mið 21. maí 2008 15:07
Magnús Már Einarsson
Landsbankad.: Leikmaður 3.umferðar - Þórður Ingason (Fjölnir)
Þórður í leiknum í Grindavík.
Þórður í leiknum í Grindavík.
Mynd: Fótbolti.net - Bjarni Már Svavarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Ingason markvörður Fjölnis er leikmaður 3.umferðar í Landsbankadeild karla en hann varði frábærlega í 1-0 útisgri liðsins á Grindavík í fyrrakvöld.

Þórður Ingason
Þórður Ingason er uppalinn hjá Fjölni. Þessi efnilegi markvörður lék sinn fyrsta leik í fyrstu deild sumarið 2004 og varði vítaspyrnu á fyrstu mínútu í þeim leik. Þórður var aðalmarkvörður Fjölnis þegar að liðið sigraði fyrstu deildina í fyrra en þessi tvítugi leikmaður á að baki leiki með öllum yngri landsliðum Íslands. Þórður var í hálft ár á láni hjá Everton 2006 en kom síðan aftur til Fjölnis.
,,Ég get ekki neitað því að þetta kemur á óvart en ég var þokkalega sáttur með leikinn. Það var gaman að halda hreinu," sagði Þórður við Fótbolta.net í dag.

,,Vindurinn var svolítið að bögga mig en maður reynir að pæla ekki of mikið í því. Maður hlær bara af þessu ef eitthvað klikkar og reynir að gera betur."

Fjölnismenn eru að leika í fyrsta skipti í Landsbankadeildinni en liðið hefur komið af krafti inn í deildina og situr sem stendur á toppnum með níu stig.

,,Að við séum á toppnum kemur mikið á óvart. Þetta hefur dottið svolítið með okkur en ég hafði alltaf trú á því að við gætum unnið hvaða leik sem er. Við erum með hörkulið."

,,Markmiðið er að halda sér uppi, byrja á því. Síðan getum við farið að hugsa um eitthvað annað."

Káramenn, stuðningsmannasveit Fjölnis, hefur látið vel í sér heyra á leikjum liðsins og Þórður er ánægður með stuðninginn.

,,Þeir eru í einu orði sagt geðveikir. Þetta hjálpar ótrúlega mikið, maður heyrir ekki í hinu liðinu. Það skiptir ekki máli hvort við séum í Grindavík eða á Eskifirði, þeir eru alltaf snarvitlausir."

Fjölnismenn fengu markvörðinn Hrafn Davíðsson frá ÍBV í vetur en hann kom hingað til lands frá Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum. Þórður var ekki smeykur við að missa sæti sitt í liðinu eftir komu Hrafns.

,,Nei í rauninni ekki. Hann kom þegar að mótið var byrjað en maður þarf bara að vera á tánum núna. Það kemur ekkert annað til greina en að halda sæti sínu."

Næsta verkefni Fjölnismanna er á sunnuaginn en þá heimsækir liðið Íslandsmeistara Vals á Vodafone-völlinn. Þórður er hvergi smeykur fyrir þann leik.

,,Mér líst bara helvíti vel á það, það verður gaman. Ef við spilum okkar leik þá gæti orðið gaman eftir leikin," sagði Þórður Ingason, leikmaður 3.umferðar, að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 2.umferðar - Pálmi Rafn Pálmason (Valur)
Leikmaður 1.umferðar - Tryggvi Guðmundsson (FH)
Athugasemdir
banner
banner