingi og Kára.
Árangur Hamars í Lengjubikarnum var hreint út sagt skelfilegur. Liðið lék fimm leiki og hlaut ekki eitt einasta stig. Liðið tapaði stórt fyrir Víði og ÍR ásamt því að tapa fyrir tveimur 3. deildar liðum, BÍ/Bolungarvík og Augnablik. Slíkt veitir ekki á gott fyrir sjálfstraustið en það er spurning hvað leikmenn liðsins gera þegar út í alvöruna er komið.
Í fyrra fór liðið alla leið í úrslitum C-deildar Lengjubikarsins og hélt liðið sínu striki allt til loka móts. Nú er önnur staða uppi. Liðið vann ekki leik í Lengjubikarnum og Boban Ristic bíður erfitt hlutskipti að rétta skútuna af.
Styrkleikar: Það er ljóst að félagið ætti að hafa þó nokkurn meðbyr með sér enda á Hveragerði loksins lið í 2. deild og ætti heimavöllur liðsins að vera liðinu þó nokkuð drjúgur. Grýluvöllur gæti orðið sú gryfja sem gæti komið liðinu yfir erfiðasta hjallann í sumar. Liðið tapaði aðeins einum heimaleik þar í deildinni síðasta sumar.
Veikleikar: Það gæti verið ansi slæmt fyrir liðið að fara algjörlega rúna að sjálfstrausti inn í mótið. Eins og áður segir hlaut liðið ekki stig í Lengjubikarnum og hefur holningin á liðinu ekki verið eins sannfærandi og á síðasta tímabili. Árangur liðsins á útivelli í fyrra var þokkalegur en liðinu gekk illa að skora mörk. Aðeins átta mörk litu dagsins ljós og verður liðið að bæta úr því í sumar.
Þjálfari: Boban Ristic. Gamla kempan Boban Ristic gerði frábæra hluti með liðið á sínu fyrsta ári og stýrði liðinu upp um deild. Núna bíður hans enn erfiðara verkefni og það er að halda liðinu í deildinni. Reynsla Boban mun án efa nýtast honum vel í sumar í þjálfuninni sem og inn á vellinum. Sú reynsla mun koma að afar góðum notum fyrir liðið í sumar.
Lykilmenn: Zoran Panic, Boban Ristic og Kristmar Geir Björnsson
Komnir: Ágúst Örlaugur Magnússon frá Kára, Ágúst Ingi Brynjarsson frá KFS, Guðjón Bjarni Hálfdánarson frá Ægi, Gunnar Ásgeirsson frá Hvöt, Hafsteinn Þór Auðunsson frá Neista H, Hilmir Hjaltason frá Kára, Hlynur Kárason frá Ægi, Stefán Helgi Einarsson frá Ægi.
Farnir: Atli Björn Levy í Ægi, Danislav Jevtic í Ægi, Samuel Ochieng Sewe í Selfoss, Sveinn Þór Steingrímsson í Grindavík.
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11.
12. Hamar 30 stig
Athugasemdir