Bikarmeistarar KR fengu gleðitíðíndi í dag þegar það varð ljóst að Olga Færseth ætlar að spila með liðinu í Landsbankadeild kvenna á komandi leiktíð en hún hefur lítið æft með liðinu í vetur og hefur íhugað framtíð sína. Helena Ólafsdóttir þjálfari liðsins staðfesti við Fótbolta.net í kvöld að Olga mun spila með KR í sumar.
,,Eins og ég er búin að tala um í vetur þá munar mikið um Olgu og hún er náttúrulega frábær leikmaður og spilaði vel með okkur í fyrrasumar," sagði Helena í samtali við Fótbolta.net í kvöld.
,,Þetta eykur breiddina hjá okkur fram á við því við höfum verið með fáa hreinræktaða sóknarmenn. Ég er alsæl að Olga ætlar að spila. Hún er að byrja að æfa og nú fer hún í gegnum ákveðið prógramm en hún er búin að vera að hreyfa sig eitthvað. Hún byrjar núna á fullu að koma sér í stand og það tekur væntanlega einhvern tíma en hún græjar það.."
KR leikur sinn fyrsta leik í Landsbankadeildinni gegn Keflavík á Sparisjóðsvellinum í Keflavík á mánudagskvöld og Helena sagði ekki ljóst hvort Olga yrði með liðinu strax í þeim leik.
,,Það verður að koma í ljós, það er undir henni komið. Eins og ég segi þá þarf hún smá tíma en ef ég tel að liðið hafi not fyrir hana í Keflavík þá spilar hún þar," saðgi Helena en Olga var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð og á undirbúningstímabilnu hefur Hrefna Huld Jóhannesdóttir borið bandið. En hver verður fyrirliði í sumar.
,,Það hefur ekkert verið skoðað, þetta var bara að koma í ljós svo ég hef ekki ákveðið neitt í þeim efnum. En Hrefna var fyrirliði og er fyrirliði á meðan Olga er frá," sagði Helena sem gerir ráð fyrir að hafa alla sína leikmenn klára í leikinn gegn Keflavík.
,,Ég held að allar séu í lagi, ég á eftir að líta á landsliðsstelpurnar eftir þeirra verkefni. Ég hitti Eddu, Ólínu og Fríðu og það var allt í góðu þar. Fríða þarf smá tíma en er öll að koma til. Það eru engin meiðsli að hrjá hana en hún þarf að koma sér í enn betra form og hefur verið að komast í leikæfingu í síðust leikjum með landsliðinu og okkur og það er það sem hana vantaði uppá."
Að lokum var Helena spurð hvort hún hyggist styrkja leikmannahóp sinn frekar fyrir komandi tímabil og hún sagði: ,,Ég hef ekki hugsað mér það neitt, ég ætlaði alltaf að spila þetta á okkar leikmönnum sem við áttum hérna heima. En við vitum ekki hvaða staða gæti komið upp á okkar leikmönnum en ég geri ráð fyrir að þetta sé okkar lokahópur."
Athugasemdir