þri 13. maí 2008 08:01
Magnús Már Einarsson
Landsbankadeild: Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðm (FH)
Tryggvi í leiknum á laugardag.
Tryggvi í leiknum á laugardag.
Mynd: FH.is
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson er leikmaður 1.umferðar í Landsbankadeild karla hér á Fótbolti.net. Tryggvi fór á kostum í 4-0 sigri FH á HK, lagði upp þrjú mörk og skoraði síðan fjórða markið sjálfur.

Tryggvi Guðmundsson
Tryggvi Guðmundsson hefur verið einn af betri leikmönnum Landsbankadeildarinnar síðan hann kom heim úr atvinnumennsku árið 2005. Tryggvi er mikill markaskorari en hann hefur skorað 88 mörk í 139 leikjum í efstu deild á Íslandi. Hann hefur einnig skorað 12 mörk í 42 leikjum með landsliði Íslendinga.

,,Það er ekkert oft sem maður leggur upp þrjú og skorar eitt þannig að auðvitað gat þetta alveg komið til greina," sagði Tryggvi við Fótbolta.net í gær aðspurður hvort tilnefningin hefði komið á óvart.

,,Ég var ánægður með hvernig við sem liðsheild mættum í þennan leik. Við héldum hreinu og gerðum fjögur fín mörk. Ég hefði reyndar átt að skora eitt í viðbót, ég fékk fínt færi í byrjun leiks en annars er ég mjög sáttur," sagði Tryggvi en hann bjóst við HK-ingum sterkari.

,,Þetta var fyrsti heimaleikur þeirra og ég verð að segja það að ég bjóst við þeim sterkari. Kannski vorum það við sem hleyptum þeim aldrei inn í leikinn og gáfum þeim aldrei séns á að ná upp sínu spili, þú ert ekkert betri en andstæðingurinn leyfir."

Tryggvi hefur farið mikinn á undirbúningstímabilinu, skorað og lagt upp fjölda marka og hann hélt uppteknum hætti gegn HK.

,,Ég ætla nú ekki að vera með einhverjar yfirlýsingar og missa mig algjörlega út af einum góðum leik í fyrstu umferð en ætli lykillinn að þessu sé ekki að mér finnst þetta rosalega gaman. Ég hef gaman að þessu, æfi vel og hugsa vel um mig. Ég hugsa að það sé að skila sér."

,,Ég hef ekki verið að gera neitt öðruvísi núna en síðustu ár. Ég er kannski eldri og klókari. Það jákvæða við það þegar maður verður eldri er að maður verður klókari líka."


Í fyrri hálfleik í leiknum á laugardag lét Tryggvi stuðningsmenn HK heyra það eftir að þeir höfðu skotið á hann. Tryggvi bað stuðningsmennina um að haga sér eftir að hafa fengið háðglósur frá þeim.

,,Samtök leikmanna eru nýbúin að koma með yfirlýsingu þar sem við erum búnir að hvetja menn til að styðja sitt lið og vera ekki að hrauna yfir andstæðingana. Það voru þarna látin orð flakka gagnvart mér, ekkert sem ég tók inn á mig og ekkert sem er eitthvað nýtt í mínum augum."

,,Það er alltaf mjög gaman þegar menn hrópa inn á völlinn og segja að ég sé sköllóttur eins og ég viti það ekki sjálfur. Ég öskraði til baka og bað þá um að haga sér vel. Ég fór nú reyndar hinu megin á völlinn í seinni hálfleik þannig að ég heyrði ekki í þeim en þetta er ekkert stórmál, bara minna menn á að styðja frekar sitt lið en hrauna yfir andstæðingana."


FH-ingar hafa átt misjöfnu gengi að fagna í síðustu leikjunum fyrir mót en liðið lék vel á laugardag og hóf mótið af krafti.

,,Við byrjuðum árið mjög vel og töpuðum ekki leik. Síðan fórum við út í æfingaferð til Portúgal og hún var svolítið erfið, það var mikil keyrsla. Við komum heim eftir hana og þá fannst mér ekki vera sérstakur bragur á liðinu en við sýndum það síðan í leiknum "meistarar meistaranna" að þrátt fyrir tap værum við á réttri leið og við undirstrikuðum það núna með þessum leik á móti HK. Þetta er bara einn leikur af 22 og við erum ekkert að fara að missa okkur, við höldum okkur niðri á jörðinni,"" sagði Tryggvi en á fimmtudagskvöld fá FH-ingar lið ÍA í heimsókn.

,,Það verður erfiður leikur, við áttum tvær erfiðar rimmur við þá í fyrra. Það fór 1-1 á Krikanum í fyrra og þeir eru með massívt lið með góða leikmenn innanborðs. Þeir eru búnir að bæta við sig frá því í fyrra, Stefán Þórðar kominn heim og annar Króati þannig að ég á von á hörkuleik," sagði Tryggvi Guðmundsson, leikmaður 1.umferðar, að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner